Heimkoma fjölskyldu; Úr sólinni á Balí til 700 Egilsstaða?
Hvað gerir fjögurra manna fjölskylda, nýflutt aftur til Íslands, þegar íbúðaverðið rís stöðugt í Reykjavík. Og ekki bara íbúðaverðið heldur líka daggæsla, tómstundir og tíminn. Er þá Austurland kannski málið?
Ég kom aftur heim til Íslands nú um síðustu mánaðamót eftir að hafa eytt síðustu fimm mánuðum á ferðalagi í Asíu, aðallega á Balí. Við fjölskyldan notuðum þar fæðingarorlofið til að ferðast og uppfylla nokkra af okkar draumum. Þegar útreikningar fæðingarorlofssjóðs skiluðu sér rétt fyrir fæðingu sonar okkar seint á síðasta ári, kom upp sú hugmynd hjá okkur að nota fæðingarorlofið á þennan hátt, og þar af leiðandi eiga auðveldara með að ná endum saman á þeirri upphæð sem reiknaðist. Já, þetta hljómar kannski sérstakt – að fara í Asíureisu með 2 börn til að ná endum saman í fæðingarorlofi í stað þess að taka því rólega heima – en þetta er blákaldur sannleikurinn!
Við lifum ekki hátt
Við fjölskyldan búum á höfuðborgarsvæðinu og lifum alls ekki hátt. Við búum í ponsulítilli 50 fm risíbúð með tveim herbergjum. Ég hef verið í henni í rúmlega 4 ár og leiguverðið hefur haldist það sama allan þann tíma. Frekar lágt í raun. Íbúðin er fullkomin alveg eins og hún var þegar ég fann hana fyrir 4 árum fyrir mig og dóttur mína. En við höfum farið úr því að vera tvær í að vera fjögur og stundum fimm þegar stjúpdóttir mín kemur til okkar. Þó svo að útsýnið sé í allar áttir og svalirnar 40 fm með sól frá morgni til kvölds, þá komumst við til að mynda ekki öll við eldhúsborðið að borða kvöldmat, henni fylgir engin geymsla og lítið skápapláss. Nú, svo það var því óhjákvæmilegt að plana íbúðarstækkun þegar heim úr Asíureisunni væri komið. Við gerum í raun ekki miklar kröfur. Við viljum bara eitt aukaherbergi, geymslu og að geta öll borðað saman kvöldmatinn við sama borð – ekki í hollum eða á víð og dreif um íbúðina.
Hið „týpíska“ unga fólk að austan
Við erum bæði að austan. Ég frá Reyðarfirði og unnusti minn, Steinar, frá Egilsstöðum. Við erum hið „týpíska“ unga fólk að austan. Fórum í Menntaskólann á Egilsstöðum, fluttum í borgina við fyrsta tækifæri, menntuðum okkur frekar, prófuðum hin ýmsu störf, fundum okkur maka og eignuðumst barn (reyndar ekki hvort með öðru) og slitum sambúð. Þrátt fyrir að hafa verið í sama skóla, vitað af hvort öðru og verið í sama kunningjahóp lágu leiðir okkar ekki saman fyrr en við vorum komin yfir þrítugt. Þá hvort með sitt barnið. Við erum því ekki að leita að ponsulítilli íbúð í þetta sinn heldur heimili fyrir þessa stórfjölskyldu.
Tökum ekki þátt í þessum leigumarkaði
Við höfðum heyrt sögur af leigumarkaðinum en það hvarflaði aldrei að okkur að hann væri eitthvað í líkingu við það sem beið okkar þegar leitin hófst. Íbúðir með 2 til 3 herbergjum að fara á 250.000–280.000 kr.! Þær fóru það hratt að þegar við vöknuðum hinum megin á hnettinum, þar sem var 8 klukkutíma tímamismunur og sáum þær auglýstar, var búið að leigja þær út. Svo mikið var slegist um þessar leiguíbúðir! Við ætluðum þó aldrei að taka þátt í þessari baráttu því það kom bara alls ekki til greina að borga þessar upphæðir fyrir leiguíbúð. Við vildum kaupa okkur heimili!
Íbúð í fjölbýli á sama verði og einbýlishús fyrir nokkrum árum
Þegar við hófum að skoða fasteignavefinn runnu á okkur tvær grímur. Verðið á íbúðum hér á höfuðborgarsvæðinu sem myndi hentar okkar fjölskyldu var allt í einu orðið það sama og fólk borgaði fyrir einbýlishús með garði hér fyrir nokkrum árum. Og mér fannst það hátt þá! Hér er 500.000 kr. og meira talið vera lágt söluverð á fermetrann. Sums staðar fer fermetraverðið allt upp í 1.000.000 kr. og samt er slegist um eignina. Þær fara nánast aldrei á uppsettu verði heldur yfir því og langt yfir því. Og fyrsta boð er í algjörum undantekningartilvikum lægra en uppsett verð, eins og tíðkaðist hér áður fyrr.
Tökum dæmi.
• Við myndum vilja hafa eignina á höfuðborgarsvæðinu. Allt frá Mosfellsbæ, út á Seltjarnarnes og aftur til Hafnarfjarðar. Við þyrftum að hafa að minnsta kosti þrjú herbergi, hún þarf að vera björt og má helst ekki þurfa og mikilla framkvæmda við til að gera hana íbúðarhæfa. Allt annað er aukakostur – garður, pallur, aukaherbergi, þvottahús, opið eldhúsið í stofu og fleira.
• Þessar smákröfur sem við gerum bjóða upp á verð á eignum allt frá 31.000.000 til 230.000.000 kr.!
• Ef við ætluðum að gera einhverjar litlar kröfur til viðbótar þá myndum við alveg vilja reyna að sleppa því að kaupa okkur heimili í stórum fjölbýlishúsum eða í kjallara.
• Þessi litla aukakrafa okkar gerir það að verkum að ódýrasta íbúðin hækkar upp í 41.900.000 kr. fyrir íbúð með 3 svefnherbergjum. Sú íbúð er reyndar í 3ja íbúða fjölbýlishúsi og eldhúsinnréttingin er orðin verulega léleg. En, 41.900.000 kr.!
Eins og gefur að skilja var þetta verulegt áfall fyrir okkur. Þetta er miklu hærra en við vorum með í huga! Við eigum ekki útborgun í svona eign. Auk þess erum við mikil fiðrildi og ævintýrafólk og viljum alls ekki spenna bogann svona hátt. Viljum ekki láta allan okkar pening fara í afborganir af þessari allt of dýru, eldri íbúð í fjölbýlishúsi! Við viljum eiga afgang og gera skemmtilega hluti með fjölskyldunni.
Fjölskyldan
Þá komum við að öðrum vinkli í okkar málum. Á höfuðborgarsvæðinu er það ekki bara verð á íbúðum sem nær út fyrir allan þjófbálk. Leikskóla- og dagforeldramál er annað áhyggjuefni hér. Þar sem mannekla á leikskólum höfuðborgarsvæðisins er svo gríðarleg komast börn ekki þangað inn þegar þau eiga að hefja leikskólavist. Það orsakar að biðlistar hjá dagforeldrum lengjast bara og lengjast. Eins og það sé ekki nóg, þá er kostnaðurinn við að setja barn til dagforeldra á bilinu 70.000–90.000 kr. fyrir fólk í sambúð! Það er auðvitað að segja EF þú kemur barninu þínu að! Viljið þið að ég fari líka að ræða um verð á tómstundastarfi sem eru í boði hér? Ég held ég sleppi því að fara út í það.
Eldri dóttir mín er, og hefur alltaf verið, í mjög miklu tómstundastarfi og hefur fundið sig algjörlega í tveimur krefjandi greinum. Sem mér finnst frábært! Starfið er 2–3 í viku, hvor grein. Þessu fylgja þó nokkur ferðalög um höfuðborgina til að skila henni í og úr þessum stundum, með tilheyrandi tíma sem fer í skutl og tíma eyddum í seinnipartsumferðinni hér. Þegar búið er að skutlast í tómstundir og kíkja í búð, ef þess þarf, er ekki mikill tími eftir til að eyða með fjölskyldunni þarna seinnipartinn. Og nei, ég tel tíma í seinnipartsumferðinni í Reykjavík eða á þönum í gegnum Bónus ekki samverutíma með fjölskyldunni!
Er kannski betra að fara bara aftur „heim“?
Það liggur því beinast við að skoða aðra möguleika fyrir fjölskylduna um hvar eigi að búa. Fyrir utan Akureyri koma auðvitað ekki mjög margir aðrir staðir til greina hjá okkur en „heim“. Fyrst og fremst því að þar býr stjúpdóttirin. Fasteignaverðið þar er mun, mun lægra! Fyrir eign eins og við þurfum er það á bilinu 110.000–230.000 kr. fermetrann. Ekki bara fæ ég eitt herbergi í viðbót og eldhús sem við getum öll setið í á sama tíma, heldur get ég keypt einbýlishús! Með garði og fleiri aukaherbergjum, íbúð í kjallara sem gefur leigutekjur og fleira og fleira. Við fáum líka fleiri klukkutíma í sólarhringinn til að nota seinnipartinn með fjölskyldunni og getum nýtt okkur daggæslu fyrir son okkar án þess að þurfa að spenna bogann til hins ýtrasta.
Ætli Egilsstaðir verði minn heimabær?
Ég er nokkuð viss um að hafa sagt þá setningu mjög oft að ég ætlaði aldrei aftur að flytja aftur „heim“. Rökin voru þó alltaf „því það er ekkert þar“. En ég get ekki sagt það lengur því „heima“ er allskonar að gerast! Allt í einu eigum við fullt af vinum búsettum heima. Það er ýmislegt í mikilli uppbyggingu þar og á Egilsstöðum hef ég meira að segja val um tvö kaffihús til að setjast á og njóta bollans.
Fasteignaverð, daggæsluverð og verð á tómstundastarfi er mun eðlilegra og viðráðanlegra. Auk þess sem ég græði aukaklukkutíma í sólarhringnum til að eyða með fjölskyldunni! Ég hef ekki einu sinni eitt spil á hendi af hverju ég ætti að búa áfram með fjölskylduna mína á höfuðborgarsvæðinu í stað þess að flytja aftur „heim“.
Ætli Egilsstaðir verði minn heimabær?