Höttur getur enn sloppið

Höttur á enn möguleika á að bjarga sér frá falli úr 1. deild karla í körfuknattleik eftir að liðið vann Laugdæli á Egilsstöðum um helgina. Þróttarstúlkum tókst ekki að koma í veg fyrir að HK yrði deildarmeistarar í blaki þótt þær ynnu fyrri leik liðanna á Norðfirði.

 

ImageTilvera Hattar í 1. deild er enn háð því að liðið vinni báða leikina sem liðið er eftir og Ármann tapi báðum sínum. Fyrsta skrefið í rétta átt var stigið á laugardag þegar Höttur vann Laugdæli 97-86. Heimamenn biðu samt með það fram á seinustu tvær mínútur leiksins að gera út um hann. Þeir voru yfir í hálfleik, 40-37, eftir góðan fyrsta leikhluta. Eftir þriðja leikhluta voru gestirnir yfir, 62-67 en þá rifu Hattarmenn sig upp og skoruðu 35 stig gegn 19 í seinasta fjórðungi. Maður dagsins var sem fyrr Bayo Arigbon, sem skoraði 40 stig og tók 25 fráköst, þar af 14 í sókn. Björgvin Karl Gunnarsson skoraði 20 stig og spilaði góða vörn á móti Viðari Erni Hafsteinssyni, fyrrum leikmanni Hattar. Sveinbjörn Skúlason skoraði ellefu stig, sendi ellefu stoðsendingar og hirti sjö fráköst.
Í liði Laugdæla var Pétur M. Sigurðsson atkvæðamestur með 37 stig. Höttur mætir Ármanni í Reykjavík um næstu helgi í lykilleik.

Þrótti tókst að tefja móttöku HK á deildarmeistaratitlinum í 1. deild kvenna í blaki um tæpan sólarhring þegar þær unnu fyrri leik liðanna á Norðfirði á föstudagskvöld 3-2. Þróttur vann seinustu tvær hrinur leiksins, 25-20 og oddahrinuna 15-10. Þær höfðu áður unnið fyrstu hrinuna 25-12 en Kópavogsliðið svarað í annarri og þriðju hrinu, 23-25 og 16-25. Miglena Apostolova var stigahæst með 31 stig og Erla Rán Eiríksdóttir skoraði 13 stig.
HK tók sig saman í seinni leiknum og vann hann 0-3. Fyrstu hrinuna unnu þær 14-25, þá næstu 21-25. Þróttur átti möguleika í þriðju hrinunni þegar þær komust í 25-24 eftir að hafa verið 21-24 undir en þá rankaði gestaliðið við sér og skoraði seinustu þrjú stigin. Seinustu tvö stigin komu eftir að Þróttarliðið stillti vitlaust upp. Miglena var aftur stigahæst með 10 stig.
Þróttarliðið spilar í undanúrslitum Brosbikarsins í Laugardalshöll eftir tvær vikur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar