Hugleiðing um fermingar

Í vor fagna ég sjö ára fermingarafmæli. Það er ákveðið sjokk að hugsa til þess að nú séu að verða sjö ár síðan ég neyddi messuvínið og oblátuna ofan í mig. En burtséð frá því er þetta upplifun sem margir hugsa til með hryllingi. Skelfilegu fermingarmyndirnar, tískan og allt það.

Ekki er það þó algilt auðvitað, sumir hugsa til fermingarinnar með hlýju og minnast gjafanna og matarins og þess að vera miðpunktur athyglinnar. Ég er ekki í vafa um að foreldrar mínir hafi lagt sig fram við að gera daginn minn eins góðan og völ var á og ég er enn síður í vafa um að það hafi ekki verið ódýrt. Ég þakka því kærlega fyrir mig mamma og pabbi.

En er það ekki einmitt málið? Þegar fjölskyldur eru farnar að skuldsetja sig við það að halda sem besta fermingarveislu og kaupa sem flottastar gjafir handa barninu hver er þá tilgangurinn?

Ég er þeirrar skoðunar að fermingin sé fyrir löngu búin að missa marks. Áður fyrr var ferminginn stór hluti af lífi barnanna, eins og hún er kannski enn þá, en á annan hátt. Það er vandfundið það barn sem hlakkar til fermingarinnar af því að það vill styrkja sig í trúnni. Flestir krakkar geta ekki beðið eftir því að fá allar gjafirnar og peninginn sem fylgir því að fermast.

Þessari þróun fylgir leiðinleg aukaafurð sem mér finnst sjaldan rædd. Því miður er það staðreynd að ekki allar fjölskyldur eru jafn vel settar í samfélaginu. Það sem þetta gerir er það að verr settar fjölskyldur þurfa oft að skuldsetja sig til þess að hafa efni á því að halda fermingarveisluna, gjafirnar verða óhjákvæmilega ódýrari og fötin sömuleiðis.

Það er ekki þar með sagt að viljinn til að gera vel við barnið sé eitthvað minni, þvert á móti. Hins vegar er ég hræddur um að þetta ýtir undir vanlíðan barna. Börn bera sig gjarnan saman við vini sína og þegar flestir vinirnir grobba sig af mun stærri pökkum og meiri pening er ekki erfitt fyrir barn að telja sig ómerkilegri en hinir.

Spurningin sem ég set fram er því þessi: Hver er hinn raunverulegi tilgangur fermingarinnar í dag? Af hverju sjáum við okkur knúinn til að ferma börnin þegar engin trúarlegur tilgangur er raunverulega til staðar. En á sama tíma er það enn verra að sleppa því að ferma barnið þar sem þá gæti það orðið fyrir aðkasti. Þannig að foreldrar standa frammi fyrir erfiðu vali, að ferma barnið og þurfa hugsanlega að koma út í mínus þann mánuðinn og jafnvel einhverja fleiri mánuði á eftir, eða sleppa því alveg og valda barninu enn meiri vanlíðan.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar