Hérasprettir - gamansögur af Fljótsdalshéraði
Bókaútgáfan Hólar hefur gefið út bókina Hérasprettir eftir Baldur Grétarsson frá Skipalæk og Ragnar Inga Aðalsteinsson frá Vaðbrekku og Baldur Grétarsson frá Skipalæk. Þar má finna mörg gullkornin og verður nú gripið í bókinaÓlafur Bessason á Birnufelli (f. 1878 - d. 1954) var með efnaðri bændum á Héraði. Hann þótti litríkur persónuleiki og enn í dag lifa sögur af honum góðu lífi. Eitt sinn var mannfundur á kirkjustaðnum í Vallanesi. Svo stóð á að séra Magnús Blöndal hafi nýlokið við myndarlega fjósbyggingu og nýttu menn tækifærið og skoðuðu hana í leiðinni. Er menn gengu eftir tröðinni í nýja fjósinu segir Ólafur við Magnús: „Asskoti finnst mér kýrnar eitthvað litlar Magnús minn.“ Magnús svarar: „Þær sýnast bara svona litlar af því að hér er svo hátt til lofts, Ólafur minn.“ Þá segir Ólafur: „Jah, ég er hræddur um að þær sýnist þá ekki stórar undir berum himninum, Magnús minn.“
Í Egilsstaðakauptúni var bæði lögreglumaður og hreppstjóri. Hákon Aðalsteinsson frá Vaðbrekku var löggæslumaðurinn. Eitt sinn þurfti hann að bregða sér til Reykjavíkur en hafði engan til að aka sér á flugvöllinn nema strák sem var ekki var búinn að taka bílpróf.
Þegar Hákon stígur út úr bílnum við flugstöðina segir hann við strákinn: „Jæja, nú þarftu bara að passa þig á hreppstjóranum á heimleiðinni. Farðu varlega gæskur.“
Eitt sinn þegar var að ganga í hvassviðri í Jökulsárhlíðinni drifu Sleðbrjótsmenn sig út til að bjarga ýmsu lauslegu sem þeir töldu að gæti fokið. Þegar því var lokið og þeir eru að strekkjast í átt til bæjar, þá ganga þeir fram á járnkarlinn þar sem hann liggur á hlaðinu. Geir bóndi Stefánsson stoppar við, horfir hugsandi á járnkarlinn og segir síðan: „Við skulum taka hann inn.“
Þráinn Jónsson var athafnamaður á Egilsstaðasvæðinu, sveitarstjórnarmaður til margra ára og varaþingmaður um skeið. Hann var ófeiminn og vel máli farinn. Þráinn var eitt sinn að lýsa manni fyrir Friðriki Sóphussyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins. „Þetta var svartur djöfull, ljótur andskoti, svona ekki ósvipaður þér.“
Þráinn rak lengi kaffiteríu á Egilsstaðaflugvelli og bílaleigu. Eitt sinn kom þar maður og Þráinn gefur honum kaffi. Þar sem flugvélin var nýfarin og traffíkin búin að sinni, sátu þeir drjúga stund og spjölluðu saman. Þegar maðurinn stendur upp til að fara spyr hann vertinn hvað hann eigi að borga fyrir kaffið. „Ekki neitt“ segir Þráinn „það var ónýtt hvort sem var.“
Tveir Fosvallabræðra eldri, Aðalsteinn og Guðmundur Jónssynir Hnefils, bjuggu á hálfum Torfastöðum í Vopnafirði áður en þeir gerðust fjölskyldumenn og fluttust á þær jarðir sem þeir voru síðar kenndir við, Aðalsteinn við Vaðbrekku í Hrafnkelsdal og Guðmundur við Mýrarlón í Eyjafirði. Næsti bær utan við Torfastaði eru Skógar. Eitt sinn gerðist það að kýrin í Skógum lenti á geldstöðu og var heimilið án mjólkur um tíma. Þeir bræður höfðu kú á leigu og næga mjólk. Guðmundi var umhugað um að bjarga Skógaheimilnu um mjólk og brá sér þangað daglega að mjöltum loknum. Vegna þess hve Guðmundi var tíðförult til Skóga orti Aðalsteinn:
Mundi gefur máldropann
af mannkærleika nógum.
Hann er að lækna horlopann
á húsfreyjunni í Skógum.
Margir hafa orðið smeykir í bíl með Vilhjálmi Snædal bónda á Skjöldólfsstöðum í gegnum tíðina. Eitt sinn að vetrarlagi þurfti Sigurður Ragnarsson (Siddi bókari) að fá far með Vilhjálmi ofan frá Skjöldólfsstöðum til Egilsstaða. Glærahálka var á Dalnum en Siddi sér að Vilhjálmur er alltaf vel yfir 100 km hraða. Siddi ríghélt sér á leiðinni, viss um að þetta mundi enda á versta veg. Allt í einu spyr Vilhjálmur: „Ertu annars nokkuð að flýta þér?“ „Nei“ svarar Siddi, stjarfur af hræðslu, og Villi heldur áfram: „Æ, ég þori ekki annað en að fara gætilega á þessari helvítis glæru.“
Hrafn Sveinbjarnarson á Hallormsstað var svarinn framsóknarmaður og keyrði oft vörubíl í vegagerðinni hjá Helga Gíslasyni verkstjóra, sem var dyggur sjálfstæðismaður. Eitt sinn þegar var verið að keyra möl að nýrri brú á Klifá, sem rennur í djúpu gili innan við Hallormsstað, þá er Helgi í vörubílnum hjá Hrafni ásamt þriðja manni. Þegar nálgast gilið gefur Krummi skyndilega í bílinn og segir við Helga: „Nú keyri ég með okkur alla í gilið nema þú gangir í Framsóknarflokkinn Helgi.“ „Nei, þá vil ég heldur deyja“ svaraði Helgi.
Einhverju sinni þegar Guðný Guðmundsdóttir á Hauksstöðum lá á sæng sá Óli bóndi hennar um að mjólka kúna á meðan. Eitt sinn þegar Óli kemur inn frá mjöltum og Guðný lítur ofan í fötuna sýnist henni óvenjulegur litur á mjólkinni. „Hvað er að sjá mjólkina, maður?“ spyr Guðný, „steig kýrin ofan í fötuna hjá þér eða hvað?“ „Ég get nú varla sagt það,“ segir Óli, „hún rétt svo drap niður fæti.“
Björn Markússon var víða vinnumaður á Völlum, í Skógum og nærliggjandi sveitum. Eitt sinn var hann staddur í Atlavíkinni á skógarskemmtun. Einhverjum rúsknum náungum fannst þetta sérkennilegur karl og véku sér að honum og spurðu: „Hvaðan ert þú eiginlega?“ Björn hafði ekkert einhlítt svar við þessari spurningu og svaraði því: „Blessaðir verið þið, ég er nú bara frá bæjunum hérna í kring.“
Það mun hafa verið á sjöunda áratug síðustu aldar að kristinfræðikennslan á Hallormsstað var í höndum Ólafs Hallgrímssonar frá Droplaugarstöðum, síðar prests á Mælifelli í Skagafirði. Ólafur sinnti kennslunni af mikilli samviskusemi og lagði áherslu á að skýra vel og skilmerkilega út fyrir nemendum sínum hið heilaga orð, svo að ekkert færi á milli mála. Eitthvað höfðu ekki allir fylgst vel með í tímum eins og gengur og Ólafur hafði lent í nokkrum útistöðum við einn piltinn sem gekk illa að tileinka sér hið eina sanna kristilega hugarfar. Hann lofaði þó bót og betrun að lokum og var tíðindalaust fram á vorið. Á vorprófi var svo spurt um ýmsa þungamiðjuatburði hins Nýja testamentis og ein spurningin var þannig: „Hver urðu endalok Júdasar?“ Þessi sami piltur sýndi nú kunnáttu sína og skrifaði mjög biblíulegt svar. Það hljóðaði þannig: „Hann gekk út og hengdi sig. Far þú og gjör slíkt hið sama.“
Frissi í Skóghlíð (Friðrik Sigurjónsson) var víðkunnur m.a. fyrir ýmis konar gullkorn sem hrutu af vörum hans þegar hann tók til máls. Á langri ævi var Frissi búinn að skemmta samferðamönnum sínum með dæmalausum tilsvörum og lét sér vel líka þegar þau vöktu hlátur. Eitt sinn urðu tveir menn ósáttir í samkvæmi og fóru að slást. Frissi var staðsettur á milli mannanna þegar lætin byrjuðu og fékk högg í andlitið. Aðspurður um atvikið eftir á komst Frissi svo að orði: „Það kom til handamála og ég lenti með kinnina á milli höggsins.“
Í lágsveitinni Hróarstungu voru á tímabili mörg og stór fjárbú. Má segja að þá hafi beitin verið meiri en landið bauð upp á. Þetta kom fram á sauðfjárstofninum og var til þess tekið að oft væru lömb ansi rýr að hausti þegar kom að slátrun. Einhverju sinni var Frissi í fjárragi með öðrum og blöskraði hvað lömbin voru lítil frá einu búinu. Varð honum þá að orði: „Óskaplegir horgemlingar eru þetta. Þessum lömbum hlýtur að verða lógað í kyrrþey.“
Eitt sinn á gamalsaldri kom Frissi í fjárhúsið til Hjartar sonar síns, bónda í Skóghlíð, en þá var verið að rýja féð. Lét Hjörtur skilja eftir af reyfinu á mölum ánna til skjóls. Frissa leist vel á þetta og hafði orð á: „Það er svo gott fyrir þær, ef illa viðrar, að geta snúið ullinni upp í rassgatið.“