Hvar er íbúalýðræðið í Múlaþingi?
Það var sorglegt að hlusta á svör núverandi meirihlutaflokka í sveitarstjórnar Múlaþings, við spurningu á framboðsfundi um stuðning við laxeldi í Seyðisfirði.Afstaða Sjálfstæðisflokksins var þessi: Við erum bara umsagnaraðili og höfum engan ákvörðunarrétt. Í rauninni skiptir ekki mál hver skoðun okkar er. Við erum fylgjandi laxeldi í Seyðisfirði.
Afstaða Framsóknarflokksins var þessi: Höfum lítið um þetta að segja, fáum litlar tekjur af því, sem er synd. Við erum fylgjandi laxeldi í Seyðisfirði. Viljum samráð og íbúakönnun. Ljóst að lítið, sem stoppar það af, að þarna komi fiskeldi.
Í stuttu máli er afstaða meirihlutans þessi: Við ráðum engu, viljum ekki skipta okkur af þessu en erum fylgjandi fiskeldinu. Best að þetta hafi sinn gang, jafnvel þó litlar tekjur séu í boði.
Eftir framboðsfundinn er ég búinn að lesa álit Skipulagsstofnunar um þetta fiskeldi einu sinni enn. Þeir, sem svara svona, hafa bersýnilega lítið kynnt sér staðreyndir málsins. Alla vega ekki þær, sem fram koma í þessu áliti, en það er grundvallargagn þeirra, sem fara með ákvörðunarvaldið.
Í fyrri greinum hefur verið farið yfir marga neikvæða þætti þessa fiskeldis, sem Skipulagsstofnun bendir á. Hér eru nokkrar staðreyndir:
• Það er ekki pláss fyrir kvíar í Sörlastaðavík vegna sæstrengs
• Kvíar ná inn í siglingaleiðir um Seyðisfjörð
• Snjóflóðahætta er í Selstaðavík
• Neikvæð áhrif á króka- og línubáta
• Neikvæð áhrif á ferðaþjónustu, grunnatvinnuveg Seyðfirðinga
• Meirihluti íbúa á Seyðisfirði eru andvígir fiskeldinu
Svo er það falska beitan um mikinn fjölda nýrra starfa. Hún byggir á gamalli áætlun Byggðastofnunar. FA notar vísvitandi ekki tölur úr eigin rekstri á kvíum annarsstaðar á Austurlandi.
Stóra spurningin er. Af hverju kjósa ráðandi öfl í Múlaþingi að sitja hjá og segja pass við áformum, sem fá eftirfarandi dóm hjá Skipulagsstofnun. (Kafli 3.9.3 bls. 24)?
„Með hliðsjón af framangreindu telur Skipulagsstofnun að áhrif á samfélag og efnahag séu óvissu háð, en geti orðið talsvert eða verulega neikvæð ef ekki næst sátt um framkvæmdina í nærsamfélaginu.“
Hvar er íbúalýðræðið?
Ég veit að ákvörðunarvaldið er ekki hjá sveitarfélaginu, bara umsagnarréttur. Þann rétt á að nýta í öllum málum, en meirihlutinn hefur ekki viljað nota hann í laxeldinu. Fyrir það fær hann falleinkunn.