Guði sé lof fyrir jólin

Þegar ég var að velta því fyrir mér hvað ég gæti sagt við ykkur í þessari hugvekju fór ég um stund að velta því fyrir mér af hverju ég segði alltaf já. Það var svona um það leyti sem ég virtist ekki ætla að ná að klára að skrifa þennan texta og reitti hár mitt og skegg í örvæntingu. En blessunarlega komst ég að því að það var búið að svara þessari spurningu fyrir mig.

Á fyrsta sunnudegi þessarar aðventu flutti rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir nefnilega erindi í Grafarvogskirkju og velti því einmitt fyrir sér af hverju hún segði alltaf já þegar hún væri beðin um að tala í kirkju. Svar hennar, sem ég hef ákveðið að gera einnig að mínu, var svohljóðandi: „Vegna þess að ég stenst ekki mátið. Það er ekki það oft sem fólk kemur saman sérstaklega til að fjalla um andann. Þannig að; þegar mér er boðið á þannig samkomur tími ég ekki að segja nei. Ég á það sameiginlegt með virkum og óvirkum alkóhólistum þessa heims að þurfa bara svo mikinn spíritus.“

Þetta þótti mér skynsamlega mælt. Andinn, eða sálin, innra með okkur öllum er svo merkilegt fyrirbæri. Við getum ekki séð sálina eða heyrt. Við finnum bara fyrir henni. Hún er ekki áþreifanleg en er samt sennilega, og enn gríp ég til orða Guðrúnar Evu, „raunverulegasti parturinn af okkur“. Við, eins og við þekkjum okkur, erum nefnilega andi en ekki líkami. Þessi býsna misjafni kílóafjöldi af holdi og beinum er ekki við. Það er ekkert holdlegt sem gerir okkur að því sem við erum. Við erum hugsanir okkar og tilfinningar.

Þurfum að gefa okkur tíma fyrir andann

Þetta vitum við alveg ef við gefum okkur tíma til að hugsa um það. Og það er þetta sem er mergurinn málsins. Við þurfum að gefa okkur tíma fyrir andann. Sennilega er þetta verst geymda leyndarmál veraldar. Því við mannfólkið erum svo gjörn á að gleyma þessu og láta síðan selja okkur nýjar og nýjar lausnir við þessum vanda, sem er löngu þekktur og löngu búið að leysa. Það verður svo sem engum til tjóns þannig séð. Það er ekkert nema gott um það að segja að iðka núvitund, stunda jóga eða gera slökunaræfingar. Það er bara dálítið hjákátlegt að fylgjast með okkur hlaupa um, leitandi lausna á þessum andlegu þörfum okkar þegar stóra vandamálið er sennilega bara að við erum hætt að biðja bænir.

Ég ætla að segja það eins og er að ég tel eina af meginástæðum þess rótleysis sem ég held að við upplífum svo mörg í samfélagi okkar sé einfaldlega að skilið hefur verið um of á milli hins daglega lífs og trúarlífsins. Af ýmsum ástæðum höfum við fjarlægst Guð, við biðjum sjaldnar og þá svölum við ekki þörfum andans. Og við reynum eins og við getum að uppfylla þessar þarfir með misjöfnum árangri og gerum allt annað en að leita í þau úrræði sem hafa dugað okkur best um árþúsundir. Að leita til Guðs.

Hvað erum við að undirbúa?

En eins og ég sagði áðan þá er ekkert nema gott að segja um aðrar leiðir. Allt sem leiðir til þess að við tökum okkur tíma til að næra andann er gott, hvað sem það er. Bæn eða slökun, tónleikar, myndlistarsýningar, að setjast niður með góða bók. Svo lengi sem það er gert á forsendum andans, okkur sjálfum til sálarheilla, þá er það gott. Það eru því miður of margir sem gera þetta bara aldrei. Og það getur ekki endað vel því heilbrigði okkar er háð sálarheillinni.

Því segi ég, og meina það innilega, Guði sé lof fyrir jólin. Jafnvel þeir sem ekkert hugsa um Guð eiga jólin í okkar samfélagi. Hátíð sem er svo stór og merkileg og skiptir okkur öll svo miklu máli að við höfum eiginlega mótað okkur hálfgerða undirbúningshátíð fyrir hana, sem við köllum aðventu. Við þekkjum þetta öll. Aðventan er sá tími sem við notum til að undirbúa jólin og allt það sem þeim fylgir. Og við erum öll orðin afar upptekin á aðventunni því það er margt á dagskránni og ætlast til margs af okkur. Við skulum bara vera heiðarleg og viðurkenna það fyrir okkur sjálfum að sum okkar væru ekkert hér nema fyrir það að börnin okkar eru að syngja hérna eða eitthvað álíka. Við gætum líka verið annars staðar því við eigum sjálfsagt eftir að hengja upp jólaseríu einhversstaðar, skrifa á jólakortin, kaupa jólagjafir eða eitthvað annað bráðnauðsynlegt fyrir jólin. Því aðventan er sannarlega undirbúningstími fyrir jólin. En hvað er það sem við eigum í raun að vera að undirbúa?

Allt fyrir andann

Svona í ljósi þess að ég er staddur í þar til gerðum stól, get ég ekki staðist mátið og ætla að leyfa mér að prédika svolítið yfir ykkur. Jólin eru hátíð andans. Allt sem við gerum á aðventunni á að vera til þess að undirbúa andann, sálina innra með okkur, til þess að taka á móti boðskap jólanna. Það þýðir ekki að ég ætlist til þess að við sitjum alla aðventuna, biðjum og hugleiðum, nei. En ég ætlast til þess að gjörðir okkar í aðdraganda jólanna hafi einhvern tilgang annan en þann að fylgja gömlum vana eða reyna að slá út seríubrjálæðinginn í næsta húsi til að eiga best skreytta húsið í götunni. Ef svo væri er þá gerðum við best í því að fleygja seríugarminum í ruslið og nota tímann í eitthvað annað.

Allt á að vera fyrir andann. Allt. Ef þið hengið upp jólaljós þá á það að vera vegna þess að ljósin minna okkur á ljósið sem fæddist í Betlehem, vegna þess að þau næra sálina, já eða bara láta okkur líða vel og gleðja börnin okkar. Það er fyrir andann. Ef við förum á jólatónleika er lágmark að við gerum það með því yfirlýsta markmiði að veita okkur andlega upplífgun. Ekki bara vegna þess að það er hefð eða okkur finnst við eiga að gera það. Það má segja ýmislegt um offramboð á jólatónleikum, en slíkir tónleikar geta sannarlega verið góð leið til þess að næra sálina og undirbúa okkur fallega fyrir jólahátíðina

Þetta verður svo augljóst þegar við förum að tala um baksturinn. Það vita það allir að við bökum ekki jólasmákökur vegna þess að þær eru svo hollar og næringarríkar. Alls, alls ekki. En hver er tilgangurinn þá? Jú, tilgangurinn er oftar en ekki að búa til samfélag. Margir búa til samfélag um að baka þær, njóta þess að gera það með vinum, börnum eða foreldrum sínum. Og það myndast oftar en ekki samfélag á hinum enda ferilsins einnig. Samfélag um að borða kökurnar. Það er ekki verra. Þar getur myndast samfélag sem þarf kannski ekki að vera svo ólíkt því sem við myndum hér við altarið þegar við neytum líkama og blóðs Krists. Það getur verið heilög stund að borða mömmukökurnar.

Undirbúningur hjartans

Við eigum endilega að gera það sem við gerum á aðventunni. Mig langar bara svo mikið til að við gerum þetta allt með ríkari vitund um að það á að felast í þessu öllu saman andleg næring. Því þegar við gerum það þá áttum við okkur fljótt á því að allar jólaskreytingarnar, baksturinn og allt þetta verður sannarlega heilagt þegar hugsunin að baki því er rétt. Við erum að undirbúa okkur og þegar undirbúningnum er lokið erum við tilbúin að taka við Guði í hjarta okkar og það mun ekki standa á honum. Hann er tilbúinn að koma til okkar alltaf og allsstaðar.

Verkefni okkar á aðventunni er því að finna hvað er Guðs og andans og viðhalda því og næra. Hins vegar má gjarnan sleppa tökunum á því sem er einhvers annars. Hlutina sem við gerum af misskilinni skyldurækni og eru í raun án alls tilgangs. Það sem er ekki andans er þar með ekki tilheyrandi helgi jólanna og því má gjarnan sleppa. Þannig höldum við raunverulega heilög jól.

Erindi flutt á aðventukvöldi Egilsstaðakirkju þann 9. desember 2018.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar