Hatturinn tómur og kanínurnar flúnar

Það skildi þó ekki vera að greining Sigmundar Davíð á síðustu stundu hafi verið rétt: Að einungis væri tvennt í stöðunni, annað hvort að fá fullan stuðning við ríkisstjórn með hann í forsæti eða rjúfa þing og boða til kosninga.


Að minnsta kosti fyrir hann. Hans eigin þingflokkur gat afneitað honum og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins gat slitið stjórnarsamstarfinu.

Eins eins og með fleira í atburðaráðs síðustu hafa „réttu“ ákvarðanirnar ekki verið teknar fyrr en bætt hefur verið við einum afleik í viðbót og þær þar með orðnar úreltar. Ein af þessum úreltu ákvörðunum er að halda í stjórnarsamstarfið með nýjum forsætisráðherra.

Reddingin

Áður en allt varð vitlaust var talað um að vinna við undirbúning losunar fjármagnshafta, afnám verðtryggingar og endurskipulagningu húsnæðismála væri á lokametrunum. Þar með væri lokið við stærstu kosningamálin frá 2013. Það er skiljanlegt að menn vilji ekki fara frá þessum verkefnum óloknum. Þau eru það eina sem héðan af getur bjargað fylgi í kosningum.

En eftir farsann virðist erfitt að sjá að þau verði ofarlega á forgangslista kjósenda. Enn einu sinni hefur traust til Alþingis og ríkisstjórnar molnað.

Hæpið er að kjósendur telji skítareddingu eins og að skipta um forsætisráðherra vera lausn til að verja þjóðarhag, frekar en til að verja völd og eigin hag.

Staðan er sú að þingmenn stjórnarflokkanna verða að horfast í augu við spegilmynd sína og hugsa með hjartanu hvað sé rétt að gera til að byggja upp traust í samfélaginu, fremur en hugsa um skammtímahag efnahags, ríkisstjórnar, flokks þeirra og sjálfs síns. Þótt kóngur vilji sigla verður byr að ráða för og framtíðin að ráðast af því hvernig vindar blása.

Trúin á töframanninn

Tröllatrú þingmanna Framsóknarflokksins á Sigmundi Davíð allt þar til í gærmorgun má ekki dæmast sem ótrúleg. Sigmundur Davíð var maðurinn sem stóð í lappirnar í IceSave samningunum og viðræðum við kröfuhafa, þegar flestir aðrir stjórnmálamenn og sérfræðingar sögðu að hann ætti ekki séns – og hafði rétt fyrir sér.

Eftir að hafa horft upp á hann draga þessar kanínur upp úr hattinum gat talist óskynsamlegt að veðja gegn leiðtoganum ef vera skyldi að leiðtoginn drægi upp þá þriðju.

En að þessu sinni var gat á hattinum, allar kanínurnar flúnar og búnar að grafa sig niður. Nákvæmlega sú takmarkalausa trú á eigin snilld sem kom Sigmundi Davíð á þann stað sem hann var kom honum þangað sem hann er nú eftir atburðarás sem helst minnti á síðustu dagana í byrginu.

Að afneita Sigmundi með afgerandi hætti hefði líka skapað þeim sterkari stöðu í framhaldinu. Bjarni Benediktsson reynir að gera hreint fyrir sínum dyrum en er laskaður sem er mögulega ein ástæðan fyrir því að hann vill ekki forsætisráðuneytið. Erlendu miðlarnir gætu áfram staðið við fyrirsagnir um að íslenski forsætisráðherrann sé í Panama-skjölunum og bara skipt um eitt nafn.

Það eru líka fleiri eftir. Boðuð hafa verið ein 600 nöfn í viðbót og líklegt er að einhverjir þeirra hafi ekki gefið eignir sínar upp til skatts og séu því sekir um lögbrot. Eflaust eru einhverjir þeirra tengdir stjórnmálaflokkunum á einn hátt eða annan.

Hvernig ætla þingmenn stjórnarflokkanna að takast á við þær afhjúpanir ef þeir eru ekki búnir að hreinsa til hjá sér fyrst? Verður Júlíus Vífill sá eini sem stendur upp?

Ekkert víst að þetta klikki

Og þó – fléttan núna gæti gengið.

„Það eru efnahagsmálin, fíflið þitt“ (e. it‘s the economy, stupid) var svar ráðgjafa Bill Clintons í aðdraga kjörs hans sem forseta Bandaríkjanna þegar forsetaefnið spurði hann hvað skyldi leggja áherslu á í kosningabaráttunni. Þetta var eitt þriggja slagorða á vegg í kosningamiðstöð hans. Hin tvö voru „breytingar eða meira af því sama“ og „ekki gleyma heilbrigðisþjónustunni“ (e. Change vs. more of the same : Don't forget health care.)

Allt þetta gæti átt við en millistéttin finnur batnandi efnahag á eigin skinni. Margir úr henni hafa það betra eftir leiðréttinguna og fleiri aðgerðir. Sama fólk bíður eftir lausnum húsnæðismála, afnámi hafta og verðtryggingar. Kosningar og stjórnarskipti myndu fresta þeim um óákveðinn tíma.

Það má heldur ekki segja að lýðræðið á Íslandi virki ekki eða landið sé gerspillt. Atburðir síðustu daga sýna að stjórnmálamenn standast ekki þrýsting almennings. Rússneskur blaðamaður Foreign Policy bendir á að afhjúpanir um Rússlandsforseta í Panama skjölunum hafi varla verið ræddar þarlendis.

Íslendingar setji há viðmið fyrir stjórnmálamenn sína og tryggi að þeir framfylgi þeim. Það hafi ekki verið peningarnir sem felldu Sigmund Davíð heldur að hann sagði ekki frá þeim.

Kannski finnst kjósendum ekki fýsilegt að kjósa 20. maí með forsetakosningar mánuði með frambjóðendafjölda sem virðist vaxa í veldisvexti.

Ríkisstjórn með Sigurð Inga Jóhannesson í forsæti gæti dugað til að róa ástandið fram á haust. Ríkisstjórnin gæti lifað með því að tilkynna um kjördag og fá málefni til að vinna.

Rétt er að fáir á Austurvelli á mánudag voru þar til að lýsa yfir vilja sínum til að hann yrði forsætisráðherra. Ímynd hans er löskuð eftir átök síðustu vikna og stuðnings við Sigmundar Davíð. En margir eru líka tilbúnir að viðurkenna að hann þurfti að svara fyrir ómöguleg málefni og var settur í þá stöðu af manni sem ætlaði að svara með þögninni.

Hverjir verða hvar?

Mótmælin sem boðað hefur verið til í kvöld segja margt. Ef áþekkur fjöldi mætir og á mánudag undirstrikar það kröfuna um kosningar.

Mótmælendur í gær gerðu takískt mistök sem mældust á Sigmundar Davíðs kvarða. Frekar en að halda kyrru fyrir á Austurvelli og safna fjölda sem ítrekaði vilja stórs hóps sem liti vel út á mynd var honum dreift með því að heimsækja skrifstofur stjórnarflokkanna – svo ekki sé minnst á stórfurðulega yfirlýsingu um mótmæli við skrifstofur Alþýðusambandsins í dag!

Myndirnar sem við sáum á mánudagskvöld voru af „venjulegu fólki“ sem kom til að lýsa yfir andúð sinni. Myndirnar í gærkvöldi sýndu „reiða fólkið“ sem aldrei verður ánægt. Ef það eitt heldur áfram fá stjórnarflokkarnir vísbendingar um að óánægja með reddinguna sé stormur í vatnsglasi og þá er allt í lagi að halda áfram.

Framhaldið á öllum vígstöðvum skýrist seinni partinn. Það viðrar að minnsta kosti vel til mótmæla.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.