Íbúafundur um framtíðarsýn í uppbyggingu innviða á Reyðarfirði

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur boðað til íbúafundar í Grunnskólanum á Reyðarfirði þriðjudaginn 3. mars nk. þar sem ætlunin er að ræða um framtíðarsýn í uppbyggingu innviða á Reyðarfirði. Fundurinn er settur upp sem hugarflugsfundur þar sem íbúar Reyðarfjarðar setjast niður, ræða forgangsröðun og móta tillögur sem síðan nýtast nefndum sveitarfélagsins og bæjarstjórn til ákvarðanatöku. Fundarstjóri á fundinum verður Héðinn Unnsteinsson, stefnumótunarfræðingur.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur lagt áherslu á samráð við íbúa um hvernig þeir telja fjármunum af sölu Rafveitu Reyðarfjarðar, að fjárhæð 410 milljónum kr., verði best varið. Er þannig verið að efla samráð við íbúa um mikilvæg málefni og þau tækifæri sem felast í því að efla innviði samfélagsins með þessum fjármunum. Frá upphafi hefur það verið vilji bæjarstjórnar að ráðstöfun þessara fjármuna sé í góðu samráði við íbúa og samfélag á Reyðarfirði.

Það er vilji bæjarstjórnar að fjármunirnir renni fyrst og fremst til uppbyggingar innviða á Reyðarfirði. Í þeim efnum hefur verið rætt um uppbyggingu íþróttahús en einnig um Stríðsárasafnið, Félagslund, Félagsmiðstöðina Zveskjuna og fleira. Bæjarstjórn er það ljóst að víða er þörf á uppbyggingu og viðhaldi innviða í sveitarfélaginu og er hægt að nýta það fjármagn sem fékkst af sölunni til flýta þeirri uppbyggingu á Reyðarfirði.

Á fundinum gefst íbúum á Reyðarfirði tækifæri til að hafa áhrif á það hvernig þessum fjármunum verður ráðstafað. Fundurinn er þannig uppsettur að fundarmönnum verður skipt niður í vinnuhópa sem fá það verkefni að leggja til forgangsröðun fjármagnsins til þeirra verkefna sem þeir koma sér saman um að mikilvægust séu.

Um er að ræða 410 milljónir króna sem eru til ráðstöfunar. Á fundinum verður lagt upp með neðan greinda málaflokka sem umræðugrundvöll.
1. Samfélagsmál: Íþróttamannvirki, skólamál, velferðarmál.
2. Menningarmál: Söfn, sýningar, samkomusalir, hátíðir og viðburðir.
3. Atvinnumál: Nýsköpun og fjárfestingar.
4. Umhverfis- skipulagsmál: Fegrun bæjarins, skipulagsmál, opin svæði.

Afrakstur þessa fundar fer síðan til frekari umfjöllunar hjá nefndum Fjarðabyggðar, þar sem nánari umfjöllun fer fram, og verða niðurstöðurnar þannig vegvísir við ákvarðanatöku um ráðstöfun fjármunanna.

Með von um góða þátttöku!

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar
Eydís Ásbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.