Höttur og Fjarðabyggð gerðu bæði jafntefli
Höttur og Grótta gerðu 1-1 jafntefli í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Fjarðabyggð gerði markalaust jafntefli við KA á Akureyri í 2. deild. Í þriðju deild vann Einherji Draupni 1-3 á Akureyri en Huginn tapaði 1-5 fyrir Völsungi á Seyðisfirði. Höttur og Grótta gerðu 1-1 jafntefli á Fellavelli í kvöld. Leikurinn fór fram í hávaðaroki og liðunum gekk illa að hemja boltann. Sigurvin Ólafsson kom Gróttu yfir eftir um klukkutíma leik þegar hann náði í endann á fyrirgjöf frá hægri. Vindurinn spilaði þar sína sögu en boltinn spannst yfirleitt frá varnarmönnum Hattar þegar þeir reyndu að hreinsa. Um kortéri fyrir leikslok jafnaði Vilmar Freyr Sævarsson metin með skalla eftir aukaspyrnu Stefáns Þórs Eyjólfssonar. Elvar Þór Ægisson komst tvisvar eftir það inn fyrir vörn Gróttu en hinn reyndi markvörður, Kristján Finnbogason, sá við honum í bæði skiptin.Fjarðabyggð gerði markalaust jafntefli við KA í 1. deild karla á Akureyri. KA menn voru sterkari í leiknum. Fjarðabyggðarmenn fengu dæmda vítaspyrnu á seinustu mínútu leiksins en markvörður KA varði spyrnu Jóhanns Ragnars Benediktssonar.
Einherji vann sinn fyrsta sigur í D riðli þriðju deildar karla og það á fremur ævintýralegan hátt með 1-3 sigri á Draupni á Akureyri. Hlynur Birgisson kom heimamönnum yfir úr víti eftir klukkutíma leik og þannig var staðan þar til tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Þá var dæmt víti sem Sigurður Donys Sigurðsson skoraði úr. Hann bætti við öðru marki þegar mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma og á 94. mínútu skoraði Gunnlaugur Bjarnar Baldursson þriðja markið. Tveir leikmenn Draupnis fengu rauða spjaldið í leiknum.
Völsungur burstaði Huginn á Seyðisfirði 1-5. Friðjón Gunnlaugsson, fyrirliði Hugins, skoraði mark liðsins úr vítaspyrnu.