Ingunn Snædal sækist eftir 4.-5. sæti í forvali VG

Ingunn Snædal býður sig fram í 4.-5. sæti í forvali Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðausturkjördæmi sem fram fer 28. febrúar næstkomandi.

copy_of_pict3852.jpg

Ingunn er ljóðskáld  og grunnskólakennari við Brúarásskóla í Jökulsárhlíð á Fljótsdalshéraði. Hún hefur reynslu af margvíslegum störfum, m.a. sveitastörfum, fiskvinnslu, prófarkalestri og þýðingum, auk þess að hafa sinnt ýmsum þjónustu- og umönnunarstörfum.

Ingunn er með B.ed. próf frá Kennaraháskóla Íslands og er komin vel á veg með meistaranám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands. Hún hefur setið í stjórn Bandalags íslenskra sérskólanema, starfað með leikfélögum og sett upp leiksýningar í þeim grunnskólum sem hún hefur starfað við góðar undirtektir.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga og sterkar skoðanir á því hvernig samfélagið okkar skuli rekið og gef kost á mér í sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í krafti hugsjóna minna og heiðarleika. Ég hef brennandi áhuga á menntamálum og mikinn metnað fyrir hönd íslensks menntakerfis, sem ég hef starfað innan með hléum sl. átta ár. Umhverfismál eru mér einnig mjög hugleikin, hvort heldur er í nær- eða fjærumhverfi.  Verndun umhverfisins skiptir æ meira máli eftir því sem neysla eykst. Íslendingar eru í frábærri aðstöðu til að vera öðrum þjóðum gott fordæmi í umhverfismálum og miklu skiptir að umhverfisvernd sé höfð að leiðarljósi á öllum sviðum samfélagsins. Náttúruvernd þarf ekki að stangast á við atvinnuuppbyggingu og verðmætasköpun í landinu."

„Landbúnaðarmál eru mér hugleikin og ég er ekki fylgjandi inngöngu í Evrópusambandið. Ég tel það vanhugsað að horfa með glýju í augum til útlanda eftir ódýrum matarkörfum. Þess í stað þurfum við að styrkja okkar eigin matvælaframleiðslu. Framtíðin er ekki fólgin í verksmiðjuframleiðslu á lágmarksverði, þar sem alls kyns aukaefnum er beitt og fólk og dýr lifa við ómannúðlegar aðstæður. Framtíðin liggur í vistvænum matvælum, neyslu eigin afurða og því þurfum við að hlúa að íslenskum landbúnaði, sjávarútvegi og matvælaiðnaði."

 

 „Ég vil byggja upp samfélag á Íslandi á allt öðrum forsendum en okkur hafa verið gefnar undanfarin ár. Ég vil jöfnuð og réttlæti öllum til handa. Aldrei framar ofurlaun fyrir illar gjörðir, en þess í stað mannsæmandi líf fyrir alla þegna landsins."

Ingunn er gift Eydísi Hermannsdóttur og á eina níu ára dóttur.

Frekari upplýsingar um framboð Ingunnar má má fá á www.ingunnsnaedal.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar