Níunda október árið 1917 var bókað í gjörðabók dýrtíðarnefndar í Reykjavík að vegna verðþaks, sem sett hafði verið á kartöflur þar um slóðir, hyggðust kaupmenn senda kartöflubirgðir sínar með skipinu Sterling til Austfjarða og selja þær þar. Fyrir austan væri nefnilega ekkert hámarksverð á kartöflum.
Ritaði borgarstjóri af þessu tilefni bréf í stjórnarráðið og bað um að kartöflurnar yrðu teknar eignarnámi handa svöngum Reykvíkingum. Það varð úr.
Nú eru aðrir tímar og annað Sterling í umræðunni. Alvarleg kreppa, en þó ekki kartöflukreppa, í það minnsta ekki ennþá. Þrátt fyrir að vonandi þorri fólks í landinu geti dregið að einhverju marki úr útgjöldum og læðst gegnum magra tíma án þess að missa allt sitt, er vá fyrir dyrum hjá fátæku fólki þessa lands sem aldrei fyrr.
,,Maður líttu þér nær!" á við nú. Hér í fjórðungnum okkar má finna fólk við hungurmörk. Fólk sem á ekki fyrir mjólkurpotti né brauði handa börnum sínum alla daga vikunnar. Sem lifir frá degi til dags í fullkomnu óöryggi og bjargarleysi, vísast styrkt að einhverju marki af félagsþjónustu síns sveitarfélags og hinu opinbera, en þó sífellt á vonarvöl. Ég þekki dæmi þessa. Ég er viss um að þú þekkir líka dæmi um þetta.Samheldni þegar á bjátar hefur oft verið nefnt sem aðal Austfirðinga og raunar Íslendinga almennt. Nú skulum við slá skjaldborg um það fólk sem við teljum að eigi bágt og styðja það með ráðum og dáð. Hlú að börnum sem hugsanlega eru svöng og umkomulaus í striti dagsins. Umvefja einstæðinga, aldraða og alla þá sem eiga erfiðara en við með að stíga ölduna í því brimsævi sem einkennir nú hinn íslenska hvunndag. Látum gott af okkur leiða. Auðsýnum náunganum kærleika. Reisn okkar felst í að hjálpast að gegnumerfiðan tíma. Deilum síðustu kartöflunni okkar ef á þarf að halda.
Steinunn Ásmundsdóttir
(Leiðari Austurgluggans 27. nóvember 2008)
Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.