Hvað lærði ég á fimm árum í hönnunarnámi?

sigrun_halla_web.jpg
Ég lauk mastersnámi í fatahönnun síðastliðið vor frá Kolding school of design í Danmörku. Síðan að ég lauk náminu er ég búin að fást við ýmislegt, taka þátt í hönnunarsamkeppnum, starfa í framleiðslunni hjá áströlskum fatahönnuði sem heitir Sruli Recht, skipuleggja viðburði tengda fatahönnun á vegum Fatahönnunarfélags Íslands og taka þátt í austfirsku hönnunarverkefni styrkt af Þorpinu og Nýsköpunarmiðstöð íslands. 
 
Verkefnið hét Norðaustan 10 og vorum við nokkrir hönnuðir sem unnum með austfirsk hráefni í samvinnu við fyrirtæki á svæðinu. Síðastliðna 8 mánuði er ég búin að starfa sem fatahönnuður hjá útivistarfyrirtæki sem heitir Icewear. 

Ég sé þar um hönnun og þróun á útivistarfatnaði og eftirfylgni á framleiðslunni. Við erum með framleiðslu í Kína og svo í Vík í Mýrdal í Víkurprjón svo þetta eru mjög ólíkir þættir sem ég er að fást við þar. Rosalega skemmtilegt. 

Ég var beðin um að koma hingað með hugleiðingu fyrir samfélagið, eitthvað stutt og laggott. Ég ætla að gera mitt besta til að koma fyrir góðum boðskap á svona stuttum tíma. 

Það sem mig langar til að gera, er að segja ykkur á 5 mínútum það sem ég lærði á 5 árum í hönnunarnámi. 

Þetta eru atriði sem að mínu mati eiga við í nánast öllum aðstæðum og ekki hvað síst við fyrirtæki á Íslandi í dag sem eru kanski mörg hver í ákveðinni endurskoðun eftir efnahagshrunið. 

-Númer eitt var það að læra að þjálfa augun í því að sjá hluti í nýju ljósi. Sjá möguleikana í stað þess að vera með fyrirfram ákveðnar skoðanir. 

-Ég lærði að fylgja „mavefornemmelsen“ sem að ég mundi þýða þannig yfir á íslenski „að treysta á fiðrildin í maganum“. Það að treysta á innsæið.

-Það mikilvægasta sem ég lærði var að hugsa lengra en frá A-B. Með því á ég við að það er stundum hollt að vita ekki hver niðurstaðan er í upphafi verkefnisins. Það er mikilvægt að vera opin fyrir óvæntum niðurstöðum.


Þetta hljómar kanski ekki eins og mikill lærdómur eftir 5 ára háskólanám, en þetta er í rauninni grundvallaratrðiðin fyrir skapandi hugsunarhætti og eitthvað sem allir geta lært. Það er nefnilega þannig að allir menn eru skapandi. 

En með því að beita skapandi hugsunarhætti þarf maður líka að hafa tíma og þolinmæði til þess að prófa og gera mistök, prófa aftur og gera mistök, prófa í þriðja sinn og gera mistök, prófa síðan einu sinni enn og gera fjórðu mistökin en uppgötva svo kanski í milltíðinni að mistök númer 3 voru kanski ekki svo galin. 

Á þennan hátt verður nýsköpun til. 

Þessi verkferill á ekki bara við í fatahönnun eða myndlist eins og kanski margir eru kanski að hugsa, heldur í öllum atvinnu greinum. 

Vegna þess að ég veit að hérna eru aðilar sem fá kjánahroll þegar að þeir heyra orð eins og skapandi, list eða hönnun þá langar mig að taka dæmi um fyrirtæki sem mér finnst beita skapandi hugsunarhætti og eru að ná frábærum árangri í dag. Og með því að ná árangri er ég að tala um peninga, en líka að vinna í sátt við samfélagið og þróun á nýjar slóðir. 

Ég tek þetta fyrirtæki sem dæmi vegna þess að þetta er fyrirtæki sem að vinnur í ferðaþjónustu bransanum. Ég las nefnilega grein í Austurglugganum þar sem verið var að ræða hversu stutt ferðamennirnir stoppa hérna á Austurlandinu og hvað þurfi að gera til þess að fá þá til að stoppa lengur. Þannig að ferðaþjónustan er heitt umræðuefni hérna á svæðinu í dag. 

Þetta er íslenskt fyrirtæki sem er tiltörulega nýtt og á að ég held eftir að slá alveg í gegn. Fyrirtækið heitir Kex Hostel vegna þess að það er til húsa í gamalli kexverksmiðju. Kex Hostel byrjaði sem farfuglaheimili og rekur svo líka í lobbíinu vinsælan veitingastað og bar. Kex hostel er svo núna að færa út kvíarnar og er um þessar mundir að byrja að vera með skipulagðar ferðir fyrir túrista. Þeir hjá Kex ákváðu að beita skapandi hugsunarhætti og bjóða uppá óhefðbundnar ferðir. 

Í stað þess að smala öllum túristunum uppí rútu og keyra Gullfoss og Geysi eins og öll hin fyrirtækin og græða fúlgur fjár, nóg er eftirspurnin eftir þeim ferðum, bjóða þeir meðal annars uppá hjólreiðaferð um Reykjanes, leiðsögn um Reykjavíkurborg þar sem farið er yfir menningar- og tónlistarsögu borgarinnar og svo er skipulagðar sundferðir með barnabarni Halldórs Laxness, kallaður Dóri DNA. 

Í þeirri ferð er ekki bara spjallað í heita pottinum þar sem að tekin er púlsinn á þjóðarsálinni, heldur einnig teknar nokkra Mullers æfingar á bakkanum. 

Mér finnst sundferðin vera sérstaklega skemmtileg vegna þess að ferðamenn vilja oftar en ekki upplifa eitthvað sem er einkennandi fyrir landið. Og hvað er meira íslenskt en að skella sér í heitapottinn og spjalla. 

Kex tók sér tíma til þess að gera hlutina vel, skapa umgjörð og ákveðna upplifun í kringum fyrirtækið sem til lengri tíma mun fleyta þeim langt. 

Svo eru auðvitað öll þau fyrirtæki sem hafa beitt skapandi hugsunarhætti við uppbyggingu á innviði fyrirtækisins með það markmið að skapa gott vinnuumhverfi fyrir starfsfólk sitt og reyna að ná því besta fram hjá starfsfólkinu sínu. Því ánægðir starfsmenn er jafngildi ánægðra viðskiptavina. Þar má til dæmis nefna fyrirtæki eins og Nova. 

Mín skilaboð til ykkar er því að beita skapandi hugsunarhætti og sjá tækifærin sem leynast hérna á öllum vettvöngum, því þau eru mörg. Þetta er lítið samfélag og með því að sameina hugvit og krafta og beita skapandi hugsunarhætti eru allir vegir færir. 

Veitum hvort öðru innblástur, vinnum saman, verum skapandi. Þetta er alltaf saman mikil vinna. En þetta er líka skemmtileg vinna.
 
Hugleiðing flutt á atvinnulífssýningunni Okkar samfélag 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar