Hvað er Sigfúsarstofa?

Á síðasta fundi sínum, þann 16. september 2020, samþykkti bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs stofnskrá fyrir nýja og sjálfstæða starfseiningu á sviði sögu og menningar sem nefnist Sigfúsarstofa – miðstöð fræða og sögu á Austurlandi.

Nafn sitt dregur stofan af Sigfúsi Sigfússyni þjóðsagnaritara og er tilgangur hennar að halda utan um æviverk hans og annarra sem lagt hafa mikið af mörkum til fræðastarfs á Austurlandi og rannsókna á sögu þess, og stuðla að frekari rannsóknum og fræðum í fjórðungnum.

Sigfús var einstaklega merkilegur maður en umfangsmikið þjóðsagnasafn sem hann tók saman hefur tvívegis komið út á prenti, í sextán bindum á árunum 1922 til 1959 og síðan í tíu bindum árin 1981-1991. Þá liggja eftir Sigfús ýmis handrit, fræði og kveðskapur, og bréf sem varðveitt eru í handritadeild Landsbókasafns Íslands.

Stjórn Sigfúsarstofu, sem skipuð er fulltrúum sveitarfélagsins, safna í Safnahúsinu á Egilsstöðum og Sögufélags Austurlands, kom fyrst saman árið 2021 en síðan hefur stofan átt aðkomu að nokkrum smærri verkefnum. Óskarsvaka var haldin á Skriðuklaustri í tilefni þess að hundrað ár voru frá fæðingu fræðimannsins Óskars Halldórssonar, sem stóð meðal annars að síðari útgáfu þjóðsagna Sigfúsar. Þá hefur Sigfúsarstofa ráðstafað fé til verkefna við skönnun og skráningu ljósmynda og forkönnun á óútgefnum handritum Sigfúsar, með hugsanlega útgáfu í huga. Verkefni þessi hafa miðast við þá fjármuni sem Sigfúsarstofa hefur haft úr að spila, en vonir stjórnar standa til þess að sveitarfélagið Múlaþing muni í framtíðinni auka þessi framlög svo að stofan geti að fullu náð markmiðum sínum.

Sem fyrr segir er Sigfúsarstofu ætlað að sinna ævi og verkum Sigfúsar Sigfússonar, en þó ekki eingöngu því markmiðið er að gera með sambærilegum hætti skil arfleifð annars fræðafólks sem hefur lagt drjúgan skerf til fræða og menningar hér á Austurlandi. Þá standa vonir stjórnar til þess að Sigfúsarstofa geti átt sér varanlegt heimili í hluta fyrirhugaðrar viðbyggingar við Safnahúsið á Egilsstöðum, og gert arfleifð Sigfúsar og annarra þar skil með sýnilegum og viðeigandi hætti.

Starfsemi Sigfúsarstofu er enn á frumstigi og í mótun. Það er bjargföst trú þeirra sem að stofunni standa að í starfi fólks á borð við Sigfús Sigfússon, og fleira fræðafólk bæði fyrr og nú, felist arfleifð sem sé mikilvægt að varðveita og gera góð skil Austurlandi til heilla. Án sögunnar er sjálfsmyndin veik og brotin, en saga Austurlands er merkileg og á það skilið að henni sé sómi sýndur.

Höfundur er héraðsskjalavörður á Héraðsskjalasafni Austfirðinga og formaður stjórnar Sigfúsarstofu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar