Hví seinkar Norðfjarðargöngum?

Í verksamningi um verkið eru verklok áætluð 1. september. Það hefur nú verið ljóst í allt sumar að verklok yrðu ekki fyrr en í seinni hluta september. Nú eftir sumarfrí hefur verkáætlun verið yfirfarin og leiðrétt og niðurstaðan er að verkinu muni ekki ljúka fyrr en i lok október. Lítið gerðist fyrri hluta ágúst og frágangsverkin reynast drjúg eins og stundum áður.


Staða verksins er í grófum dráttum þannig í göngunum að búið er að malbika og steypa kantstein en eftir að steypa stétt á axlir, þær eru nærri 16 km og er því nokkuð verk. Unnið er að uppsetningu rafbúnaðar og er það verk langt komið búið að setja upp kapalstiga, leggja alla rafstrengi og koma rafmagni á tæknirými sem eru 6, frá jafn mörgum spennistöðvum.

Búið er að setja upp skilti, símaskápa og fleira. Eftir er að setja upp aðalljós í göngin og koma ljósleiðarakerfinu í samband og þar með stjórnkerfinu, auk frágangs í tæknirýmum. Áætlað er að raflögn ljúki að mestu í september.

Varðandi vegagerð utan ganga þá var lagt slitlag á veginn Eskifjarðarmegin í lok júlí, sem þýðir að vegurinn er mikið tilbúinn, en ýmis frágangur eftir, setja upp skilti vegrið og fleira.

Í Norðfirði er 5 km vegur utan ganga og þar er þó nokkur vinna eftir, þar á meðal að koma burðarlagi í veginn og slitlagi auk alls frágangs. Ekki er áætlað að vegagerð og frágangi utan ganga ljúki fyrr en í lok október.

Eðlilegt er að spurt sé af hverju verkinu hafi seinkað. Fyrst má nefna að verktíminn í samningi var talinn nokkuð rúmur, eða um fjögur og hálft ár samanborið við Óshlíðargöng tvö og hálft ár, Norðfjarðargöng eru 7,9 km en Óshlíðargöng 5,3 km.

Göngin eru með sama þversniði, en tíminn sem þurfti til graftar í Norðfirði var þó tiltölulega lengri þar sem meira þurfti að grafa öðru megin, þar gæti munað um einu ári. Gegnumbrot var 17. september 2015 þannig að um tvö ár verða frá gegnumbroti að opnun. Vegagerð utan ganga var sambærileg.

Athygli verkur að notaðir verða um 24 mánuðir frá gegnumbroti í frágang ganganna, eða 3 mánuðir á km, en 10 mánuðir í Óshlíðargöngum eða 1,9 mánuðir á km. Þetta er mikill munur þó að hver km í Norðfjarðargöngum hafi verið eitthvað tafsamari, sérstaklega vegna stéttarinnar og að engin tvö verk eru eins. Rafmagnsmenn komust aðeins seinna að verkinu en áætlað var og það er út af fyrir sig nægileg skýring á því að þeir séu ekki búnir.

Áætlað var að ljúka vegagerð í Norðfirði að mestu 2016, hefði það verið gert, liti málið allt öðru vísi út núna. Það tókst þó ekki og þá er verkefnið orðið nokkuð mikið á þessu ári ásamt með frágangi í göngunum.

Aðalástæðan til þess að verkið hefur dregist svona er að því er virðist undirrituðum mannaflaskortur vegagerðarverktaka, honum hefur ekki tekist að ráða fleiri menn í þessi verkefni síðastliðin tvö ár. Það er ljóst að almennt er mannaflaskortur í greininni í landinu og það hefur legið fyrir um tíma.

Gísli Eiríksson, forstöðumaður jarðgangaframkvæmda Vegagerðarinnar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.