Helvítis útlendingar

Ég hef síðustu tólf mánuði sinnt afgreiðslu og þjónustu við íslenska og erlenda viðskiptavini. Ég kom aftur til þjónustustarfa eftir tveggja ára fjarveru á þeim starfsvettvangi, en árin 2014 – 2016 breytti ég til og vann við að mennta ungt fólk á framhaldsskólaaldri. Áður hafði ég starfað í þjónustugeiranum í um 15 ár.


Á þessum 12 mánuðum hef ég oft farið heim og hugleitt hvað kom fyrir íslenskt atvinnulíf, hvað kom fyrir Íslendinga. Vissulega er aldrei hægt að setja alla undir sama hatt en ég vil meina að fólk sé farið að leyfa sér að ganga ótrúlega langt á kostnað annarra. 

Máltækið „kúnninn hefur alltaf rétt fyrir sér“ á bara mjög oft ekki við þegar almennri skynsemi er ekki beitt og fólk skeytir engu um hver fyrir barðinu verður á dónalegum og illskeyttum athugasemdum, sérstaklega gagnvart erlendum starfsmönnum. 


Þjónusta er ein stærsta starfsgrein í heimi og mun fara vaxandi á næstum árum. Þjónustu má skilgreina í stuttu máli sem óáþreifanlega upplifun. Í upphafi 21. aldar mældist þjónusta rúmlega 60% af virði allrar framleiðslu í heiminum og yfir þriðjungur vinnandi fólks starfaði í þjónustugeiranum. Þessi tala fer hækkandi með ári hverju.

En nóg af heimsfréttum í bili. Tölum um Ísland, tölum um stöðuna á Íslandi í dag. Atvinnuleysi á Íslandi mældist núna í júlí aðeins 1,8%. Hefur ekki mælst svo lágt síðan árið 1999. Þrátt fyrir það þá fluttu árið 2016 yfir 4000 manns til landsins umfram þá sem fluttu frá landi.

Á Austurlandi mælist nú aðeins 1% atvinnuleysi, sem er vissulega fagnaðarefni. Störfum í ferðaþjónustu á Íslandi hefur fjölgað um 165% á tæplega tíu árum. Það þýðir að fyrir hvert starf í ferðaþjónustu árið 2008 þarf í dag rúmlega tvö og hálft starf. Á sama tíma hefur einstaklingum með langvarandi veikindi á Íslandi fjölgað um tæpan þriðjung. Einnig fjölgar ungum öryrkjum eða fólk á aldrinum 18-25 ára, m.a. vegna fíkniefnaneyslu og andlegra veikinda og dettur þessi hópur oftar en ekki alveg útaf vinnumarkaði.

Erlent vinnuafl telur nú 12% heildarvinnuafls á Íslandi. Á árunum 2009 – 2013 dróst fjöldi erlendra starfsmanna saman en hefur aukist jafnt og þétt síðan. Ástæðan er einföld: mikill uppgangur í ferðaþjónustu á Íslandi.

Í nýlegri rannsókn sem unnin var af Gallup og kynnt á ráðstefnunni „Mannauðsstjórnun okkar á milli“ þann 15. september sl. kom fram að ein mesta áskorun sem stjórnandi á Austurlandi stendur fyrir, er skortur á starfsfólki.

Framangreindar upplýsingar gefa okkur góða mynd af þeirri stöðu sem okkar vinnumarkaður er í. Til þess að halda hagvexti, þjónustu og atvinnu í landinu, þurfa atvinnurekendur að leita út fyrir landsteinana. Við finnum fólk sem er tilbúið að flytja sig um set til þess eins að fá vinnu, fólk sem hefur orku og heilsu og getur starfað í ýmsum starfsgreinum á Íslandi. Í þjónustustörf kemur ungt og oftar en ekki vel menntað fólk sem á allt gott skilið í þessum heimi annað en dónalega Íslendinga.

Þetta eru miklar breytingar á stuttum tíma. Eins og með allar breytingar, þá eru vaxtaverkir og orðatiltækið „þolinmæði þrautir vinnur allar“ á vel við hér. Við verðum að gefa þessum hópi erlendra starfsmanna tækifæri til að hjálpa okkur. Við ætlum að sýna þeim þolinmæði. Við ætlum að sýna þeim virðingu og við ætlum að standa saman, sem skynsamt rökhyggjufólk sem missir ekki kúlið á næsta afgreiðslukassa.

Ég mun ekki tíunda hér um þær hryllingssögur sem við höfum öll heyrt, lesið um og hafa gerst hjá mörgum erlendum þjónustustarfsmönnum á síðustu misserum þar sem einstaklingar hafa tekið þjóðernisrembuna fram yfir almenna skynsemi. Verum góð, hættum að væla og hjálpumst að.

Höfundur er stöðvarstjóri N1 á Egilsstöðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar