Jafnrétti til búsetu

Það er kannski ekki pólitískt klókt að tala máli fámennustu byggðarlaganna, enda gera það ekki margir. Ég trúi því hinsvegar að best sé að vera trúr sannfæringu sinni og treysta á að samvinnuhugsjónin eigi alls staðar við.

Það er nefnilega ekki bara í höndum þeirra sem fámennustu svæðin byggja að snúa þeirri þróun við að nú stefnir hreinlega í að stór svæði landsins fari í eyði.

Nú þarf alvöru SAMVINNU allra landsmanna til að snúa þessu við. Ég hef áður talað um skattkerfið, námslánakerfið og frjálsar veiðar smábáta á ákveðnum svæðum sem úrræði sem hægt er að grípa til, vilji menn á annað borð sjá byggð um allt land.

Það er fleira sem þarf að taka á í þessu sambandi. Dreifbýlið er látið borga skatt sem heitir dreifing raforku. Þá borgar landsbyggðin meiri virðisaukaskatt vegna allra flutninga og þar af leiðandi hærra vöruverð. Þá er hægt að nefna kostnað við að sækja læknis- og heilbrigðisþjónustu svo ekki sé minnst á þann ójöfnuð sem hlýst af því að börn þurfi að fara úr foreldrahúsum 15-16 ára gömul til að sækja sér framhaldsmenntun.

Meðan þetta er staðan skulum við viðurkenna að mjög langt er í að jafnrétti til búsetu sé náð. Þá er líka auðvelt að halda því fram að lægri skattar á ákveðnum svæðum séu hreinlega sanngirnismál. Það góða er að allir virðast vera sammála um að jafnrétti til búsetu hvar sem er á landinu sé sjálfsagt mál en gallinn er bara sá að ráðamenn tala um það á fjögra ára fresti en virðast aðeins gleyma sér þess á milli.

Kristinn Rúnar Tryggvason
Ég gef kost á mér í 2. – 4. sæti á framboðslista Framsóknar í Norðausturkjördæmi.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.