Greining ADHD hjá austfirskum börnum

ImageAthyglisbrestur með/án ofvirkni (ADHD) er nokkuð algengur vandi meðal barna og ungmenna. Rannsóknir benda til að um 7% barna uppfylli greiningarviðmið fyrir ADHD og einkennin fylgja sumum fram á fullorðinsár. Höfuðeinkenni ADHD eru athyglisskortur, hvatvísi og hreyfiofvirkni.

Þessi einkenni birtast í mörgum myndum og geta haft mjög neikvæð áhrif á nám barna og samskipti, bæði við jafnaldra og fullorðna. Auk þess glíma mörg þessara barna við einhverskonar fylgiraskanir. Talið er að orsaka ADHD megi að stórum hluta rekja til arfgengra truflana í taugaþroska.

 

Ekki eru til tölur um hversu mörg börn á Austurlandi eru greind með ADHD, en gróflega áætlað gæti verið um 150 leik- og grunnskólabörn að ræða. Undanfarin ár hafa sálfræðingum Skólaskrifstofu Austurlands borist árlega um 130-150 beiðnir um aðstoð. Í um helmingi tilfella er uppgefin tilvísunarástæða ýmist grunur um ADHD eða óskað er eftir einhverskonar eftirfylgni sálfræðings fyrir barn sem þegar er greint með ADHD. Auk þess veita kennsluráðgjafi og talmeinafræðingur Skólaskrifstofu þessum börnum ýmiskonar þjónustu.

Hingað til hefur ekki verið hægt að greina ADHD með læknisfræðilegum mælitækjum, en víða um heim er verið að þróa slíkar aðferðir. Íslenskt fyrirtæki vinnur t.d. að því að þróa leiðir til þess að nota heilarit við greininguna og sú aðferð lofar góðu. Þar til slíkar aðferðir komast í notkun er gengið út frá ýmiskonar upplýsingum um hegðun og þroska við greiningu á ADHD.

Hér í fjórðungnum er algengast að frumgreining ADHD fari fram hjá sálfræðingum Skólaskrifstofu. Foreldrar geta óskað eftir slíkri athugun á eyðublöðum sem finna má á heimasíðu Skólaskrifstofunnar; www.skolaust.is. Biðtími eftir aðstoð getur í sumum tilvikum verið nokkuð langur en beiðnum er forgangsraðað, m.a. út frá hversu alvarlegur vandi barnsins virðist vera. Foreldrar geta einnig óskað eftir athugun vegna ADHD hjá sjálfstætt starfandi barnalæknum, en flestir læknar vilja að námshæfni o.fl. hafi áður verið athuguð með greindarprófi. Hér á Austurlandi eru sálfræðingar Skólaskrifstofu þeir einu sem taka að sér að gera slíkar athuganir.

Frumgreiningin á Skólaskrifstofu hefst yfirleitt á því að sálfræðingur aflar upplýsinga hjá foreldrum og kennurum um heilsufar, hegðun, líðan, félagslega stöðu, þroska, námsframvindu o.fl. Skimað er fyrir vandkvæðum sem valdið geta einkennum sem líkjast ADHD, en stafa í raun af öðrum orsökum, auk þess sem haft er í huga hvort barnið sé með einhverskonar fylgiröskun. Foreldrar og kennarar (og stundum barnið sjálft) svara ýmiskonar matslistum og stundum fylgist sálfræðingur með barninu og aðstæðum þess í skólastofunni. Greindarpróf eru mikilvægur liður í athugunum vegna ADHD. Niðurstöður þeirra eru bornar saman við frammistöðu í námi og athuganir kennslu- og talmeinafræðinga á málþroska, lestri og stærðfræðigetu, ef slíkar athuganir hafa verið gerðar. Stundum er óskað frekari athugana, t.d. á heyrn o.fl.

Þegar allra nauðsynlegra upplýsinga hefur verið aflað eru niðurstöðurnar birtar í ýtarlegri skýrslu sem kynnt er foreldrum ásamt kennurum. Þar kemur fram yfirlit þeirra upplýsinga sem aflað hefur verið, niðurstöður matslista og prófana ásamt áliti sálfræðings. Frumgreiningu er aldrei lokið fyrr en bent hefur verið á úrræði sem hentað geta viðkomandi barni og fjölskyldu þess. Í skýrslu er jafnframt bent á ýmis almenn úrræði og möguleika á frekari fræðslu. Í grófum dráttum felast mótvægisaðgerðir gegn ADHD aðallega í atferlismótandi uppeldis- og kennsluaðferðum, aðlöguðu umhverfi í skóla, sérkennslu, félagsfærniþjálfun, námskeiðum og fræðslu fyrir foreldra og kennara. Í sumum tilvikum kemur lyfjameðferð einnig til greina. Þegar ástæða þykir til að skoða kosti og möguleika slíkrar meðferðar er mælt með frekari athugunum hjá barnageðlækni. Nánast undantekningarlaust fara allar athuganir, viðtöl og fundir á vegum Skólaskrifstofu fram í skóla viðkomandi nemanda, nema annars sé óskað.

Í tilefni af ADHD vakningarvikunni heldur Skólaskrifstofan námskeið fyrir starfsfólk grunnskóla dagana 30. september – 1. október á Egilsstöðum (sjá nánar á www.skolaust.is).


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.