Hornfirðingar gengnir úr SSA
Sveitarfélagið Hornafjörður er gengið úr Sambandi austfirskra sveitarfélaga (SSA).
Tillaga þess efnis var samþykkt með fimm atkvæðum á fundi bæjarstjórnar sveitarfélagsins í sumar. Tveir fulltrúar minnihlutans sátu hjá. Deilurnar í bæjarstjórn Hornafjarðar snérust aðallega um tímasetningu. Formlegt bréf vegna úrsagnarinnar var afhent á stjórnarfundi SSA á Hornafirði skömmu síðar.
Hornfirðingar hafa færst meira í suðurátt eftir breytingu á kjördæmamörkum fyrir þingkosningar árið 2003 þegar þeir voru settir í Suðurkjördæmi. Vilji Hornfirðinga til þess endurspeglaðist í skoðanakönnun sem gerð var.
Í bókun frá fundi SSA er haft eftir Hjalta Þór Vignissyni, sveitarstjóra, að ákvörðunin hafi ekki verið létt eftir fjörutíu ára farsælt samstarf í SSA. Björn Hafþór Guðmundsson, formaður SSA, sagði menn hafa séð hvert stefndi eftir kjördæmabreytinguna en SSA standi vissulega veikara á eftir.
Hornfirðingar segja sig einnig úr Þróunarfélagi Austurlands og Atvinnuþróunarsjóði Austurlands. Bæjarstjórnin lagði á móti áherslu á áframhaldandi gott samstarf við Þekkingarnet Austurlands.
Hornfirðingar ganga formlega úr SSA á aðalfundi samtakanna eftir tvær vikur. Þeir sækja síðan um aðild að Samtökum sveitarfélaga á Suðurlandi.