Í fyllingu tímans
„Allt hefur sinn tíma“ stendur á góðum stað. Það gildir um lífið allt,- og fátt virðist hafa meira gildi nú um daga en tíminn. En það er svo yndislegt með tímann að stund tekur við af annarri með nýjum tækifærum. Algengt er að reikna tíma sinn á láréttri línu, en ef nær er skoðað þá er lífið á hringrás með öllum sínum endurtekningum. Náttúran getur kennt okkur margt um það, þó nútíminn með kröfum sínum mæri stundarhag. Birtist það skýrast í kapphlaupinu sem hamast við að vara við glötuðum tækifærum og við verðum því að gefa í. Kaupa meira, gera meira, sigra meira.Í kristnum sið er eins og önnur lögmál gildi. Þar er boðað eilíft líf, og kirkjan eins og tímalaus hreyfing sem lifir aldirnar af, og hver kynslóðin af annarri fetar í gömlu sporin til móts við nýja tíma. Stundum næðir um slíka hreyfingu í argaþrasi dagana og á sjaldnast greiða leið á pallborð vinsældatorga og enn síður í fyrirsagnir fjölmiðla, nema ef út á má setja. En heldur starfi sínu áfram af festu og einurð, þjónar fólki í margvíslegum aðstæðum og þráir að auðga fagurt mannlíf.
Mér varð þetta hugleikið á uppskeruhátíð kirkjuskólabarnanna úr prestaköllum Fjarðabyggðar í Eskifjarðarkirkju sunnudaginn fyrir viku. Þar var fjölmenni, börnin, unglingar, pabbar og mömmur, afar og ömmur, langafar og langömmur, prestar og sjálfboðaliðarnir í kirkjustarfinu. Þetta var eins og tímalaus stund, þegar ég horfði yfir fólkið og sá þar pabba og mömmur sem höfðu verið þar löngu áður lítll börn og sungu sömu versin í bland við ný. Lífsfjörið í í fyrirrúmi með virðingu við heilög gildi, saman í trú, von og kærleika.
Og þar stóð í stafni í heimakirkjunni sinni, sr. Davíð Baldursson, á sínum síðasta degi formlegs embættisferils, geislandi af eldmóði með gítarinn sinn, safnaði okkur saman um hugsjónina í kirkjunni að elska Guð og náungann. Þannig hefur hann þjónað samfellt í 42 ár á Eskifirði og Reyðarfirði,- og Austfjörðum í 25 ár í prófaststörfum sínum. Einstaklingar skipta máli, en enginn verður hetja af sjálfum sér, heldur með samstöðu margra, að laða og leiða til samstarfs um göfug markmið. Þar var sr. Davíð í forystu í samfélagi fólks sem velti þungum hlössum til farsældar fyrir mannlífið. Blómlegt kirkjustarfið ber m.a. vitni um það.
Þannig er kirkjan kjölfesta vegna fólksins sem leggur þar svo mikið að mörkum. Ekki aðeins prestar, heldur sóknarnefndarfólkið, kórfólkið og velvilji fjöldans í garð kirkjunnar, ekki síst þegar á reynir. Það finnum við best, þegar við horfum til kirkjunnar í okkar heimabyggð, og enn frekar þegar við eigum samastað í kirkjunni. Þá upplýkst svo innilega hve traust er að vera hönd í hönd hvert með öðru og í sporum genginna kynslóða í kirkjunni. Þá er eins og tíminn fái innihaldsríka merkingu, en þráum að vera alltaf í sporum trúar, vonar og kærleika sem stenst tímans tönn.
Gunnlaugur Stefánsson, Heydölum