Íslensk heilbrigðisþjónusta óháð búsetu

Öflug heilbrigðisþjónusta er okkur öllum mikilvæg. Þegar við þurfum á heilbrigðisþjónustu að halda viljum við að hún sé í boði í heimabyggð. Að því sögðu þá liggur það í eðli máls að mjög sérhæfð heilbrigðisþjónusta getur einungis verið í boði á höfuðborgarsvæðinu vegna gífurlegrar sérhæfingar sem þarf í ákveðnum aðgerðum, sem einungis er hægt að framkvæma á Landspítalanum.

Fyrir okkur sem búum fjarri höfuðborgarsvæðinu þarf að tryggja að í bráðatilfellum komist veikt fólk fljótt og örugglega í þá sérhæfðu þjónustu sem aðeins er veitt á einum stað á landinu. Það verður því seint ofsagt að mínúturnar skipti öllu máli þegar neyðin bankar upp á og því er mikilvægt að hafa öflugt sjúkraflug og tryggja návígi Reykjavíkurflugvallar við Landspítalann.

Heilsubrestur á landsbyggðinni

Þegar heilsubrestur verður hjá fólki á landsbyggðinni þá er staðan í dag þannig að fólk þarf oftast að fara úr heimabyggð til frekari rannsókna og viðtöl hjá viðeigandi sérfræðingum á höfuðborgarsvæðinu. Núgildandi reglur varðandi niðurgreiðslu á ferðakostnaði eru þær að fólk sem þarf sérfræðiþjónustu lækna utan sinnar heimabyggðar á rétt á niðurgreiðslu fyrir tveimur ferðum á hverju 12 mánaða tímabili. Ef um alvarleg veikindi er að ræða þá duga niðurgreiddu ferðirnar tvær afskaplega skammt og við taka regluleg kaup á flugi vegna meðferða og eftirlits. Ómögulegt er að líta fram hjá því að ferðakostnaður sem til fellur vegna heilbrigðisþjónustu, sem sækja þarf fjarri heimabyggð, getur reynst mörgum afar þungur baggi.

Hver er þá lausnin?

Það þarf að koma til móts við þau sem eru búsett fjarri sérhæfðri heilbrigðisþjónustu Landspítala með því að stórauka tæknivæðingu innan heilbrigðisþjónustunnar til að tryggja betra aðgengi landsbyggðarinnar að heilbrigðisþjónustu. Einnig að mæta hinum með niðurgreiðslu á fleiri ferðum sem þurfa, þrátt fyrir aukna tæknivæðingu, samkvæmt læknisráði að sækja sérhæfða þjónustu á höfuðborgarsvæðið. Þannig má leiða líkur að því að þörfin fyrir niðurgreiðslu ferðakostnaðar dragist saman og rými skapist fyrir að mæta þeim sem þurfa á sérhæfðri þjónustu að halda á höfuðborgarsvæðinu. Með þessu móti er hægt að stórefla aðgengi að heilbrigðisþjónustu á allri landsbyggðinni. Til mikils er að vinna því með aðgerðum sem þessum mætti bæði auka hagkvæmni kerfisins sem og hækka þjónustustig.
Nýtum tæknina, stóreflum þannig heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni á hagkvæman hátt og mætum um leið þeim sem þurfa sérhæfðari þjónustu á höfuðborgarsvæðinu til að standa undir gífurlegum ferðakostnaði þeirra.

Höfundur skipar 3. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar