Hvers vegna er horft til „íslensku leiðarinnar“?

thuridur_backman_althingi_bw.jpg
Haustið 2008 varð á Íslandi eitt dýpsta efnahagshrun á sem sögur fara af, allt bankakerfi landsins hrundi, gjaldeyrisforði landsins þurrkaðist út og landið var á barmi þjóðargjaldþrots. Staða landsins var svo fordæmalaus að hvergi var hægt að finna fyrirmynd að leið til að forða þjóðargjaldþroti. Þetta var staðan fyrir rúmum 4 árum, því megum við ekki gleyma. Fyrir utan erlenda fjárfesta sem sáu fram á að tapa eignum sínum í bankahruninu, þá er ekki að undra að þjóðir heims hafa fylgst vel með stöðu og þróun mála á Íslandi.
 
Umræðan

Það er  eins og svart og hvítt að bera saman umræðu erlendis og hér á landi um stöðu Íslands í dag. Athygli heimsins beinist að því hvernig okkur hefur tekist að endurreisa landið eftir eitt dýpsta efnahagshrun sem sögur fara af, sýnt sjálfstæði með nýjum leiðum í stað þess að láta undan þrýstingi og hugmyndafræði markaðsafla. 

Erlendis bera menn stöðu Íslands saman við djúpa efnahagskreppu nokkurra Evrópuríkja og þeirra aðgerða sem beitt er gangvart þeim löndum.  Á Íslandi virðist umræðan aðallega beinast að húsnæðislánum, erfiðri skuldastöðu heimila og að hjólum atvinnulífsins sé ekki komið í gang (engar stórframkvæmdir). Að sjálfsögðu lítur hver í eigin barm, en það gleymist að bera okkur saman við aðrar þjóðir i mikilli skuldakreppu. 

Þessa síðustu viku fyrir Alþingiskosningar sit ég þing Evrópuráðsins  og upplifi enn og aftur þá miklu aðdáun sem við njótum vegna þess árangurs sem við höfum náð við að rétta efnahag landsins við eftir nær vonlausa stöðu að flestra mati.

Staða Grikklands og Kýpur.

Þó nær öll Evrópuríki eigi í efnahagsvanda þá eru nokkur lönd sem eru mjög illa stödd og þarfnast tafarlausrar aðstoðar. Ástandið í Grikklandi og Kýpur er hrikalegt. Á Kýpur er atvinnuleysi ungs fólks yfir 50% , mennta-og heilbrigðiskerfið er í rúst og fólk flytur burt í leit að betra lífi þar sem það sér enga framtíð í sínu heimalandi. Bilið milli ríkra og fátækra breikkar stöðugt og mikill órói og óstöðugleiki er í báðum ríkjum sem erfitt er að segja til um hvernig þróast, flóttamannastraumur til þessa svæðis hefur þar einnig áhrif. Nýnasistar auka fylgi sitt og andúð gegn minnihlutahópum eða útlendingum fer vaxandi með beinum ofbeldisverkum. 

Kýpur er sett slík ofurskilyrði fyrir aðstoð AGS og ESB að innviðir og grunnþjónusta er í lögð í rúst. Sala ríkiseigna og einkavæðing blasir því við.

Íslenska leiðin

Hér á þingi Evrópuráðsins þekkja allir „íslensku leiðina“ þ.e.  að verja grunnþjónustuna sem allra mest, að hækka skatta en hlífa þeim efnaminni, draga tímabundið úr opinberum framkvæmdum og síðast en ekki síst: einkavæða ekki opinbera þjónustu með sölu ríkisfyrirtækja. Okkur tókst það sem öðrum þjóðum hefur enn ekki tekist þ.e. að brjótast út úr hefðbundnum ramma AGS. 

Félagslegar áherslur og aðgerðir hafa skilað miklum árangri á skömmum tíma, hlíft þeim efnaminni, náð að verja grunnþjónustu og dregið úr atvinnuleysi. Það skipti máli að hafa vinstri stjórn í landinu til að forgangsraða í óhjákvæmilegum niðurskurði með jöfnuð, náttúruvernd og sjálfbærni að leiðarljósi. 

Hér á vettvangi Evrópuráðsþingsins er hvatt til þess að AGS og ESB hafi íslensku leiðina að leiðarljósi í þeim aðgerðum sem beitt er til „aðstoðar“ við skuldug ríki í stað þess að setja kröfur um harkalegan niðurskurð og sölu ríkiseigna.  Afleiðingar slíkra þvingunaraðgerða geta orðið enn alvarlegri til lengri tíma litið en skuldastaðan í dag gefur tilefni til.

Pólitískar áherslur skipta máli bæði í kreppu og við uppbyggingu samfélagsins

AGS hafði sett okkur sömu skilyrði og Kýpur þegar núverandi  ríkisstjórn tók við sem minnihluta stjórn  í febrúar 2009. Með skýrum félagslegum áherslum og vilja til að ná tökum á ríkisfjármálum til lengri tíma litið tókst okkur að fá AGS til að fallast á „íslensku leiðina“. 

Að öllum öðrum ólöstuðum þá reyndi í öllu samningaferlinu ekki síst á þáverandi fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon. Er nema von að litið sé til okkar með öfundaraugum og sem fyrirmyndar sem AGS o.fl. verði að líta til komi til efnahagslegra björgunaraðgerða einstakra þjóða. 

Það er greinilegt af viðræðum mínum við fjölda fólks hér á þingi Evrópuráðsins að við hefðum ekki séð mikið af Steingrími á seinni hluta kjörtímabilsins ef hann hefði sinnt öllum þeim beiðnum sem til hans hafa borist um að flytja erindi um „íslensku leiðina“.    

Það er ljóst að efnahaglegt áfall af þeirri stærðargráðu sem við urðum fyrir hlýtur að snerta alla þjóðina með einum eða örðum hætti og það tekur tíma að vinna upp eitthvað af því sem tapaðist.

Hrunið verður okkur enn dýrara en orðið er ef lærum ekkert af reynslunni.  Við viljum ekki aftur 2007 stemminguna, sem byggði á markaðshyggju og bóluhagkerfi  og hefði leitt fjölda heimila í gjaldþrot þótt ekkert hrun hefði orðið.

Sjálfbærni, jafnrétti og félagslegt réttlæti verða að vera leiðarljós þjóða heims ef okkur á að takast að tryggja viðunandi lífskilyrði næstu kynslóða.  Þannig á að stýra hagstjórninni.

Höfundur er alþingismaður

 







Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.