Hverjum treystir þú?

Á undanförnum dögum og vikum höfum við frambjóðendur Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi ferðast vítt og breitt um kjördæmið og kynnt stefnu okkar og áherslur vegna komandi alþingiskosninga. Við höfum haldið fjölmarga fundi í kjördæminu auk þess að heimsækja fjölda vinnustaða, stofnana og fyrirtækja um allt kjördæmið. Þetta hafa verið góðir dagar og gefandi fyrir okkur og vonandi einnig fyrir þau ykkar sem við höfum hitt. Þær viðtökur sem við höfum fengið vekja okkur von í brjósti um að Vinstri græn muni uppskera vel í kosningunum á laugardaginn.

Velferð fyrir venjulegt fólk

Þörfin fyrir bættar samgöngur og öflugri innviði, heilsugæslu, löggæslu og skóla er brýn í kjördæminu okkar. Ójöfnuður hefur aukist á Íslandi á undanförnum árum, bæði efnahagslegur en ekki síður á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Um þetta er fólk almennt sammála. Hvert sem við höfum lagt leið okkar hefur þetta verið meginumræðuefni íbúa kjördæmisins. Að úrbótum í þessum málaflokkum viljum við Vinstri græn vinna á næsta kjörtímabili og beita til þess öllu því afli sem kjósendur gefa okkur. Við höfum lagt fram skýra stefnu í því hvernig við teljum að best verði að því staðið að efla innviðina, draga úr ójöfnuði og efla velferð fyrir venjulegt fólk.

Takk fyrir okkur!

Vinstri græn er ekki flokkur yfirdrifinna kosningaloforða. En við lofum því að standa vörð um hagsmuni kjördæmisins og vinna að sókn þess á öllum sviðum. Til þess þurfum við á góðum stuðningi kjósenda að halda í kosningunum á laugardaginn. Aðeins þannig getum við tryggt aukið vægi kjördæmisins á Alþingi og sótt fram.

Við þökkum íbúum Norðausturkjördæmis góðar viðtökur á ferðum okkar um kjördæmið að undanförnu.


Höfundar skipa efstu sex sætin á framboðslista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.