Hugvekja og annáll Krabbameinsfélags Austfjarða

Krabbameinsfélag Austfjarða var með markmið á árinu og eitt þeirra var að vera sýnilegra og koma meira í umræðuna því sem við höfum uppá að bjóða. Við fórum í samstarf við sálfræðinga og fjölskylduráðgjafa sem við bjóðum okkar fólki upp á að kostnaðarlausu. Við fórum í að útbúa einblöðung til að dreifa á allar heilsugæslustöðvar á okkar svæði um hvað við bjóðum upp á.

Í mars buðum við upp á opinn fræðslufyrirlestur þar sem Teitur Guðmundsson læknir var með fyrirlestur um krabbamein og forvarnir sem var mjög vel heppnaður og vel sóttur.

Til stóð að halda hina árlegu hvíldarhelgi að Eiðum líkt og undanfarin ár en vegna ónógrar þátttöku þurfti að blása hana af en vonandi verður þátttakan frábær árið 2020.
Á aðalfund félagsins í apríl mættu sálfræðingarnir, sem við erum í samvinnu, við ásamt því að fjölskylduráðugjafinn sendi erindi inn til að kynna sig og hvað þau bjóða uppá í sinni meðferð sem var mjög vel fram sett og gott að fá.

Í október settum við okkur í samband við fjölda fyrirtækja á svæðinu sem settu upp bleika lýsingu, sendum talsmann frá okkur að tala um sína upplifun af krabbameini og starfsemi félagsins bæði í bleikri messu á Kolfreyjustað í Fáskrúðsfirði og á október fundi kvenfélags Reyðarfjarðar. Þá voru fjöldi fyrirtækja og hópa sem styrktu okkur með allskonar uppákomum í október.

Í vor fóru eldri borgara á svæðinu okkar í verkefni sem heitir „Enn gerum við gagn“ þar sem markmiðið var að stuðla að heilsueflingu og útiveru, sýna að eldra fólk getur verið öflugir þátttakendur í því „að vera til“ og safna áheitum til stuðnings Krabbameinsfélagi Austfjarða. Gengnir voru í heildina 250 km og safnaðist um 1.500.000.

Félagið hélt svo nú í desember aðventukvöld og krýndum á sama tíma hvunndagshetjuna okkar sem er einstaklingur sem greinst hefur með krabbamein og er fyrirmynd fyrir okkur hin um það að standa alltaf upp aftur og halda áfram með lífið sama hvað. Það mættu um áttatíu manns og áttum við saman dásamlega kvöldstund með hugvekju, lifandi tónlist og gamanmáli yfir heitu súkkulaði og bakkelsi.

Um leið og við óskum félagsmönnum og velunnurum félagsin gleðilegra jóla og heilsuríks komandi árs þökkkum við í stjórn Krabbameinsfélagi Austfjarða auðmjúk fyrir stuðninginn frá einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum. Við þurfum fólk eins og ykkur til að geta gert okkar og vonumst til að geta stutt vel við bakið á þeim sem á þurfa að halda á nýju ári.

Litlu fallegu hlutirnir
- Hugvekja frá félagsmanni Krabbameinsfélags Austfjarða

Að greinast með krabbamein setur af stað storm í höfðinu á manni þar til fyrir liggur hvernig krabbameinið er, hvar nákvæmlega það er og hvað er hægt að gera... þá er eins og storminn lægi aðeins og maður fer að hugsa skýrar.

Þegar ég greindist var þetta nákvæmlega svona. Ég greindist 12. desember 2017 og fékk að vita strax næstu skref. Þá var ég einhvern veginn ótrúlega róleg eitthvað. Nýtt ár færi í að sinna þessu verkefni en þessi jól var allt svo ótrúlega fallegt eitthvað. Ég naut tímans betur, var ótrúlega meyr en svo ótrúlega þakklát og sá fegurðina í öllum litlu hlutunum. Það virðist svo mikil klisja alveg þar til maður fær svona verkefni sem maður hefur ekkert val um að sinna og fer að veita þessum litlu sjálfsögðu en samt ekki svo sjálfsögðu hlutum eftirtekt.

Þegar ég skoða myndir frá þessum jólum var svo mikil gleði og friður á öllum myndum. Það sama á við núna eftir að ég kláraði þetta verkefni sem krabbameinið var eru það miklu frekar þessir litlu hlutir sem skipta svo miklu meira máli, kaffibollinn í morgunkyrrðinni yfir kerti eða meðan ég dáist af jólaljósunum gefur mér ótrúlega mikið. Að draga andann djúpt úti í hreina loftinu endurnærir mig og minnir mig á hvað ég er lifandi og að geta tekið þátt og verið virk í samfélaginu er svo dýrmætt.

Fyrsta gleðileg jól kveðjan þetta árið sem ég sendi núna einn daginn gaf mér einhverja svo notalega tilfinningu og þá hugsaði ég að einmitt hvað þessir litlu hlutir eru mikils virði. Svo njótum þess að vera til, njótum að vera og gera og svo skulum við ylja okkur við minningarnar því þær eru svo dýrmætar

- Hrefna Eyþórsdóttir.

Eldri borgarar í Fjarðabyggð og Djúpavogshreppi söfnuðu áheitum til styrktar Krabbameinsfélagi Austfjarða með göngu í sumar. Mynd: Albert Geirsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.