Hvernig gat þetta gerst?
Í sögutímum og þegar ég lærði um helförina skildi ég ekki hvernig hún gat gerst. Þegar ég las dagbók Önnu Frank og horfði á bíómyndir um þennan tíma skildi ég það ekkert frekar. Ég skildi ekki hvernig svona mikil illska gat orðið ofan á, hvers vegna enginn stoppaði þetta, hvernig lifði fólk bara lífinu vitandi hvað var að gerast!? En ég huggaði mig við að þetta myndi aldrei gerast aftur, upplýsingaflæði væri orðið meira, alþjóðasamtök stofnuð til að koma í veg fyrir það og reynslunni ríkara myndi mannkynið sjá hvað væri í uppsiglingu og koma í veg fyrir að ámóta hryllingur gæti endurtekið sig.Þegar ég heimsótti safnið um Önnu Frank í Amsterdam fyrir þremur árum rann upp fyrir mér að jafn hræðilegur tími og helförin væri í uppsiglingu. Hluti safnsins er sérstaklega helgaður spurningunni: Hvernig gat þetta gerst? Við lifum á tímum þar sem aðstæður eru að verða mjög svipaðar og álíka hryllingur gæti verið næstur á dagskrá. Hræðilegir hlutir gerast þegar gott fólk horfir í hina áttina.
Í seinni heimstyrjöldinni gerðu Íslendingar ekki mikið til að aðstoða gyðinga eða aðra sem urðu fyrir ofsóknum. Ég hugsaði oft hvernig fólkinu, sem bjó á Íslandi, hafi liðið á þessum tíma með að gera ekkert til að hjálpa. Hvernig hafi verið hægt að lifa daglegu lífi á meðan hryllingurinn átti sér stað.
Á okkar tímum deyja lítil börn í búrum á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og í Evrópu er refsivert að bjarga flótta- og farandfólki úr lífshættu. Hér á íslandi gerum við lítið sem ekkert til að hafa áhrif á ástandið en sendum fólk sem flýr til okkar miskunnarlaust til baka.
Ég skal segja ykkur hvernig þetta gat gerst.Hægt og rólega voru líf sumra gerð minna virði en annarra. Heimurinn er kominn þangað, það er að vísu ekki byrjað að útrýma fólki á skipulagðan hátt, en það er bannað að hjálpa deyjandi fólki af ákveðnum uppruna. Ég veit þetta allt af því að það eru fluttar fréttir af þessu í beinni allan sólarhringinn, við erum búin að sjá fullt af myndum af drukknuðum börnum í Miðjarðarhafinu og börnum í búrum í Ameríku. Samt held ég bara áfram að lifa mínu venjulega lífi. Við verðum að reyna að hafa áhrif.Hvernig ætlið þið annars að útskýra þetta fyrir börnunum ykkar eða barnabörnum þegar þau byrja að læra um þetta í sögutímum? Af hverju gerðum við ekkert? Hvernig gat þetta gerst?