Í tilefni Alþjóðlega krabbameinsdagsins

Í dag, 4. febrúar er alþjóðalegur dagur gegn krabbameini. Markmiðið með því að vekja athygli á þessum degi er að koma í veg fyrir fjölda dauðsfalla vegna sjúkdómsins á heimsvísu, fræða einstaklinga og stjórnvöld og hvetja stjórnvöld til að grípa til aðgerða. Fyrir árin 2022-2024 er þemað; Jöfnuður í aðgengi krabbameinsgreindra að heilbrigðisþjónustu.

Yfirskriftin í ár er: Saman, skorum við á ráðamenn!

Það er áskorun til stjórnvalda að setja aukinn kraft í málaflokkinn og koma honum í farveg sem samræmast krabbameinsspám svo það verði hægt að grípa þessa einstaklinga en ekki fara í skipulagsvinnu of seint sem bitnar á krabbameinsgreindum, aðstandendum og heilbrigisstarfsfólki.

En þessi áskorun á líka við um Heilbrigðisstofnun Austurlands og sveitarfélögin hér á okkar svæði því íbúar okkar svæða eru hluti af þessum auknu krabbameinstilfellum. Við köllum eftir framtíðarsýn og aðgerðaáætlun um hvernig samfélagið okkar hér ætlar að bregðast við þessari fjölgun skjólstæðinga sem þurfa aukna þjónustu hvort heldur er heima eða á stofnunum.

Á Íslandi greinast um 1850 einstaklingar með krabbamein á ári. Spár gera ráð fyrir að árið 2035 greinist hér rúmlega 2500 einstaklingar og árið 2040 greinist hér um 2800 einstaklingar. Eins og þessar tölur gefa til kynna er fjölgun krabbameina á næstu árum gríðarleg en að sama skapi verða miklu fleiri sem læknast af krabbameini og lifa með krabbamein sem krónískan sjúkdóm. Engu að síður er þetta er stór hópur fólks sem þarf aukna þjónustu óháð búsetu og það þarf að hefja undirbúning ekki seinna en strax og útfæra og útvíkka þá vinnu með allt landið að leiðarljósi.

Nú loksins er hafin löngu tímabær vinna stjórnvalda við Krabbameinsáætlun. Krabbameinsfélagið vinnur gríðarlega mikilvægt starf um allt land og er með 27 aðildarfélög. Tvö þeirra eru hér á Austurlandi, Krabbameinsfélag Austurlands og Krabbameinsfélag Austfjarða. Þau eru til staðar fyrir alla sem greinast með krabbamein á svæðinu og aðstandendur þeirra og vinna gríðarlega mikilvægt starf til að styðja við bakið á þeim einstaklingum sem á þurfa að halda og eru svo sannarlega hluti af þeirri keðju að brúa bilið sem er í heilbrigðisþjónustunni og annarri tengdri þjónustu við krabbameinsgreinda og aðstandendur.

Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur starfsemi félaganna, hvort heldur sem þið þurfið á henni að halda eða teljið ykkur geta lagt hönd á plóg því alls konar sjálfboðavinna er í boði.

Verum öll í sama liði og gerum þetta saman.

Formenn Krabbameinsfélags Austfjarða og Austurlands
Hrefna Eyþórsdóttir og Kristjana Sigurðardóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar