Hvað næst í söngkeppni framhaldsskólanna?
Forsvarsmenn nemendafélaga framhaldsskólanna þurfa að setjast niður eftir söngkeppnina í kvöld og taka erfiðar ákvarðanir um framhaldið. Stærsta uppgjörið verður við hvers konar keppni þeir vilja sjá í framtíðinni. Hreina vinsælda- og fagkeppni eða félagslegan viðburð þar sem allir hafa jöfn tækifæri. Og stærsta spurningin af öllu: Er bein sjónvarpsútsending nauðsyn?
Fyrirkomulag keppninnar í ár olli deilum. Mörgum gramdist að hún skyldi færð til Reykjavíkur þegar komin var reynsla á gott djamm á Akureyri. Að aðeins tólf skólar, kosnir í símakosningu, kepptu á lokakvöldinu. Stolt landsbyggðarinnar er sært, keppnin færð til borgarinnar. Stóru skólarnir í þéttbýlinu þykja eiga meiri möguleika á að komast í lokakvöldið.
Austfirðingar þóttust þannig hafa verið sviknir þegar í ljós kom að bæði ME og VA sitja heima. Á móti bentu forsvarsmenn keppninnar á að ekki hafi verið hægt að koma keppninni í sjónvarp nema gera nauðsynlegar breytingar. Dómnefnd hafi verið komið á laggirnar til að gæta hagsmuna þeirra minni og jafnmargir borgar- og landsbyggðarskólar hafi komist áfram í símakjörinu.
Það fyrsta sem forsvarsmenn nemendafélaganna þurfa að gera sér grein fyrir að þeir eiga keppnina og móta hana eftir sínu höfði, ekki Ríkissjónvarpið eða AM Events. Það að hafa keppnina ekki í sjónvarpi gæti rýrt möguleikana á styrktaraðilum. Það þarf þó ekki að vera. Yfirleitt eru alltaf einhverjir tilbúnir að styðja við flott verkefni og söngvakeppnin hefur verið flott verkefni. Mögulega væri hægt að hækka félagsgjöldin í félag framhaldsskólanema til að kosta keppnina, kalla það þátttökugjöld.
Það gæti líka sparast peningur, sjónvarpinu fylgir mikið umstang. Menn gætu snúið sér aftur í gamla, góða sjálfboðaliðastarfið. Í stað beinnar útsendingar væri hægt að taka keppnina upp og búa til þátt. Það er fengur fyrir RÚV að eiga upptökurnar, hversu oft höfum við séð í viðtalsþáttum upptökur af Emilíönu Torriní, Margréti Eir eða Magna þegar þau kepptu? Beinu útsendinguna væri hægt að senda út á netinu.
Menn verða samt líka að muna eftir markaðslögmálinu, ánægja venjulegs sjónvarpsáhorfanda af keppni með þrjátíu atriðum, þar af tuttugu fölskum, er takmörkuð.
Mér finnst söngvakeppnin vera félagsviðburður. Sennilega eini viðburðurinn sem er opinn og aðgengilegur fyrir alla nemendur framhaldsskóla. Með fyrirkomulaginu í ár er slegið á hvata nemenda í tuttugu skólum til að mæta á lokakeppnina. Það að úrslitin séu ekki ljós nema þremur dögum fyrir keppni gerir þeim ómögulegt að skipuleggja hópferðir á hana.
Það er reyndar ekki nýtt að stóru skólarnir vilji ráða ferðinni í samtökum framhaldsskólanema. Þegar ég var í forsvari fyrir nemendafélag ME fyrir nokkrum árum stóðu MR og Verzló utan við Félag framhaldsskólanema. Það höfðu þeir gert svo lengi að menn mundi ekki lengur af hverju.
Það tókst að koma Morfís-ræðukeppninni undir félagið og nokkrum árum síðar var hið nýja Samband íslenskra framhaldsskólanema stofnað með fulltrúum allra nemendafélaganna.Það er miður að Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra skuli hafa gengið úr því. Það er leiðinlegt ef þessu samstaða rofnar strax aftur. Ég vona að menn nái sáttum og FNV komi aftur inn.
Ég vil samt óska karlakór Stýrimannaskólans til hamingju með sigurinn, sérstaklega Austfirðingunum sem sýndu hæfileika sem maður vissi ekki af. Spurningin til þeirra er: Hvernig ætlið þið að deila verðlaununum?