Hestamennska í firðinum fagra

gunnar_geir_kristjansson.jpg

Hesthúsabyggðin í Fagrafirði skartar sínu fegursta þennan morgun. Sólin skín og spóinn vellur í móa. Hrossin, sem eru stolt eigenda sinna kljást í gerðunum. - Vorið er komið. Hestamaður er að leggja á hestana sína fyrir framan eitt gerðið. Hann er að undirbúa þjálfunarferð og er með þrjá til reiðar. Margt þarf að sýsla, velja rétta múlinn á skjótta folann og trausta teymingargjörð á þann mósótta. Hestur knapans er glæsilegur rauðblesóttur, ættaður frá Sauðárkróki. Hestarnir bryðja mélin og krafsa í jörðu. Óþreyja vorsins liggur í loftinu.

 

Ég er akandi á ferð um fjörðinn fagra þennan morgunn. Í stað þess að halda áfram inn dalinn, stefni ég blikkfáknum niður að ósnum og inn í hesthúsahverfið og keyri fram á þennan ágæta hestamann þar sem hann er að leggja á þann rauða.

Hann er rótgróinn hestamaður í Fagrafirði. Hér inn í ósabotni byggði hann hesthús ásamt föður sínum. Húsið er stórt og veglegt og allt útlit var fyrir að þeir feðgar fengju að vera í friði með sitt áhugamál. Hús þeirra sem og annarra hestamanna í dalnum er reist á úthlutaðri landfyllingu út við fjörukambinn og því engar reiðleiðir frá húsunum til austurs. 

utreidar_banndar1_web.jpg
Hérna höfum við hestamenn getað unað til þessa dags, enda ekki fyrir nokkrum manni að okkar áliti segir viðmælandi minn. - Ríða mátti í þrjár áttir. Í norðurátt er þorpið, við gátum riðið í átt að því. - Nú er búið að setja upp hringlaga gult bannskilti með svartmáluðum hesti og rauðu striki skáhalt yfir sem táknar að við megum ekki ríða þangað lengur. 

Hér inn dalinn liggur reiðstígurinn okkar gamli. Þetta var troðningur sem hafði þjappast niður á undanförnum þrjátíu árum. - Í trimm- og heilsuátaki bæjarfélagsins var ákveðið að gera þennan gamla reiðveg að göngustíg, sem er góðra gjalda vert. En við stíginn var einnig sett upp bannskilti eins og það sem áður er lýst. - Okkur hestamönnum finnst göngustígur þessi vel geta rúmað hestamenn sem og aðra vegfarendur, -en hér á þessum stað ráða sérkennileg sjónarmið um hvað sé leyfilegt þegar reiðmenn eru annars vegar.

Ég er ákaflega umburðarlyndur maður, segir viðmælandi minn, en nú er mælirinn fullur. Síðast í gær, gerðist það að ég var að ríða eftir mjóum troðningi, reiðstíg sem við hestamenn höfðum lagfært til að komast um. Stígur þessi er fyrir sunnan merktu bannsvæðin. Þarna voru gerð hróp að mér frá fólki sem ég mætti. - Kannski hélt blessað fólkið að bannskiltin þýddu að ekki mætti ríða um fjörðinn. - Svo gerðist það fyrir nokkrum dögum að gamla aflagða flugvallarsvæðið, sem er hér rétt sunnan við hesthúsin okkar, var tekið frá fyrir hundaeigendur. - Samkvæmt bókinni verður væntanlega búið að setja bannskilti með yfirstrikuðum hesti við það svæði innan tíðar. 

Slæmt er að heyra, en hvað veldur? - Viðmælandi minn segir einn eða fleiri nöldurgjarna einstaklinga nauða í ráðamönnum sameinaða bæjarfélagsins okkar og virðast geta komið því til leiðar að upp eru sett skilti sem banna umferð manna á hrossum. – Í þeim bæjarfélögum sem ég þekki til eru engin slík bannskilti við göngustíga,  segir hann. 

folald_finnur_spena_web.jpg
Þá heldur hann áfram og segir dýrar eignir hestamanna í uppnámi, ekki sé hægt að búa við að flest allar reiðleiðir út frá hesthúsahverfinu séu teknar af hestamönnum og þeim bannaðar til afnota. Slíkt rýri eignirnar og geri þær með öllu verðlausar. Hættulausar reiðleiðir út frá hesthúsum verði að vera til staðar. - Hér á þessum stað var úthlutað svæði undir hesthús, hestamenn verða að komast ríðandi að og frá húsum sínum. 

Skoðum þetta allt í samhengi. Golfvöllur er leyfður, kylfingar smíða sér klúbbhús, -einn daginn er völlurinn tekinn af þeim, upp er komið skilti með yfirstrikuðum kylfingi. Eða sjá menn fyrir sér að skíðasvæðið við Oddskarð verði einn daginn bannað fyrir skíðaiðkendur af því að einhverjum geðvondum göngugarpi þykir Oddskarðið fýsilegt til gönguferða. - Hér verða menn að staldra við og gera upp málin, segir viðmælandi minn.

Eftir að hafa þegið kaffi og andað að mér lykt af töðu, leðri og hestalykt þakka ég fyrir spjallið og held för minni áfram. - Alltaf hressandi að hitta hesta og knapa á förnum vegi. 

Viðhorf til hestamanna og sports þeirra eru margvísleg. - Á Hellu á Rangárvöllum, Selfossi, Hvolsvelli og á Suðurnesjum þykir þetta áhugamál hafa uppeldilegt og fjárhagslegt gildi. - Í firðinum fagra þykir ekki par fínt að stunda hestamennsku. Menn tala um hrossatað, hestar séu skítandi um allt og af hestamönnum sé vond lykt. Þá tyggja menn upp fúla brandar um „að menn eigi ekki að leika sér með matinn“. Viðhorfin smita og komast til barna og unglinga og stutt er í eineltið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar