Hversu nauðbeygð erum við?

Ríkisstjórnin hefur nú setið í rúmt ár. Enn eru menn að bíða eftir að eitthvað gerist í atvinnuuppbyggingu, Samtök Atvinnulífsins hafa sagt sig frá hinum fræga stöðugleikasáttmála vegna þess hve seint og illa gengur að þeirra mati. Það hefur þó ekki vantað hugmyndir, sem betur fer líka. Þær eru þó misgóðar, eins og alltaf er hætt við.

ImageSú slakasta sem fram hefur komið er samt sem áður sú sem fram kom í síðustu viku og fól í sér að einkarekið herfyrirtæki frá Hollandi fengi inn á Keflavíkurflugvelli. Ótrúlegt en satt þá voru einhverjir tilbúnir að tala fyrir þessari hugmynd. Þoturnar sem kæmu væru ekki vopnaðar, og þannig var reynt að breiða yfir það að þetta fyrirtæki er ekkert annað en her. Þoturnar eru notaðar til að þjálfa flugmenn í bardögum, flugmenn í bardögum reyna sitt besta til að skjóta niður óvinaþotur. Eftir því sem þú ert betur þjálfaður aukast líkurnar á því að þú hittir. Menn skulu heldur ekki gleyma því að þegar þú skýtur niður óvinaþotu ertu í leiðinni að taka líf þess sem í henni er. Rök þeirra sem héldu þessu standast því enga skoðun.

Það vissu þeir þó sennilega best sjálfir enda var oftast bætt við að staða okkar væri það slæm að Ísland hefði hreinlega ekki efni á því að segja nei. Allt þyrfti að gera og alla kosti þyrfti að skoða. Vissulega er rétt að staðan er ekki góð, atvinnuleysi er mikið og það er hreinlega nauðsynlegt að reyna nánast allt til að smyrja hjól atvinnulífsins, svo maður noti þá stórskemmtilegu klisju. En ég tek fram nánast allt!

Fyrirtæki tengd stríðsrekstri eiga ekki að vera velkominn hingað til lands. Við eigum ekki að vera það nauðbeygð að við glötum virðingu okkar. Þá er ég ekki síður að tala um sjálfsvirðingu okkar en annarra þjóða. Erum við það nauðbeygð að virðingunni sé fórnandi? Það að tengja landið okkar á einhvern hátt við stríð er fyrir neðan okkar virðingu. Þrátt fyrir að útlitið sé svart hér heima eigum við ekki að senda þau skilaboð út til alheimsins að við séum tilbúin í að styðja við hernaðaruppbyggingu. Eru íslendingar nokkuð búnir að gleyma Íraksstríðinu sem er svartur blettur á sögu Íslands, þar sem tveir menn tóku þá ákvörðun að setja nafn landsins okkar á lista viljugra þjóða.

Að sjálfssögðu verður eitthvað að gera hér á landi, og það er alveg rétt að á Keflavíkurflugvelli er ýmislegt til staðar sem gæti nýst í uppbyggingunni. Þar vil ég frekar sjá einkarekið sjúkrahús en þetta, reyndar flest allt en eitthvað sem tengist stríði. Það er nefnilega ekki hægt að bera saman fyrirtæki eins og það hollenska og einkarekið sjúkrahús. Annað fyrirtækið bjargar mannslífum en hitt eyðir þeim.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.