Hundar þurfa umhverfisþjálfun
Hundaklúbbur Austurlands var stofnaður í febrúar árið 2007. Á stofnfund mættu um tuttugu manns og var vilji til að stofna félag þar sem fólk gæti deilt þessu áhugamáli sínu og sem vettvang fyrir námskeið í hundahaldi. Metete Myrheim á Egilsstöðum segir stofnun klúbbsins bráðnauðsynlega enda sé mjög mikilvægt að fólk læri að umgangast hunda sína og þjálfa þá.
,,Hundar þurfa að hittast og fá umhverfisþjálfun,“ segir Metete. ,,Yfirleitt er maður að sjá fólk eitt með hundana sína en mjög brýnt er að hundarnir hafi hist í hóp svo þeim lendi ekki saman þegar þeir rekast óvænt hver á annan á götum úti. Hundar finna sinn stað hópnum þegar þeir hafa hist nokkrum sinnum.“
Merete er formaður Hundaklúbbsins og í stjórn eru auk hennar Edda Ósk Gísladóttir og Aðalheiður Jónsdóttir. Engin félagsgjöld eru í klúbbnum og meira um óformleg samtök áhugamanna að ræða. Vonir standa til að hundaeigendur af öllu Austurlandi tengi sig inn í klúbbinn og hittist reglulega á sínum þéttbýlissvæðum.
,,Við hittumst á sunnudögum kl. 14 á bak við Vonarland á Egilsstöðum og göngum svo með hundana og berum saman bækur okkar. Við höldum hundanámskeið og höfum þá fengið hundaþjálfara frá Neskaupstað, Steinar Gunnarsson, sem hefur mikla reynslu af bæði leitar- og fíkniefnahundum og alhliða hundaþjálfun. Við höfum verið með hlýðninámskeið, bæði fyrir byrjendur og lengra komna.“ Hundaeigendur í Neskaupstað gengu til liðs við klúbbinn í vetur og hittast líka á sunnudögum á sínu svæði.
Hundaflóran á Austurlandi er víðfeðm og ræktunarstarf nokkuð öflugt. Merete segir þó hvern í sínu horni og vildi sjá meiri samstöðu og samskipti hjá hundaræktendum og -eigendum. ,,Fólk fær sér kannski hund bara til að fá sér hund og svo er ekki gert mikið meira. Persónulega finnst mér mjög mikilvægt að koma með hunda á námskeið og líka að þeir kynnist öðrum hundum. Hunda þarf einfaldlega að aga og allir eiga þeir erindi á hlýðninámskeið, hverrar tegundar sem þeir eru. Margir halda að hundar hugsi eins og fólk og séu jafnvel líkt og lítil börn, en það er alls ekki rétt. Hundar gera vel flest fyrir nammibita og maður þarf stöðugt að umbuna þeim til að halda áhuga þeirra. Það gengur aldrei að refsa hundi með því að taka í hann, þá sýnir hann hörku á móti. Kenna verður hundum með jákvæðri ögun.“ Merete segir oftast hægt að laga slæma hegðun hunds, svo fremi sem hann sé ekki bilaður í kollinum. Snúa megi hegðun við á sex til átta vikum og það taki bæði tíma og þolinmæði. Sé fólk í vandræðum með hunda sína geti það mætt á námskeið eða hún vísað því til hundaþjálfara, því stundum þurfi þjálfari að vera einn með hundi og eiganda.
Fjárhundar koma sjaldan á hlýðninámskeið. Merete er nokkuð undrandi á því. Fjárhundar hafi tilhneygingu til að vera sínir eigin herrar, en þurfi eins og aðrir hundar að vita hver ráði og hvað má og má ekki. Vefsíða Hundaklúbbs Austurlands er www.hundaklubbur.blogcentral.is.
Mynd: Brúnn Labrador.