Hvar hafa dagar lífs míns lit sínum glatað?

Þegar ég var lítil hafði ég mikinn áhuga á litlum apaböngsum sem kölluðust „monsur“ og einnig því að klippa fólk og fylgihluti út úr Freemans og Kays-vörulistum, raða þeim saman og skapa nýjar fígúrur. Þar á eftir heillaðist ég af Duran Duran og Madonnu, sem ég reyndar dái enn. Því næst fór ég að safna stelli og öllu sem heimili tilheyrði þar sem ég fór snemma að búa og standa á eigin fótum. Svo þetta hefðbundna, bleijur, blautþurrkutegundir, útivist og ferðalög.



Síðustu ár og með vaxandi þunga hef ég fengið mikinn áhuga á flokkun heimilissorps og núna upp á síðkastið bætti ég nýrri fjöður í hattinn minn þegar ég nánast lét húðflúra „Minnkum matarsóun“ á ennið á mér.

Hvar hafa dagar lífs míns lit sínum glatað? Frá því að mála á mig bláan augnskugga eins og Simon Le Bon, söngvari Duran Duran, og yfir í það að hugsa hvort ég geti farið að vasast með moltu hér í fjölbýlishúsagarðinum. Er þetta kannski bara staðfesting á því að ég er orðin svona svakalega miðaldra? Eða bara almenn vakning í samfélaginu? Mér er sama – þessi mál eru mér í það minnsta mjög hugleikin um þessar mundir.

Ég hef flokkað heimilissorp í nokkur ár og það sem hefur komið mér mest á óvart er hversu gífurlegt magn af plasti berst inn á hvert heimili í formi hverskyns umbúða. Já og pappír, maður lifandi. Það hefur leitt til þess að reyni að velja vörur sem eru ekki tví- eða þrí-pakkaðar. Hvað er það eiginlega? Það þarf til dæmis meirapróf og meistaragráðu í verkfræði til þess að opna barnaleikföng!

Eftir að hafa flokkað svona lengi langar mig að taka næsta skref, lífræna úrganginn. Mér svíður að henda bananahýði með einhverju óflokkanlegu sem hafnar í almenna sorpinu. Bara þoli það ekki. Hef lengi verið eins og hunangsfluga, suðandi um hvenær blessaða „brúna tunnan“ sé væntanleg hingað í Fjarðabyggð. Lítill fugl hvíslaði svo að mér algerlega óstaðfestum fregnum þess efnis að nú færi það að styttast. Ég veðraðist öll upp og var nánast farin að teikna upp matjurtagarð á sameignarleigulóðinni.

Það að velta mér svo mikið upp úr lífræna úrganginum og reyna að takmarka hann sem mest ég má, leiddi af sér heildstæðar pælingar um matarsóun. Það er ekki eins og ég sé að finna upp hjólið eða boða ykkur mikinn fögnuð um að Matarsóunarfrelsarinn ég sé fæddur. Nei, nei – þetta hefur einnig að sjálfsögðu verið mikið í umræðunni og verslanir blessunarlega farnar að spila með og setja varning sem nálgast síðasta söludag á niðursett verð og með því spornað við sóun.

Það er í rauninni svo auðvelt að vinna með þetta, bara frekar skemmtilegt og fer betur með veskið – en með því að henda mat erum við að sjálfsögðu bara að henda peningum. Viljum við það?

Ég hef reyndar alltaf farið með miða í búð, annars er ég alveg gagnslaus, fer ráfandi um búðina og kem heim með friðarkerti í stað ýsu. Stóra breytingin sem ég gerði er að yfirfara skápana, ísskápinn og frystinn mjög reglulega og vinna út frá því. Auðvitað langar okkur stundum í eitthvað sem alls ekki er til og þá bara kaupum við það. Ef af þeirri máltíð fellur oft eitthvað, kannski afgangar eða auka hráefni og því er svarið við vinsælustu spurningu hvers dags: Hvað er í matinn? oft þetta; TTÍ.

TTÍ, eða tekið til í ísskápnum er nýr og æsispennandi dagskrárliður á heimilinu. Ekki að ég hafi ekki oft unnið með afganga en ekki með þetta markvissum hætti. Alveg tvisvar í viku er TTÍ-máltíð og hún er svo skemmtileg. Svona eins og óvissuferð. Þá er allskonar dregið fram og oft verða til glænýir réttir í kjölfarið. Í gær bauð ég upp á ananas út á grjónagraut. Veit ekki alveg með það. En, þið vitið hvað ég er að meina.

Allavega, ég býð ykkur hér með að hoppa á flokkunar- og matarnýtingavagninn. Svonna, tjobb, tjobb.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.