Hérasmellir

Bókaútgáfan Hólar gaf í sumar út bókina Hérasmellir – óborganlegar gamansögur af Héraðsmönnum í samantekt Baldurs Grétarssonar á Skipalæk.
Hér á eftir eru nokkrar sögur úr bókinni:

Friðrik Sigurjónsson bóndi í Skóghlíð var lengi í símavinnu meðfram búskapnum og sinnti vinnuflokkurinn verkefnum víðs vegar um Austurland. Eitt sinn í símavinnunni var verið að hífa þungan hlut og fullt af mönnum í kring. Einum viðstaddra leist ekki á aðfarirnar og segir: „Þetta líst mér ekkert á, þetta getur drepið einhvern.“ Frissi svarar að bragði: „Það gerir ekkert til, það er ekki lengi verið að búa til einn mann.“

*

Margar ungar stúlkur í Egilsstaðakauptúni byrjuðu starfsferil sinn í söluskála KHB á Egilsstöðum. Ein þeirra var Hrafnhildur Þórarinsdóttir (Lilla). Eitt sinn kemur maður inn í skálann og segist ætla fá einn sígarettupakka og biður jafnframt um að hann verði skrifaður hjá sér. Lilla segir að hún megi ekki skrifa vörur hjá viðskiptavinum. Maðurinn heldur áfram og segir: „Ég var nú að kaupa hlut í nýja togaranum sem Kaupfélagið var að fá, og það er helvíti hart ef þeir geta ekki skrifað hjá mér einn sígarettupakka.“ Lilla gaf sig ekki og ítrekar að henni sé fyrirlagt að skrifa ekki vörur hjá neinum. Þá segir maðurinn: „Ég tel mig nú eiga vel inni fyrir þessum pakka eða veistu ekki hver ég er?“ Lilla svarar neitandi. Maðurinn bætir við: „Ég er Aðalsteinn Jónsson á Eskifirði, kallaður „Alli ríki“. “Ja, sér er nú hvert ríkidæmið!“ svarar Lilla hneyksluð.

*

Guðjón Sverrisson vélaverktaki var eitt sinn með aðstöðu í fyrrum sláturhúsi Verslunarfélags Austurlands í Fellabæ, við hliðina á fyrirtækinu Bólholti, sem rekur stífluþjónustu. Guðjón átti gamlan vörubíl sem reykti ógurlega þegar hann var settur í gang. Mátti heita að nærliggjandi hverfi hyrfi í díselmekki þegar Guðjón gangsetti vörubílinn. Óskar í Bólholti þurfti helst að loka öllum glufum á starfsstöð sinni þegar gangsetning stóð yfir hjá nágrannanum. Einn morguninn, þegar Guðjón er að láta vörubílinn hlaða upp loftinu, birtist Óskar í þokunni, nokkuð ábúðarmikill, og segir við Guðjón: „Er ekki möguleiki að laga þennan bílskrjóð þannig að hann reyki ekki svona?“ Guðjón svarar með sinni hægð: „Ég veit ekki hvort það borgar sig, en hann má eiga það greyið að hann lagast alltaf þegar ég drep á honum.“ Óskar gefst ekki upp og segir: „Geturðu ekki losað þig við þetta drasl, til dæmis selt þetta einhverjum bónda út í sveit og fengið þér eitthvað skárra?“ Guðjón svarar með sömu hægðinni: „Ég veit ekki, mér sýnist nú bændur hafa það nógu skítt.“

*
Jóhann Valdórsson á Þrándarstöðum (Jói Þrándur) var snöggur til svars og svaraði hnyttilega fyrir sig. Jói vann við múrverk og lagði m.a. í gólfið hjá Sigfúsi Þorsteinssyni í Fossgerði þegar hann byggði nýja húsið. Svo hittust þeir á bændahátíð og þá segir Fúsi við Jóa: „Það varð vatnsflóð í húsinu hjá mér og þá myndaðist svo djúpur pollur í einu horninu í stofunni að önd hefði getað synt þar.“ Þá svarar Jói strax: „Endur þurfa nú svo grunnt vatn til að synda, góði minn.“ Fúsi gefur sig ekki og bætir við: „Það náði mér í hné, vatnið.“ Og Jói svarar um hæl: „Ertu hissa á því? ̶ þú ert nú svo stuttur til hnésins, góurinn minn.“
*
Séra Einar Þór Þorsteinsson varð prestur í Kirkjubæjarsókn á eftir séra Sigurjóni Jónssyni. Í kjölfar embættistöku séra Einars var prestssetrið fært til Eiða þar sem presturinn sat eftir það. Þegar Einar prestur spurði séra Sigurjón, forvera sinn, um það hvernig honum hefðu gengið prestsverkin á löngum embættisferli á Héraði, svaraði Sigurjón: „Mér gekk alltaf vel að skíra, ferma og gifta, en þeir sem ég jarðaði, gengu allir aftur.“
*
Þórhallur Einarsson, bóndi í Þingmúla, var meðhjálpari í Þingmúlakirkju. Eitt sinn í messubyrjun ætlaði hann að lesa upphafsbænina, en hafði ekki opnað bókina á réttum stað. Hann hóf samt bænina, enda kunni hann byrjunina utanbókar: „Drottinn, ég er komið í þitt heilaga hús ...“ lítur síðan á bókina og segir: ̶ „Nei, það er ekki hér.“
*
Þorfinnur Sigmundsson á Kleif í Fljótsdal þótti ekkert sérlega fjárglöggur. Fáeinar kollóttar ær átti hann í hjörð sinni og ein þeirra hafði þann sið að koma seint að og birtast þá saman við fé á svokölluðu Eyrarseli sem tilheyrði næsta bæ, Egilsstöðum. Á Eyrarselinu passaði Sigurður Gunnarsson, einn Egilsstaðasystkina. Siggi var fjárglöggur og lét Þorfinn jafnan vita þegar Kolla mætti. Svona hafði þetta gengið í fjölda ára og Kolla farin að reskjast töluvert.
Eitt haustið varð Siggi ekkert var við Kollu gömlu og hafði orð á því við Þorfinn að ærin hefði enn ekkert látið sjá sig. „Nei, blessaður vertu,“ sagði Finnsi, „ég er búinn að skera hana og salta ofan í tunnu fyrir löngu síðan.“ Svo gerist það dag einn að Kolla gamla er mætt á Eyrarselið og tekur Siggi strax eftir því. Hann hefur samband við Þorfinn og segir honum frá endurkomu ærinnar. „Já, já,“ segir Finnsi, „ég sker hana bara aftur fyrst hún er komin.“
*
Gunnar Egilson, flugumferðarstjóri á Egilsstaðaflugvelli og síðar bóndi á Grund í Eyjafirði, var heimagangur hjá Pétri bónda á Egilsstöðum (Pétri Jónssyni). Pétur, sem var sérfræðingur að finna mönnum viðurnefni sem festust við þá, breytti strax ættarnafni Gunnars úr Egilson í „Egilsen“ og var Gunnar upp frá því undantekningarlítið kallaður „Egilsen“. Gunnar hafði um tíma hesta sína hjá Pétri og fannst Pétri hann stundum koma seint til að gefa þeim. Talandi um þetta sagði Pétur: „Hann má nú eiga það, hann Egilsen minn, að þegar hann gefur þá gefur hann vel.“
*
Þegar Þórunn Sigurðardóttir á Skipalæk var orðin ekkja og nálgaðist tíræðisaldurinn var Baldur, sonur hennar, vanur að líta reglulega inn hjá henni til að athuga daglega líðan. Aðspurð um það hvernig henni farnaðist í ellinni, svaraði Þórunn: „Baldur kemur reglulega, hann vill alls ekki að ég deyi ein og hjálparlaust!“
*
Gísli Sigurjónsson frá Ekkjufelli lærði flug og hefur flogið risaþotu hjá Cargolux í fjölda ára. Eitt sinn var hann að keyra bíl frá Reykjavík austur á land og var ung dóttir hans með í för. Í Freysnesi í Öræfum lætur hann óvart bensín á bílinn í stað díselolíu, enda stoppaði bíllinn eftir fáeina kílómetra. Gísli þurfti að leita til næsta bæjar og fékk bóndann til að hjálpa sér við að tappa bensíninu af bifreiðinni og koma réttu eldsneyti í tankinn. Eftir langa mæðu fer bíllinn loks í gang aftur og ferðin heldur áfram. Eftir stuttan spöl spyr unga daman hugsandi á svip: „Pabbi, sérð þú líka um að setja bensín á flugvélarnar?“ „Nei,“ svarar Gísli þurrlega, „það eru aðrir menn í því.“
*
Jökuldælingar voru á heimferð af bændahátíð í Valaskjálf um miðjan vetur í frosti miklu. Farkosturinn var frambyggð rúta í eigu Björns Andréssonar í Fellabæ og var hann bílstjóri. Miðstöðin í rútunni var léleg og geysilega kalt í bílnum vegna kuldans. Einn farþega var Víkingur Gíslason, bóndi á Arnórsstöðum. Rann honum í brjóst þegar leið á ferðalagið enda höfðu menn fengið vel sér í tána á hátíðinni. Á miðjum Jökuldal kemur upp eldur undir vélarhlífinni, sem var inni í rútunni á milli framsætanna. Var stöðvað og reynt að slökkva eldinn en olíumengun á mótornum gerði það að verkum að ekkert varð við hann ráðið. Þegar endanlega varð ljóst að rútan mundi brenna var gengið í að koma farþegunum út. Hnippt var í Víking þar sem hann svaf vært í sæti sínu og honum sagt að flýta sér út. Verður þá Víkingi að orði: „Á nú virkilega að reka mann út í kuldann loksins þegar er farið að hlýna í helvítis bílnum.“ Rútan brann til kaldra kola þessa nótt.
*
Þegar Vélaverkstæði Kjartans stóð að gerð Oddsskarðsganga á sínum tíma unnu á einni jarðýtunni Haukur Ingvarsson og Þórhallur Þorsteinsson. Pústið var óþétt á ýtunni og auk þess lak smurolía á pústgreinina þannig að reykjarpestina lagði inn í stýrishúsið á vélinni, mönnunum til mikilla óþæginda. Voru ýtumennirnir ítrekað búnir að kvarta yfir þessu og heimta lagfæringar, en því hafði ekki verið sinnt. Á einni vaktinni spyrnti Haukur framrúðunni úr vélinni til að geta andað og séð út. Eftir það ákváðu þeir félagar að ganga af ýtunni og sögðust ekki snerta þetta tæki framar nema það yrði lagað til fulls. Kjartan neyddist þá til að senda menn ofan af Héraði í viðgerðirnar til að verkið gæti haldið áfram. Að því loknu kom hann inn í vinnubúðirnar og hafði orð um hvað ýtustjórarnir hefðu gert harðar kröfur til hans. Tíundaði hann það sem búið var að gera við ýtuna, svo sem að laga bæði púst og olíuleka, setja nýja framrúðu og klykkti síðan út með þessu: „Í ofanálag heimtuðu svo mennirnir nýtt þurrkublað, ̶ og það hefur ekki komið dropi úr lofti í þrjár vikur.“
*
Magnús Guðmundsson (Maggi Svönu) var lengi til sjós á Reyðarfirði, fyrst á Gunnari SU 139 og síðar togaranum Snæfugli SU 20. Eitt sinn, áður en haldið var í karfatúr á Snæfuglinum, keypti Maggi sér ný stígvél. Þegar fyrsta halið er tekið ákveður Maggi að nota gömlu stígvélin áfram til að eiga ekki á hættu að skemma þau nýju í karfakösinni. Þegar trollið er komið inn vill svo slysalega til að stór fiskilúga skellur á annan fót Magnúsar sem varð til þess að hann missti allar tærnar. Við höggið sest hann niður og blóðflekkurinn fer ört stækkandi á dekkinu. Skipsfélagarnir bregðast skjótt við og fá Magnús til að leggjast út af til að hægja á blóðtapinu meðan börur eru sóttar. Magnús leggst aftur og virðist falla í hálfgert mók um stund, en nokkrir skipsfélagar bíða hjá honum. Skyndilega kallar Maggi til þeirra veikri röddu: „Strákar!, ̶ strákar!“ Þeir beygja sig allir niður að honum ef vera kynni að þetta væri hinsta bónin. Þá segir Maggi: „Djöfull var heppilegt að ég var ekki kominn á nýju stígvélin.“

Í lokin eru svo nokkrar fleygar setningar Héraðsmanna:

Hallgrímur Bergsson, útkastari í Valaskjálf:
„Andskotans ógurlega er Sveinn mágur hraustur, ̶ ég rétt hafð´ann.“

Friðrik í Skóghlíð:
„Af vanefnaskorti og vöntunarleysi klauf ég þrjá staura niður í tvo.“

Jói Þrándur að kaupa léttblendi fyrir múrverk:
„Mig vantar einn poka af léttlyndi, strákar mínir.“

Grétar á Skipalæk:
„Það ætti nú bara að taka bílprófið af mönnum sem ekki geta keyrt svolítið fullir.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.