Grænlensk sendinefnd skoðaði austfirskar stóriðjuslóðir
Ellefu manna sendinefnd frá Grænlandi heimsótti í vikunni Ísland og skoðaði stóriðjuslóðir á Austurlandi og Húsavík fyrir utan að hitta íslenskar þingnefndir. Grænlendingar eiga í viðræðum við Aloca um byggingu álvers.
Sjö fulltrúar úr grænlensku álnefndinni, sem starfar innan þingsins, voru í ferðinni auk iðnaðarráðherra, forstjóra virkjunarfyrirtækis grænlensku heimastjórnarinnar, þróunarráði Grænlands og nokkurra fulltrúa og aðstoðarmanna. Nefndin skoðaði álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði, Fljótsdalsstöð og Kárahnjúkastíflu, aðstæður á Bakka og hitti umhverfis- og iðnaðarnefndir Alþingis.
Grænlendingar hafa verið í viðræðum við Alcoa um að byggja álver við Maniitsoq, þrjú þúsund manna bæ á vestur Grænlandi. Gert er ráð fyrir að tvær vatnsaflsvirkjanir verði byggðar til að sjá því fyrir orku. Málið verður rætt í þinginu í vetur og væntanlega tekin ákvörðun af eða á um byggingu álversins á næsta ári. Samkvæmt áætlunum gæti verksmiðjan farið í rekstur árið 2014.
Í samtali við Austurgluggann sagði Akitsinnguaq Olsen, formaður álnefndar þingsins sem áður var eini starfsmaður Alcoa á Grænlandi, að miklar og heitar umræður hefðu farið fram um framkvæmdirnar og áhrifum hennar á lífríkið. Akitsinnguaq var kjörin á þing í byrjun júní en stjórnarandstaðan vann þá kosningasigur.
Ove Karl Berhelsen komst þá til valda sem iðnaðarráðherra en hann var með í ferðinni. Hann hafði áður skoðað austfirsku virkjunarsvæðin fyrir tveimur árum og fannst aðdáunarvert að sjá hversu miklu hefði verið áorkað síðan þá. Honum fannst jákvætt að hitta heimamenn og heyra að framkvæmdirnar hefðu skapað mörg atvinnutækifæri og betri fjárhagslegan stöðugleika.
Aukinn kraftur hefur komist í virkjunarframkvæmdir á Grænlandi með aukinni sjálfsstjórn. Við Sisimiut rís virkjun sem Ístak byggir. Stefna Grænlendinga er að vera með eina virkjun í byggingu á hverjum tíma. Um fjörutíu prósent þeirrar orku sem Grænlendingar þurfa fæst úr vatnsaflsvirkjunum en afgangurinn með brennslu díselolíu. Stefnt er að því að auka veg vatnsaflsvirkjananna verulega á næstu árum. Grænlendingar prófa einnig nýja tækni til geymslu orku.