Hvenær drepur fjölmiðill mann?

BRÉF TIL BLAÐSINS

Aðalsteinn Jónsson og Sigurður H. Jónsson skrifa frá Jökuldal

Stjórnarformanni Austurgluggans er ekki skemmt, mörgum af lesendum Austurgluggans ekki heldur.

Lögin um kynferðislega misbeitingu eru ein af mikilvægustu lögum samfélagsins.

Þrátt fyrir þessi lög og fullan vilja til að framfylgja þeim, er enn í dag alltof oft sem þeir sem brjóta gegn þessum lögum sleppa án refsingar. Eftir situr fórnarlambið með sársaukann og niðurlæginguna. Stöndum saman um að virða rétt þessara fórnarlamba og gerum allt sem hægt er til réttlætið nái fram að ganga, en stöndum jafnframt vörð um að þessi lög séu ekki misnotuð, því ekki er betra að sitja uppi ævilangt með dóm vegna brots sem ekki var framið, frekar en sitja uppi með brotna sál vegna misnotkunar og ekki hafi tekist að fá réttlætinu fullnægt.

Vegna umfjöllunar tveggja síðustu blaða Austurgluggans um þorrablót Hlíðarmanna og Jökuldælinga er haldið var í Brúarási 16 febrúar síðastliðinn teljum við nauðsynlegt að rifja upp forsögu þess máls sem þar er fjallað um, tekið skal fram að það er einungis gert vegna umfjöllunar blaðsins.

Efnt til samkvæmisleikja 

Það er árshátíð Héraðsverks ehf, haldin í Valaskjálf þann 23 júní 2007, það skemmta sér allir, þar á meðal sakborningurinn sem er starfsmaður Malarvinnslunnar á Egilsstöðum og situr við hlið fórnarlambsins.

Veislustjóri efnir til ýmissa samkvæmisleikja, hápunktur þeirra er að sá sem fyrstur kemur með brjóstahaldara uppá svið fær að verðlaunum utanlandsferð fyrir tvo.

Hleypur sakborningi nú kapp í kinn eins og kannski fleirum á þessari hátíð, hyggst hann vinna til verðlaunanna, í hita augnabliksins og einnig kannski búinn að innbyrða of mikið af  áfengum drykkjum þrífur hann til umbeðinnar flíkur fórnarlambsins og togar í.

Skömmu síðar hafði sakborningur samband við fórnarlambið og baðst afsökunar fullur iðrunar og bauð bætur vegna tjóns er hann hefði hugsanlega valdið henni.

Ekki voru þegnar bætur, heldur málið kært til lögreglu, þar játaði sakborningur brot sitt undanbragðalaust og reyndi ekki á nokkurn hátt að bregðast til varnar. Gekk dómur í málinu þar sem hann fær þrjátíu daga skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir kynferðislega áreitni.

Þrátt fyrir að brotið sé alvarlegt, þá eru margir þeirrar skoðunar að ekkert bendi til þess að neitt kynferðislegt tengist málinu, ekki hafi verið til staðar einbeittur brotavilji til kynferðisbrots, þar sé því búið að misnota þau lög sem nefnd voru í upphafi. Einstaklingur situr uppi ævilangt með dóm, sem nýtur verulegs vafa og miklar líkur á að hefði fallið á annan veg ef gripið hefði verið til varna í málinu.

Sleggjudómar um flutning efnis. 

Ekki er nóg með að Austurglugginn taki að sér fullnustu aftökunnar heldur fylgja í fyrri grein blaðsins öll þorrablótsnefnd Hlíðar og Jökuldals og í hinni síðari einnig allir Jökuldælingar. Sú grein er rituð af slíkri vanþekkingu um menn og málefni að undrum sætir, eru þar jafnvel felldir sleggjudómar um flutning efnis sem greinarhöfundur hlýddi ekki á.     

Fyrsta fréttin af málinu er í 4. tbl. blaðsins frá 31. janúar síðastliðnum. Þar segir frá að karlmaður á fimmtugsaldri hafi verið dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Austurlands fyrir kynferðislega áreitni.

Þar er ekki sagt frá því að maðurinn hafi ekki gripið til varna og þess vegna hafi heimadómur gengið í málinu. Vaninn er í svona fréttum að segja frá hver hafi sótt málið og hver hafi varið það, þá hefði það komið fram að ekki hafi verið um vörn að ræða, sem verður að teljast til fréttar og stór hluti af málinu öllu.

Síðan tekur ritstjóri blaðsins sig til og skrifar dæmalausa frétt í 9. tölublað þann 6. mars síðastliðinn, sem virðist skrifuð af mikilli vanþekkingu á málinu. Fréttin er full af rangfærslum og sleggjudómum. Fyrst skal til að taka fyrirsögnina þar sem segir að gert hafi verið grín að málinu á kostnað fórnarlambsins, sem er alrangt. Það var hvergi minnst á fórnarlambið í því sambandi. Hins vegar var hinum dæmda velt uppúr málinu og gert grín að honum fyrir glópsku sína og ruddaskap.

Kallaður kynferðisafbrotamaður fimm sinnum og nafngreindur þrisvar 

Síðan verður að teljast mjög ámælisvert í fréttinni sem er ekki löng að þar er sakborningur beinlínis kallaður kynferðisafbrotamaður fimm sinnum, þar af í fyrirsögninni í fleirtölu, auk þess sem hann er nafngreindur þrisvar, sem verður að teljast afrek út af fyrir sig í aðeins 167 orða frétt.

Það kemur hvergi fram í fréttinni að háttsemi ákærða er í dómnum ,,heimfærð undir 199. gr. almennra hegningarlaga um kynferðislega áreitni”.

Þetta verður að teljast óeðlilegt í hæsta máta þar sem það er vani og vinnuregla allra fjölmiðla sem vilja að mark sé á þeim tekið að þar eru sakborningar í dómsmálum ekki nafngreindir nema þeir hafi hlotið í það minnsta eins árs fangelsisdóm óskilorðsbundinn. 

Það vantar ekkert nema mynd af sakborningnum með fréttinni til að fullkomna sorpblaðamennskuna og fullnusta dóm blaðsins.

Þar að auki teljum við að ritstjóri blaðsins sé vanhæfur til að skrifa um málið vegna vinatengsla hans og konu hans við fórnarlambið. Kannski er það einmitt vegna þessara tengsla sem allur málflutningur blaðsins í þessu máli er á einn veg, það er hallar allur mjög á sakborninginn. 

Ritstjóri eða málpípa stjórnarformannsins 

Í síðasta tölublaði Austurgluggans tekur þó steininn alveg úr, þegar formaður stjórnar Útgáfufélags blaðsins skrifar heilsíðu grein til varnar klúðri ritstjórans og ver skrifin á mjög óskammfeilin hátt með því að fordæma og ausa alla Jökuldælinga auri. Það lýsir engu betur en að hann hefur vondan málstað að verja.

Hingað til hafa ritstjórar blaða verið fullfærir að verja sig sjálfir ef á þá er hallað, fá ef eingin dæmi eru um að stjórnarformenn  blaða hafi geyst fram á ritvöllinn með slíkum hætti.

Þessi framganga gefur sterklega til kynna að ritstjórinn sé aðeins málpípa stjórnarformannsins og innihald greinarinnar gerir ekkert nema undirstrika það.

Frá því segir í greininni að aðalskrifstofa Austurgluggans sé í lánshúsnæði. Ekki er sagt frá því að húsnæðið sé í eigu AFLs starfsgreinafélags sem greinahöfundur er einnig framkvæmdastjóri fyrir. Það er ekki trúverðugt fyrir blað eins og Austurgluggann sem á að vera hlutlaust að það sé upp á jafn stóran aðila í fjórðungnum komið fjárhagslega.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.