Kennarar eru ekki í fríi

Horfðuð þið á Kastljós í gær 19. mars? Ég er svo yfirmáta hneyksluð á þáttarstjórnanda sem hélt því ítrekað fram að framhaldsskólakennarar væru í fríi. Menntamálaráðherra reyndi að leiðrétta þetta en hefði mátt bregðast harðar við þessum ósannindum.
Sjálf er ég framhaldsskólakennari og er að bæta á mig mikilli aukavinnu við að færa allt námið yfir í rafrænt á sama tíma og ég er að kenna hvern einasta tíma í stundatöflunni minni í gegnum fjarfundabúnað.

Ég stóð í þeirri meiningu að ég væri að vinna yfirvinnu sem að sjálfsögðu yrði greitt fyrir þegar yfirvöld fengju ráðrúm til að útfæra með hvaða hætti slíkt verður gert.

Það er óþolandi hvernig ítrekað er efast um að kennarar sinni sinni vinnu af alúð. Ég get alla vega fullyrt að kennarar við Verkmenntaskóla Austurlands eru ekki í fríi. Einstaka verkgreinakennarar geta að vísu ekki kennt verklegar greinar en álagið verður væntalega mikið á þá kennara þegar skólinn opnar á ný.

Höfundur er framhaldsskólakennari við Verkmenntaskóla Austurlands.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.