Hagsmuna innlendrar matvælaframleiðslu verði gætt
Aðalfundur Búnaðarsambands Austurlands fór fram síðastliðinn mánudag. Meðal umfjöllunarefna sem urðu að tillögum til m.a. ríkisvaldsins má nefna andstöðu við aðild að Evrópusambandinu, hækkað verð hreindýraleyfa, rýmkun veiðitíma gæsa, áhyggjur af umferð hreindýraveiðimanna í afréttum sauðfjár og upprunamerkingu matvæla. Þá lýsti fundurinn ánægju með þá nýsköpun og kraft sem er í sveitum Austurlands. Eftirfarandi eru tillögur aðalfundarins:
Tillaga I frá búfjár- og jarðræktarnefnd:
Aðalfundur BsA 2009, skorar á Umhverfisstofnun að hækka verulega verð á hreindýraleyfum, a.m.k. í takt við verðlag á síðustu árum.
Greinargerð
Í ljósi þess að eftirspurn eftir veiðileyfum hefur árum saman verið ríflega helmingi meiri en framboðið, er ekki óeðlilegt að verð hækki a.m.k. í takt við verðlag.
Samþykkt samhljóða. Send til Veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar
Tillaga II frá búfjár- og jarðræktarnefnd:
Aðalfundur BsA 2009, lýsir miklum áhyggjum af vaxandi tjóni á túnum og ökrum af völdum álfta og gæsa. Fundurinn beinir því til stjórnvalda að rýmka veiðitíma gæsa til 20. apríl ellegar að ríkið bæti það tjón sem þessir fuglar valda á ræktunarlöndum bænda.
Samþykkt samhljóða. Send til Veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar
Tillaga III frá búfjár- og jarðræktarnefnd:
Aðalfundur BsA 2009 lýsir áhyggjum af umferð hreindýraveiðimanna í afréttum sauðfjár. Fundurinn skorar á stjórnvöld að beina hreindýraveiðum á tímabilinu 15. júlí til 15. ágúst á þau svæði þar sem minnst hætta er á að sauðfé í sumarhögum verði fyrir ónæði. Minnt er á ákvæði fjallskilasamþykkta í þessu sambandi.
Greinargerð
Hreindýraveiðar byrja 15. júlí og valda því að lambfé hrekst úr sumarhögum um mitt sumar. Ljóst er að sláturlömb tapa við það eðlilegum fallþunga. Á þessum tíma er sauðgróður víða í blóma og umferð veiðimanna því óásættanleg á fyrrnefndu tímabili.
Samþykkt samhljóða. Send til Veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar
Tillaga III frá allsherjarnefnd A:
Aðalfundur BsA 2009 lýsir andstöðu sinni við að sótt verði um aðild að ESB og leggur þunga áherslu á að ef til aðildarviðræðna við ESB kemur verði hagsmunir landbúnaðarins settir í forgang og hvergi hvikað frá því að gæta hagsmuna innlendrar matvælaframleiðslu.
Samþykkt samhljóða. Send til forsætisráðherra og landbúnaðarráðherra
Tillaga IV frá allsherjarnefnd A:
Aðalfundur BsA 2009 lýsir ánægju sinni með að finna þann mikla kraft og fjölda hugmynda að nýsköpun í sveitum Austurlands sem miða að því að auka nýtingu og tekjur heima fyrir.
Samþykkt samhljóða. Til fjölmiðla
Tillaga I frá allsherjarnefnd B:
Aðalfundur BsA 2009 beinir því til BÍ og stjórnvalda að hraðað verði vinnu við að móta reglur um að öll matvæli sem seld eru hér á landi séu merkt upprunalandi. Þess verði gætt að eingöngu vörur af íslenskum uppruna verði merktar sem íslenskar.
Samþykkt samhljóða til BÍ , forsætisráðherra og landbúnaðarráðherra
Tillaga II frá allsherjarnefnd B:
Aðalfundur BsA 2009 leggur áherslu á mikilvægi leiðbeiningarþjónustu við landbúnaðinn og að þess verði gætt við þá vinnu sem framundan er við að ákvarða framtíð búnaðargjalds. Taka verður sérstaklega tillit til hinna dreifðari byggða sem njóta þjónustu minni leiðbeiningarstöðva þar sem stór hluti tekna kemur frá búnaðargjaldinu.
Samþykkt samhljóða. Send til BÍ
Tillaga IV frá allsherjarnefnd B:
Aðalfundur BsA 2009 telur ólíðandi að Ríkisútvarpið sem á að vera óháður fjölmiðill í eigu þjóðarinnar reki látlausan áróður fyrir aðildarumsókn að ESB. Fundurinn fer þess á leit við menntamálaráðherra að hann beini því til Ríkisútvarpsins að gæta þess að báðar hliðar Evrópuumræðunnar komi að jafnaði fram í fréttaflutningi þess og fréttaskýringum.
Samþykkt samhljóða. Til menntamálaráðherra