Hver er sjónarhóll RÚV?
Í kvöldfréttum RÚV á sunnudag var farið yfir flutning ríkisstofnana út á land undir fyrirsögninni að Framsóknarflokkurinn hefði staðið á bakvið mest af þeim. En spurningin er hvort að fréttin skilji ekki eftir stærri fyrirsagnir og spurningar.
Varnaglar
Áður en ég held lengra vil ég reka nokkra varnagla. Mér er illa við að gagnrýna starfssystkini mín af því ég veit að aðstæður þeirra eru oft erfiðar, mistök og ónákvæmni verða undir tímapressu, plássleysi og mannlegum takmörkunum, auk þess sem allt sem fréttamenn senda frá sér er opinbert. Þetta er eins og með markverðina í fótboltanum, það sjá allir þegar þeir gera mistök meðan leikmenn framar á vellinum geta sloppið.
Fréttastofa RÚV er sú besta í landinu og Sigríður Dögg, sem gerði fréttina, frábær fréttamaður. En fréttastofan er ekki heilög. Fjölbreytni, í krafti stærðarinnar, er einn hennar helsti styrkur. Vinnuumhverfi, í krafti ríkisframlags, hefur hjálpað henni að fá til sín marga af bestu blaðamönnum landsins. Því er ég viss um að innanhúss er farin af stað öflug, fagleg umræða um það sem sent var út í gærkvöldi.
En akkúrat út af þessu gerum við kröfur til RÚV. Hefði einhver einkareknu Reykjavíkurmiðlanna sent birt sambærilega frétt hefði maður hugsað „æi“ en í þessu tilfelli er það frekar: „Þú líka, Brútus?!“
Ég hef líka samúð með þeim starfsmönnum brunamálasviðs, sem kusu að flytja ekki með sviðinu. Það er aldrei gaman þegar einhver missir vinnuna. Þeir geta þó sennilega huggað sig við að eiga auðveldara með að finna sér vinnu við hæfi, án þess að þurfa að flytja, heldur en fjöldi annarra opinberra starfsmanna víða um land þegar störf þeirra hafa verið lögð niður.
Aumt kjördæmapot
Að taka saman yfirlit um flutning ríkisstofnana er handavinna sem tekur tíma. Samt ber fréttin vitni um fljótaskrift. Það er auðvelt að ráðast á hana fyrir staðreyndavillur, til dæmis að hafa gert bæði Valgerði Sverrisdóttur og Jón Kristjánsson að þingmönnum Norðvesturkjördæmis, nokkuð sem snarlega var leiðrétt í netútgáfunni. Í öðru lagi er það að tvítelja Landbúnaðarstofnun/MAST því 2008 var nafni Landbúnaðarstofnunar breytt í MAST. En það er fleira sérstakt í talningunni, sem síðar verður útskýrt.
Eitt af því áhugaverðasta en jafnframt flóknasta í blaðamennsku er valið á sjónarhorninu á viðfangsefnið. Af hverju finnst okkur ákveðið málefni skipta það miklu máli að við verjum tíma í að fjalla um það og fylgja því eftir? Hvaða áhrif hefur bakgrunnur okkar, tengslanet, stéttarstaða eða búseta okkar? Er glasið hálffullt eða hálftómt?
Fréttin frá í gær er dæmi um hvort horft sé á málið frá sjónarhorni höfuðborgarsvæðisins eða landsbyggðarinnar og ræður bæði fréttamatinu og fyrirsögninni, að taka færslu starfa frá höfuðborgarsvæði til landsbyggðar til skoðunar og hverjir standi fyrir því.
En í gærkvöldi, þegar ég renndi yfir listann yfir stofnanirnar, var mín fyrsta hugsun: „Djöfull er þetta aumt.“
Hugsunin beindist að stjórnmálamönnunum og forstöðufólki ríkisstofnana, ekki fréttaflutningnum. Miðað við lætin sem skapast í kringum flutning opinberra starfa út á land hefði ég haldið að það væri mun algengara. Og ég hélt að fleiri hefðu haft dug í sér til þess en ráðherrar Framsóknarflokksins. Ef rétt er á spilunum haldið gæti fréttin frá í gær reynst flokknum himnasending í kosningum á næsta ári þegar þingmenn flokksins fara út í kjördæmin og segja: „sjáið, hverjir raunverulega tryggja opinber störf á landsbyggðinni.“
„Siri, skilgreindu fyrir mig stofnun“
Hitt sem er aumt er að þarna er ekki verið að tala um eiginlegar stofnanir. Ég hefði skilið svona frétt í kjölfarið á flutningi Fiskistofu 2016 en ekki fyrir flutning afmarkaðs sviðs, fjögurra starfa. En á listanum eru líka tvær símsvörunardeildir og bráðlega hið umdeilda brunamálasvið sem tilheyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Að mínu viti þarf einbeittan vilja til að flokka þetta sem „stofnanir.“
Þrjár eru smástofnanir, Jafnréttisstofa, Fæðingarorlofssjóður, sem nú heyrir undir Vinnumálastofnun, og Byggðastofnun (fyrir það fyrsta: hvern fjandann var hún að gera í Reykjavík til að byrja með?! Í öðru lagi þá var svæðisskrifstofum lokað við flutninginn.)
Eftir stendur að einu eiginlegu stofnanirnar sem hafa verið fluttar – og þar með er eitthvert bragð að – Fiskistofa og Landbúnaðarstofnun. Og ég held að það sé ekki flókið að færa rök fyrir að starfsemi beggja snúist að miklu leyti um það sem gerist á landsbyggðinni.
Það er meira að segja hængur á. Fyrsta ríkisstofnunin sem flutt var út á land var Skógrækt ríkisins sem kom í Egilsstaði í byrjun árs 1990. Málið er hins vegar að þar er átt við skrifstofu skógræktarstjóra. Skógræktin, Fiskistofa og MAST eru allar með stórar skrifstofur á höfuðborgarsvæðinu. Póstfang Fiskistofu er meira að segja enn skráð í Hafnarfirði. Það var allur flutningurinn!
Og svo mætti áfram telja ...
Þegar eitthvað er gert á landsbyggðinni eru þeir sem gæta hagsmuna höfuðborgarsvæðisins fljótir að sækja kjördæmapotsspilið. En þegar eitthvað flyst í hina áttina virðist það vera náttúrulögmál. Og er það ekki að vissu leyti því Reykjavík er jú höfuðborgin, miðstöðin sem tengir aðra saman. En hvað með kjördæmapot höfuðborgarsvæðisins?
Það væri hugmynd fyrir RÚV að fylgja eftir umfjöllun sinni frá í gærkvöldi með fréttum og fréttaskýringum um hreppaflutninga ríkisstarfa. Hvaða flokkur hefur til dæmis flutt flest störf frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins? Við getum byrjað. Á brunamálasviðinu er um að ræða fjóra sérfræðinga. Í byrjun mánaðarins var ákveðið að loka fangelsinu á Akureyri þar sem fimm starfsmenn hafa verið sem gerir stöðuna 4-5 fyrir dómsmálaráðuneytinu í þessum mánuði! Í síðasta mánuði lokaði Háskóli Íslands fræðasetri sínu á Laugarvatni. Því var komið á fót þegar skólinn færði íþróttafræðikennsluna þaðan til Reykjavíkur 2016. Þar fóru eflaust nokkur störf. Svo við byrjum ekki á sameiningu sýslumannsembættanna 2015. Og Austfirðingar gráta Nýsköpunarmiðstöð, sem tvisvar hefur lokað starfsstöð sinni í fjórðungnum, krókódílatárum.
Hver græðir mest á störfum ríkisins?
Það ætti að flýta nokkuð fyrir samantektinni að þessar tölur eru að einhverju leyti til, annars vegar hjá Byggðastofnun, hins vegar hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi. Í byrjun árs gáfu samtökin út hagvísi um staðsetningu ríkisstarfa.
Þar var meðal annars spurt hvaða landsvæði hagnaðist mest á staðsetningu ríkisstarfa? Er það Norðvesturland? Nei. Skagafjörður? Nei. Landsbyggðin? Nei. Höfuðborgarsvæðið? JÁ!
Þar búa 64% landsmanna en þar eru 71% starfa ríkisins. Aðeins eitt sveitarfélag, örsveitarfélag á landsbyggðinni sem vart telst tölfræðilega marktækt, hefur fleiri ríkisstörf umfram íbúafjölda en Reykjavík. Og nei – það er heldur ekki Skagafjörður, né er það á höfuðborgarsvæðinu.
Ekki nóg með það þá er höfuðborgarsvæðið eina landssvæðið sem hagnaðist á fjölgun opinberra starfa á árunum 2013-18. En í hópi þeirra sveitarfélaga þar sem störfunum fækkaði mest á sama tíma eru Djúpivogur (45%) og Seyðisfjörður (17%). Rétt er að minnast á að með uppsögnum aðstoðartollvarða nýverið hefur staða þess síðarnefnda trúlega að versna til muna. Það segir kannski sitt um þessa umræðu að það er tiltölulega einfalt að telja upp þau ríkisstörf sem flutt hafa verið út á land, en umtalsverð vinna, jafnvel óvinnandi, að finna þau störf sem ýmist hafa orðið til á höfuðborgarsvæðinu eða verið flutt þangað.
Til að RÚV sé sýnd sanngirni þá fjallaði fréttastofan um hagvísinn þegar hann kom í byrjun árs. Um það sá fréttamaðurinn á Vesturlandi. Og fréttamaður RÚV á Austurlandi fjallaði líka um tollverðina. Blessunarlega er það enn svo að RÚV er með starfsmenn á landsbyggðinni, þótt þeir séu mun færri en áður en svæðisútvörpin voru skorin af 2009. Þar fóru trúlega ein fimm stöðugildi úr samfélaginu á Fljótsdalshéraði. Fróðlegt væri að vita hvernig þróunin hafi síðan verið hjá stofnunni?
„Hagræðing“
Hagvísirinn er góður fyrir margra hluta sakir. Þar er til dæmis farið í forsöguna, hvernig ríkið tók þátt í að skapa innviðina sem byggðu Reykjavík upp. Þar er líka velt upp hvernig megi rétta af hallann á ríkisstörfunum og flutningur ríkisstofanna sérstaklega tilgreindur. Nefnt er að hann hafi verið reyndur á Norðurlöndunum og í þeirra rökstuðningi kemur upp merkilegt hugtak – hagræðing!
Hérlendis eru „hreppaflutningar“ og „kjördæmapot“ einnig þekkt sem „hagræðing,“ nema að hið síðastnefnda er yfirleitt notað þegar störfum á landsbyggðinni er fækkað. Á Norðurlöndunum hefur það hins vegar verið notað sem ástæða fyrir að færa störf úr þéttbýlinu. RÚV gæti á næstunni dundað sér við að reikna út kostnað við ríkisstörf, því húsnæðis- og launakostnaður er alla jafna lægri á landsbyggðinni en í höfuðborginni. Var það skynsamleg meðferð fjár að ríkisbankinn, Landsbankinn, byggði nýjar höfuðstöðvar við hliðina á Hörpu? Umframkostnaður þeirra var í ársbyrjun orðin 1,8 milljarðar, á við einn Borgarfjarðarveg eða kílómetra af jarðgöngum. Það er dugleg innspýting í hagkerfi þess svæðis þar sem húsið rís og hefði eflaust dugað í nokkur ár fyrir rekstri útibúa á landsbyggðinni, alla veganna beggja þeirra sem sagt var upp á Seyðisfirði 2015.
Önnur ástæða sem er gefin á Norðurlöndunum er að eftirlitsstofnanir eigi ekki að vera nærri þeim sem þær hafi helst eftirlit með. Dauðafæri var klúðrað þegar Fjölmiðlanefnd var stofnuð í Reykjavík. Og úr fjölmiðlasögunni má til gamans rifja upp að breska blaðið Guardian var stofnað í Manchester, akkúrat til að elta ekki sömu vitleysuna og Lundúnablöðin, þótt aðalskrifstofan sé komin þangað núna.
Inn í alla þessa umræðu má henda ýmsum hugtökum til að gera blönduna bragðmeiri. Í umræðunni um brunamálasviðið hefur meðal annars verið rætt um „spekileka,“ þ.e. þegar þekking tapast. Það er vont að góðir starfsmenn fylgi ekki stofnunni. En hve miklum spekileka hefur landsbyggðin orðið fyrir við hagræðingu ríkisstarfa? Þá er í Hagvísinum einnig bent á að að fjölgun opinberra starfa í dreifbýli kemur einkum konum til góða. Í lokaritgerð við Háskólann á Akureyri árið 2007 er bent á að konur séu um það bil þrisvar sinnum fleiri en karlar í opinberum störfum.
Handafl gegn náttúrulögmálinu
Í Hagvísinum er réttilega bent á að flutningur starfa með handafli sé líklegur til að verða umdeildur. Margt virðist þó benda til að hann sé einhver öflugasta og skilvirkasta leiðin. Fyrst og fremst er grátlegt að það þurfi ráðherravald til að beina störfum út á land og það sé jafn umdeilt og raun ber vitni, þrátt fyrir að hafa birst í ríkisstjórnarsáttmálum á ýmsan hátt áratugum saman.
Sem betur fer er til mýkri leið til að rétta af þróunina, að auglýsa störf án staðsetningar, það tekur langan tíma og það slagorð hefur stundum snúist upp í andhverfu sína, eins og þegar fyrsti framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs endaði í Reykjavík. Viðhorfið skiptir líka máli, eins að einhverju leyti kemur fram í svörum ráðherra við fyrirspurnum Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar úr Norðausturkjördæmi á Alþingi í vetur um hversu mörg störf innan ráðuneytanna þeir teldu að væri hægt að vinna óháð staðsetningu. Vonandi hefur viðhorfið breyst eftir heimavinnutímabilið nú á vormánuðum.
Það þykir ekki snjallt hjá blaðamönnum að láta uppi hugmyndir sínar, en ég gæti ímyndað mér að grein um „10 ríkisstofnanir sem gætu sómt sér vel á landsbyggðinni“ fengi bæði viðbrögð og lestur. Ég þarf reyndar að skera niður listann minn, ég er þegar kominn með þrettán og er ekki hættur. Af hverju er til dæmis Rarik, sem hvorki framleiðir né dreifir rafmagni á höfuðborgarsvæðinu, með höfuðstöðvar sínar þar? Ég er ekki einu sinni byrjaður á afmörkuðum sviðum stofnana. Þarf erlenda fréttadeildin á RÚV að vera í Efstaleitinu?
Þegar Landmælingar voru fluttar 1999 urðu harðar deilur sem enduðu í lögsóknum og því að forstjórinn flutti einn með stofnunni. Stofnunin var í vandræðum fyrst eftir, en telst núna í góðu ásigkomulag og vera hennar mikilvæg fyrir bæjarfélagið. Á 20 ára starfsafmæli hennar þar var haldið málþing um ríkisstofnanir á landsbyggðinni þar sem spurt var hvort slíkt væri búbót eða basl. Í erindi forstjóra stofnunarinnar er að finna sæg af áhugaverðum atriðum um ríkisstofnanir á landsbyggðinni, áskoranir þeirra og tækifæri.
Og niðurstaða þeirra? Búbót frekar en basl.