Háskólasetur á Austurlandi

Í nýlegri skýrslu Byggðastofnunar kemur fram að tækifæri til menntunar skipti verulegu máli fyrir byggðafestu. Algengt er að þau sem flytja af landsbyggðunum til að sækja háskólamenntun til höfuðborgarsvæðisins snúi ekki aftur í heimahagana að námi loknu.

Umrædd skýrsla sýnir líka - líkt og þessi rannsókn - að fólk sem stundar fjarnám á háskólastigi, búsett í sinni heimabyggð, er líklegt til að búa þar áfram eftir að námi lýkur.

Ýmis ánægjuleg tíðindi hafa orðið varðandi háskólanám og aðfararnám að háskólanámi á Austurlandi. Þar má nefna samstarf Múlaþings og University of Highlands and Islands í Skotlandi og Háskólagrunn HR, HA og Austurbrúar. En betur má ef duga skal.

Það stingur óneitanlega í augu hve litla viðleitni Háskóli Íslands sýnir til að gera fólki á landsbyggðunum kleift að stunda nám við þennan stærsta skóla landsins í heimabyggð. Einungis örfáar styttri námsleiðir og stök námskeið eru í boði í fjarnámi.

Háskóla Íslands væri í lófa lagið að bjóða upp á stóran hluta bóklegs náms í fjarnámi, líkt og Háskólinn á Akureyri gerir, með staðbundnum námslotum í Reykjavík. Með því myndi ljúkast upp heill heimur fyrir fólk á landsbyggðunum, ekki bara fyrir unga fólkið sem er laust og liðugt, heldur líka fyrir fjölskyldufólk, fólk í vinnu og fólk sem vill einfaldlega ekki flytja í ys og þys höfuðborgarsvæðisins.

Þess ber þó að gæta að háskóli er samfélag, samfélag fólks sem kemur saman til að vinna, deila reynslu sinni, gleði og sorgum. Við gerum því að tillögu okkar að háskólar landsins, ríkisreknir og einkareknir, taki höndum saman og opni háskólasetur á Austurlandi þar sem fjarnemar geta komið saman og myndað sitt eigið háskólasamfélag. Með því hækkar menntunarstig íbúanna, byggðafesta eykst og lífsgæði batna.

Höfundar eru frambjóðendur Pírata í Norðausturkjördæmi


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.