HSA: Ríflega 250 milljóna króna niðurskurður á árinu

Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur verið gert að skera niður um 55-60 milljónir króna í viðbót við áður fyrirhugaðan 200 milljóna króna niðurskurð ársins. Tímabundinna lokanna má vænta á ákveðnum starfsstöðum. Öll bráða- og neyðarþjónusta verður starfrækt áfram.

 

ImageSamkvæmt fjárlögum ársins 2009 var Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) gert að draga saman í rekstri um um það bil tvö hundruð milljónir króna, sem er um 10% af ársveltu. Heilbrigðisráðuneytið hefur farið fram á 55-60 milljóna króna aukasparnað í ár. Það kallar á sparnað í launakostnaði, sem er um 80% af útgjöldum stofnunarinnar, að því er fram kemur í fréttatilkynningu. „Óskað hefur eftir fundum með forsvarsmönnum nokkurra stéttarfélaga á starfsvæði stofnunarinnar til þess að gera þeim grein fyrir þessari alvarlegu stöðu, og óskað eftir  samstarfi og skilningi á þeim ákvörðunum sem taka þarf.“

Í ársbyrjun var farið yfir allar deildir, starfsvið og starfstöðvar í leit að sparnaðarleiðum sem hefðu sem minnsta þjónustuskerðingu eða fæstar uppsagnir starfsmanna í för með sér. Gerðar hafa verið breytingar á vinnuferlum, hagrætt í innkaupum og öðrum rekstrarútgjöldum. Laun stjórnenda voru lækkuð með samkomulagi. Samningum við lækna var sagt upp og þeir endurráðnir með breyttu fyrirkomulagi og tímabundinni lækkun launa. Á Egilsstöðum og í Fjarðabyggð verða færri læknar í sumar en verið hefur. Með samkomulagi við starfsmenn hefur starfshlutfall sumra verið lækkað, dregið verulega úr sumarafleysingum og reynt að komast hjá yfirvinnu vegna veikinda þar sem það hefur verið hægt.

Færra sumarstarfsfólk þýðir að einstaka starfsstöðvum verður lokað tímabundið, þar á meðal heilsugæslunni í Fjarðabyggð. Bið eftir ýmissi þjónustu kann einnig að lengjast. Þjónusta sérfræðinga, svo sem sálfræðinga, minnkar og dregið verður úr starfsemi skurðstofu Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað. Öll bráða- og neyðarþjónusta verður starfrækt og ekki ástæða til að ætla að neinum sé stefnt í hættu með samdrættinum.

Í niðurlagi tilkynningar er þjónustuþegum HSA óskað góðrar heilsu, gleðilegs sumars og óskað skilnings á stöðu stofnunarinnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar