Heimastjórn og handfæraveiðar í þágu Austurlands
Undanfarið hef ég rætt við fjölskyldufólk, atvinnurekendur, eldri borgara og ungt fólk á Austurlandi. Við í Dögun (xT) höfum heimsótt nær alla þéttbýlisstaði á Austfjörðum auk Fljótsdalshéraðs áður en haldið var norður á Akureyri þar sem ég er upp alinn. Formleg kosningabarátta, þar sem öllum flokkum var boðin þátttaka, hófst í Verkmenntaskóla Austurlands á Neskaupstað; á Norðfirði er faðir minn, Tryggvi Gíslason, fyrrverandi skólameistari MA, sem skipar heiðurssæti Dögunar í kjördæminu, fæddur eins og föðuramma mín, Fanny Kristín Ingvarsdóttir. Afi minn, Gísli Kristjánsson, var fæddur í Mjóafirði en var útgerðarmaður á Norðfirði og Akureyri.
En hvert er erindi mitt – og Dögunar – við íbúa Austurlands?
Auðlindaarðurinn renni ekki suður...
Í Íslandsbyggðastefnu Dögunar er áréttað að fjármagn til uppbyggingar og þjónustu sé veitt til allra landshluta.
Dögun vill að arður af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar renni í auknum mæli til landshluta – sem stjórni sjálfir verkefnum og almannaþjónustu þar. Með því er sagt skilið við það úrelta fyrirkomulag að þingmenn fari með betlistaf suður til Reykjavíkur eins og Íslendingar sendu áður bænaskrár til danska kóngsins. Stjórnkerfisbreyting – heimastjórn í héraði – er tímabær. Til þess þarf stjórnarskrárbreytingu eins og Dögun hefur stutt.
... heldur séu tekjur og völd í héraði
Í stefnu Dögunar segir:
„Verkefni og rekstur á sviði heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og grunn-, framhalds- og háskóla verði framvegis skipulögð í landshlutum/kjördæmun og stjórn þeirra færð til aukins sjálfstæðis og frá miðstýringu ráðuneytis í Reykjavík.“
Á fundi tíu flokka í Menntaskólanum á Egilsstöðum orðaði ég þessa hugsun þannig að tekjur og völd ættu að vera í höndum fólks í héraði – „og á ég þá ekki bara við Fljótsdalshérað.“
Opinber þjónusta á landsbyggðinni
Samkvæmt stefnu Dögunar á að meta hvort staðsetja beri höfuðstöðvar og meginstarfsemi ríkisstofnana á landsbyggðinni. M.a. í þessu skyni þarf að bæta innviði – svo sem samgöngur og fjarskipti – á Austurlandi ekki síst, þar sem grunnþjónusta og öryggi íbúa líður fyrir fjárskort, manneklu og erfiða fjallvegi.
Á Austfjörðum var mikið rætt um bætta heilbrigðisþjónustu í heimabyggð og jafnræði til menntunar frá heimili – upp að 18 ára aldri; fram kom að hátt í 100 þús. kr. á mánuði kosti að senda ungling í framhaldsskóla frá heimili. Aðstöðumunurinn er víða. Þess vegna vil ég fjölga kjördæmum í 8 auk þess að koma á heimastjórn.
Umbætur í auðlindamálum
Austfirðingar ræddu einnig mjög um sjávarútvegsmál – sem er meðal 3ja helstu umbótamála sem Dögun berst fyrir auk áðurnefndra stjórnkerfisbreytinga og umbóta í lánamálum og afnáms verðtryggingar.
Stefna Dögunar í sjávarútvegsmálum kveður á um þjóðareign á auðlindum, sjálfbæra þróun og almannahag auk þess að hámarka verðmætasköpun nytjastofna.
Byggðatenging aflaheimilda
Þar er einnig kveðið á um jafnræði í aðgengi að veiðiheimildum, að auðlindagjald renni til ríkis og sveitarfélaga og að framsal, framleiga og veðsetning veiðiheimilda verði óheimil. Þá segir:
• „Að aflahlutur sjávarbyggða sé tryggður og hluti veiðileyfa svæðisbundinn.“
Aukið frelsi til handfæraveiða
Sjávarútvegsstefna Dögunar (xT) gerir ráð fyrir að öllum nýtanlegum afla sé landað og enginn hvati verði til brottkasts. Þá segir um þetta hagsmunamál margra Austfirðinga:
• „Að handfæraveiðar verði frjálsar.
Loks skal „stuðla að endurnýjun, sjálfbærni og notkun umhverfisvænni veiðarfæra og aðferða við veiðar.“ Í niðurlaginu segir:
„Dögun er opin fyrir þeim leiðum í fiskveiðistjórn sem samrýmast ofangreindum markmiðum.“
Höfundur skipar 1. sæti á lista Dögunar (xT) í Norðausturkjördæmi.