Háskólanám fyrir alla
Nú sit ég við tölvuna að skrifa þessar hugleiðingar, ég tek mér smáhlé frá aðferðafræðinni. Ég er að rembast við að klára verkefni sem ég þarf að skila í lotu næsta mánudag. Kannski er ég bara heppin, kemst upp með að mæta aðeins í eina lotu á þessari skólaönn hjá Háskóla Íslands. Hefði reyndar átt að mæta í tvær, en fékk leyfi frá því þar sem ég er með ungabarn. Vinkona mín þurfti að fara í þrjár lotur. Flugið kostaði mig aðeins 35 þúsund krónur og ég fæ að gista hjá bróðir mínum í Reykjavík , heppin!En er ég heppin? Snýst þetta um heppni? Ég er í námi við Háskóla Íslands, sem á að þjóna öllu Íslandi.
Með þeirri tækni sem til er í dag er hægt að veita sambærilega háskólamenntun hvar sem er á landinu og ríkisvaldið á að skilyrða fjármagn til háskólamenntunar á Íslandi með það fyrir augum að stunda megi námið hvar sem er á landinu.
Það er mikilvægt að við sem búum úti á landi vinnum ötullega í að bæta og þróa samfélagið. Bætt aðgengi að háskólamenntun og rannsóknarstarfsemi er í mínum huga stórmál. Háskólasetur á Austurlandi, sem styður við fjarnám nemenda og rannsóknir í fjórðungnum, er bráðnauðsynlegt og ríkisvaldið á að koma á myndarlegan hátt að rekstri þess. Það væri stórt skref í áttina að því markmiði að allir sitji við sama borð og fái jöfn tækifæri hvar sem þeir búa.
Fjölbreytt og góð menntun á hvaða skólastigi sem er á ekki að ráðast af heppni. Sköpum umgerð sem tryggir jafnt aðgengi að háskólanámi og rannsóknarstarfsemi hvar sem við búum á landinu. Fyrir því vil ég berjast og fyrir því viljum við í Vinstri grænum berjast. Gerum betur.
Höfundur er meistaranemi, skipar 10. sæti á lista VG og er varamaður í bæjarstjórn Fjarðabyggðar.