Hvað ógnar íþróttafélögum á landsbyggðinni?
Öll erum við sammála um mikilvægi þess að stunda holla hreyfingu og huga að lífsstíl okkar, hvort sem það er til að hlúa að almennu líkamlegu hreysti eða til keppni og afreka. Rannsóknir hafa á undanförnum árum stutt við þessar hugmyndir og hefur ýmislegt verið gert til að styðja við þennan mikilvæga málaflokk. ÍSÍ hefur þar verið leiðandi málsaðili og mótað metnaðarfulla stefnu til framtíðar og notið opinbers stuðnings til þess. Afrekssjóður og Ferðasjóður íþróttafélaga, sem báðir voru stofnaðir í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins, hafa verið efldir á undanförnum árum, og hefur stefnumótun innan Mennta- og menningarráðuneytisins einnig farið fram.
Þrátt fyrir þetta hefur þessi opinberi stuðningur ekki dugað til enda vitum við sem komum nálægt starfi á vegum íþróttahreyfingarinnar að hún er fyrst og fremst drifin áfram af sjálfboðaliðum. Af áhugasömu fólki sem gefur sér tíma til að vinna oft á tíðum tímafrekt og krefjandi starf fyrir sitt félag. Það mætir á fundi, tekur þátt í fjáröflunum, fer á leiki og fagnar með sínum liðum þegar vel gengur en stappar stálinu í mannskapinn þegar illa gengur.
Enn og aftur virka því nýsamþykkt fjárlög eins og köld vatnsgusa á þetta fórnfúsa fólk, íþróttafélög landsins og íþróttahreyfinguna sem slíka því enn og aftur bólar ekki á leiðréttingu á skerðingu svokallaðs ferðasjóðs íþróttafélaganna, sem ÍSÍ hefur umsjón með. Fjárframlag ríkisins er enn um 20 milljónum undir áætlun, eða 70 milljónir miðað við fjárlögin og munar um minna. ÍSÍ hefur áætlað að kostnaður vegna ferðalaga íþróttafélaga á landinu, á öll mót á einu keppnisári, sé nálægt 1000 milljónum og því sjá allir að framlag hins opinbera dugar hvergi nærri til.
Enn og aftur er fallegum orðum og fyrirheitum ekki fylgt eftir með fjárstuðningi hins opinbera. Því eins og segir í stefnu ráðuneytis „þá á að efla keppnis- og íþróttagreinar og sjá til þess að sem flestir hafi tækifæri til þess að stunda íþróttir á því sviði sem þeir kjósa, hvort heldur er til ánægju, heilsubótar eða með afreksárangur í huga.“
Það sjá allir í hendi sér að ekki er hægt að framfylgja þessu miðað við núverandi stöðu. Starf íþróttahreyfingarinnar er löngu komið að þolmörkum vegna niðurskurðar og má búast við að það bitni svo um muni á starfsemi íþróttahreyfingarinnar.
Og hvar kreppir skóinn hvað mest? Á landsbyggðinni, eins og framkvæmdastjóri ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttir, benti réttilega á á dögunum. Hætta er á að mörg íþróttafélaganna úti á landi dragi úr ferðalögum liða sinna og hætti jafnvel þátttöku á mótum, því ferðakostnaðurinn er mikill og hefur hann sligandi áhrif á mörg þeirra. Kostnaður vegna ferða hefur hækkað töluvert á undanförnum árum, bæði vegna hækkunar á eldsneytisverði og flugfargjöldum og hvorki íþróttafélögin né foreldrar ráða við aðstæður.
Mikilvægt er gæta jafnræðis í þessu samhengi því hér ber að hafa í huga að skjólstæðingar íþróttafélaganna eru að mestu leyti börn og unglingar og þau ættu að hafa sama rétt og aðrir óháð búsetu bæði í leik og starfi. Nóg er að þurfa að ferðast langar leiðir til að fá tækifæri til að keppa á jafnréttisgrunni þó fjölskyldur þessa lands þurfi ekki líka að punga út háum fjárhæðum til þess eins að vera með.
Hér þarf svo sannarlega að gera betur.
Höfundur sækist eftir 2. – 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.