Höskuldur sækist eftir að leiða listann
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sækist eftir að skipa efsta sæti á lista flokksins í Norðausturkjördæmi í þingkosningunum í vor. Höskuldur segist hafa fengið áskoranir um að gefa aftur kost á sér og að hann sækist eftir að leiða lista framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi.
„Það er krafa um endurnýjun í flokknum og ég naut mikils trausts tæplega helmings flokksmanna í formannskjörinu í janúar sl. sem vildu að ég leiddi flokkinn,“ segir Höskuldur, sem var í 3. sæti á lista flokksins í þingkosningunum 2007.
Framsóknarmenn í kjördæminu ætla að velja efstu menn á framboðslistann á kjördæmisþingi 15. mars.