Hið árlega upphlaup kattaeigenda

Nú stendur til á vegum bæjarins föngun og fækkun flækingskatta með tilheyrandi stóryrðum kattareigenda um sveitafélagið og eins um þá menn sem einungis vinna þau störf sem þeim eru falin. Ég mun ekki rekja ósmekklega orðanotkun sem birtist á samfélagsmiðlunum, heldur lýsa viðhorfum mínum, því ég er einn af þeim sem vill vera laus við ágang katta á minni lóð og þann sóðaskap sem því fylgir.

Af hverju þarf þetta upphlaup að vera árlegur viðburður?

Hægt er að nálgast samþykktir um kattahald á vef sveitarfélagsins og ég mæli með því að allir lesi þá samþykktir, ekki síst kattaeigendur. Í grein 4 um skráningarskyldu segir meðal annars: „Allir kettir í þéttbýli eru skráningarskyldir.“ Svo virðist sem fjölmargir kattareigendur hér í bæ, brjóti samþykkt um kattahald sem snýr að þessari skráningarskyldu, og athugið, að örmerking er EKKI sjálfkrafa skráning. Hægt er að nálgast lista á vef sveitarfélagsins með nöfnum þeirra sem skrá sína ketti og í dag virðast vera sárafáir skráðir kettir í sveitarfélaginu.

Ef allar götur eru eins og gatan sem ég bý í, þá er ástandið ekki gott. Þar er aðeins einn köttur skráður en ég veit af allavega tveimur öðrum heimilisköttum í götunni sem eru þá óskráðir skv. listanum á vef sveitarfélagsins. Ef ástandið í minni götu er ekki einsdæmi, eru líkur á því að hátt á annað hundrað óskráðir heimiliskettir séu í bæjarfélaginu og eru þá væntanlega ekki ormahreinsaðir.

Til viðbótar við þá tölu eru svo flækingskettirnir. En hvað eru flækingskettir? Það eru fyrrverandi heimiliskettir sem hefur verið úthýst þegar gamanið er búið - og afkomendur þeirra. Reglulega bætast svo nýir heimiliskettir við flækingsflóruna og viðhalda vandamálinu.

Í grein 8 í samþykkt um kattahald segir: „Kattaeigendum ber að sjá til þess að högnar séu geltir og læður séu gerðar ófrjóar eða hafðar á getnaðarvarnarpillu.“ Hvað skyldu margir brjóta þessa reglu? Allavega er ansi oft óskað eftir heimili fyrir kassavana kettlinga á samskiptamiðlunum.

Í grein 8 segir einnig: „Eigendur og umráðamenn katta ber eftir því sem framast er unnt að sjá svo um að kettir þeirra valdi ekki hávaða ónæði, óþrifnaði eða óhollustu. Ef köttur veldur nágrönnum eða öðrum ítrekuðu ónæði, óþrifum eða tjóni þá ber eigenda eða umráðamanni að leita leiða til að koma í veg fyrir það. Kattaeigendur ber að hafa sandkassa fyrir köttinn á lóð sinni.“ Hvað skyldu margir foreldrar hafa þurft að þrífa börn sín útötuð og angandi af kattahlandi og skít eftir kött nágrannans eftir að þau hafa leikið sér í sandkassa eða á lóðinni við heimili sitt?

Það ætti að vera metnaður kattaeigenda að fylgja reglum sem bæjarfélagið setur um kattahald og ganga strax í þau verk sem rakin eru í greinum 4 og 8. Þá fyrst verður friður og við verðum laus við þetta árlega kattaupphlaup. Ykkar er valið. Þið eruð vandamálið. Munið að réttur til að hafa gæludýr nær aðeins þangað að ekki sé gengið á rétt annarra.

Þórhallur Þorsteinsson, Ártröð 9.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.