Hugleiðingar um skipulagsmál í Múlaþingi
Eitt af því sem hefur áhrif á nærumhverfi íbúa sveitarfélaga eru skipulagsmál. Í Múlaþingi hafa þau mál verið í nokkuð góðum farvegi og má segja að nokkuð vel hafi tekist til við að sameina þennan málaflokk og í raun betur en maður þorði að vona. Að sjálfsögðu hafa komið upp ýmsir hnökrar, en í heildina hefur tekist að leysa nokkuð vel úr því sem upp hefur komið.Þó er eitt og annað sem betur mætti fara. Það er ekki hlutverk sveitarfélagsins að íþyngja íbúum að óþörfu, eða styðjast við þröngar skilgreiningar sem virðast stundum byggðar á hæpnum grunni, þegar aðrir minna íþyngjandi skýringar kostir eru í boði.
Ýmis mál tengd skipulagi sem snerta íbúa beint hefði mátt nálgast á annan hátt og í betri tengslum við íbúana. Þar má nefna „verndarsvæði í byggð“, sem ekki verður séð hvað íbúar þess svæðis græða á. Þar er verið að setja kvaðir á eignir manna og hugsanlega rýra verðgildi þeirra fyrir vikið. Eins verður ekki séð hvað er verið að vernda þarf. Um er að ræða þyrpingu húsa byggðum á árunum 1945 til 2010.
Sama má segja um svokallað „Úthéraðsverkefni“ þar sem sveitarfélagið virðist vera komið af stað með verkefni án samráðs og í óþökk landeigenda. Þannig vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar og þarfnast klárlega endurskoðunar.
Síðan eru kröfur Þjóðlendunefndar fyrir hönd ríkisins. Þar er ljóst að sveitarfélagið þarf að grípa til tafarlausrar varna í samráði við landeigendur sem hlut eiga að máli.
Leyfisveitingar og umsagnir eiga að byggja á sem víðustum grunni og vera í samræmi við gildandi skipulag. Á þessu hefur verið misbrestur að undanförnu og þarf sveitarfélagið að leggja skýrar línur í þeim efnum.
Ekki er hægt að ræða um skipulagsmál í sveitarfélaginu án þess að minnast á fyrirhugað fiskeldi í Seyðisfirði. Í því samhengi er rétt að minna á að skipulagsvald sveitarfélagsins nær aðeins 115 metra út frá stórstraumsfjörumáli (netalög) Þar utan við gildir skipulag haf og strandsvæða. Það hlýtur samt að vera hlutverk sveitarfélagsins að halda vilja íbúa á lofti og reyna að hafa áhrif á gang mála.
Höfundur sækist eftir 4. til 5. sæti í prófkjöri sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi.