Hvernig útvarpsgjaldið verður að tvískatti

Ég hélt að sú meginregla gilti að einstaklingurinn skyldi ekki greiða sama skattinn tvisvar. Eftir yfirlegu mína á útvarpsgjaldinu, sem við öllum borgum, hef ég þó farið að spyrja spurninga um hvort það brjóti í bága við þessa reglu.

Ég og konan mín stöndum að baki litlu einkahlutafélagi. Það er engin starfsemi í félaginu sem stendur og VSK-númerið er lokað. Samt fær það reglulega reikninga frá innheimtumönnum ríkissjóðs, eins og fleiri fyrirtæki.

Reikningarnir eru oftast óljósir, á þeim stendur ekki annað en þeir séu fyrir þing- og sveitarsjóðsgjöld. Í þann flokk falla meðal annars tekjuskattur, útsvar, gjald í framkvæmdasjóð aldraðra, fjármagnstekjuskattur, slysatrygging við heimilisstörf, auðlegðarskattur, búnaðargjald, ofgreiddar barna- og vaxtabætur og að sjálfsögðu útvarpsgjaldið.

Að undanförnu hefur verið gengið í að krefja eigendur félaga um skráningu þar sem safnað er svokölluðum raunverulegum eigendum. Skattayfirvöldum ætti því að vera ljóst hverjir eigendur fyrirtækisins eru.

Í okkar tilfelli höfum við tvö greitt okkar útvarpsgjald, samtals 36.000 krónur. Við teljum okkur þar með hafa staðið skil á útvarpsgjaldinu, enda horfir kennitalan hvorki né hlustar á útvarp eða sjónvarp. Við vitum að við erum ekki ein þeirrar skoðunar.

Við höfum spurt hvort tvöföld skattheimta sé heimil á Íslandi en flestir sem við tölum við yppa öxlum. Innheimtumenn ríkissjóðs segja að svona komi þetta frá skattinum. Hjá þingmönnum í fjárlaganefnd er líka fátt um svör eins og þeim sé ókleift að svara þessari grundvallarspurningu hvort tvöföld skattheimta sé heimil.

Er einhver þarna úti sem veit betur?

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar