35 Jarðgöng á Mið – Austurlandi.

Fyrir rúmlega 20 árum var mikil umræða meðal sveitastjórnarmanna á Austurlandi um að gera jarðgöng með það að markmiði  að rjúfa vetrareinangrun.  Upphafsmenn þessarar umræðu  voru  Jónas Hallgrímsson þá bæjarstjóri á Seyðisfirði og Logi Kristjánsson þá bæjarstóri á Neskaupsstað. Margar hugmyndir voru inn í myndinni, en eftir umfjöllun í jarðganganefnd var talið raunhæfast að gera T-göng  frá Seyðisfirði til Neskaupsstaðar gegnum Mjóafjörð og frá Mjóafirði upp í Eyvindardal og tengjast þannig Héraði.

 

 

Tvisvar sinnum hafa þessi svokölluðu T-göng verið nálægt því að fara inn á vegaáætlun.
1993 var tillaga jarðganganefndar sú að þessi göng yrðu næst inn á á ætlun.
Óeining meðal sveitarstjórnarmanna á Austurlandi tafði framgöngu málsins.  Mönnum bar ekki saman um það hvaða göng ættu að vera fyrst. Á meðan ágreiningur um þetta mál var innan S.S.A. þá gerðu Vestfirðingar heiðursmannasamkomulag við Austfirðinga um að þeir fengju göng á undan okkur  ( Skutulsfjörður – Önundarfjörður ), enda  myndu þeir styðja okkur þegar þar að kæmi.
Til að leysa ágreining um jarðgöng  innan S.S.A.var þingmönnum Austurlands falið að skera úr um það hvaða göng yrðu í forgangi.
Í  jarðgangaáætlun Vegagerðar Ríkisins frá janúar 2000, sem skoða má  á netinu stendur í inngangi:
 “ Þann 11. mars 1999 var samþykkt á Alþingi eftirfarandi þingsályktun:”
“ Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að vinna langtímaáætlun um gerð jarðganga á Íslandi. Áætlunin feli í sér úttekt á kostum sem taldir eru á jarðgangagerð á landinu, kostnaðarmat og arðsemismat einstakra framkvæmda og forgangsröðun verkefna. Sérstaklega verði horft til framkvæmda sem rjúfa vetrareinangrun, koma í stað annarrar kostnaðarsamra vegagerðar, stytta vegalengdir eða stækka atvinnusvæði. Áætlun liggi fyrir áður en lokið verður við næstu reglulegu vegaáætlun “.
 Þessi þingsályktunartillaga breytti áherslum og forgangsröðun í sambandi við jarðgöng á Íslandi allverulega, hún  olli því m.a. að fyrrnefnd göng duttu út.  Þau eru ekki lengur inni í myndinni . Í  Jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar  bls.2  er fjallað um tillögur jarðganganefndar eftir samþykkt Alþingis. Þar stendur:
“ Þær tillögur sem hér eru lagðar fram byggjast að nokkru leyti á nýjum áherslum. Áður hefur við forgangsröðun jarðgangaframkvæmda verið litið á vetrareinangrun sem veigamesta atriðið. Hér má segja að meiri áhersla sé lögð á göng sem geta stækkað og styrkt byggðakjarna, ekki síst með styttingu vegalengda”.
Þá spyr ég :
 Er Fjarðarheiði ekki lengur neinn farartálmi í sambandi við vetrareinangrun ?
Halda menn virkilega að á komandi árum verði snjólaust á Íslandi ?
 Í hretinu sem gerði núna í maí þá lokaðist Fjarðarheiði í nokkra daga.
Það er ekki góðum samgöngumannvirkjum  að þakka að hægt hefur verið að komast yfir Fjarðarheiði  þegar á þarf að halda. Það er aukinni þjónustu vegagerðarinnar og snjóléttum vetrum að þakka.
Í tengslum við laxeldið í Mjóafirði er brýnt að bæta samgöngur þangað.  Samgöngur til Mjóafjarðar verða ekki bættar nema með jarðgöngum. Þó helsta forsenda fyrir jarðgangagerð hafi breyst með þingsályktunnartillögunni, þá standast fyrrnefnd göng aðra þætti hennar s.s. styttingu vegalengdar og stækkunar atvinnusvæðis.
Er raunhæft að tala um að byggja upp eitt atvinnu og kjarnasvæði á Mið – Austurlandi með þær vegalengdir sem eru milli þéttbýliskjarna á  svæðinu í dag ?
Það er kannski hægt að tala um það, en sú hugmynd verður aldrei raunhæf nema með bættum samgöngum. Í mínum huga þýða bættar samgöngur jarðgöng milli stærstu þéttbýlisstaða á Mið – Austurlandi, þ.e.a.s. Egilsstaða, Seyðisfjarðar, Neskaupsstaðar, Eskifjarðar, Reyðarfjarðar, með tengingu við Mjóafjörð. Ef þessi byggðalög eru tengd saman með jarðgöngum þá fyrst getum við   talað um atvinnu og kjarnasvæði þar sem  nú búa u.þ.b. 6000 – 7000 íbúar,  og væntanlega mun fleiri með tilkomu álvers á Reyðarfirði.
Vegalengdin milli jaðarsvæða eins og  Seyðisfjarðar og Neskaupsstaðar  miðað við að göng frá Norðfirði væru með muna í Fannardal   gegnum Mjóafjörð yrðu 26 km. Í dag er þessi vegalengd u.þ.b. 100 km. Ef göngin milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar verða með muna í Fannardal, Þá yrði leiðin frá Eskifirði til Seyðisfjarðar 22 km.Í dag er þessi vegalengd rúmlega 70 km.
Ég get ómögulega skilið hvers vegna göng sem nánast voru kominn inn á áætlun gátu dottið út af völdum einnar þingsályktunartillögu. Göng sem skipta uppbyggingu á Mið -  Austurlandi  höfuðmáli í sambandi við atvinnumál, öryggismál, félagsmál, menningarmál, ferðaþjónustu, og síðast en ekki síst búsetu fólks. Geta þingmenn kjördæmisins e.t.v. svarað þessu?
Ef ástæðan er hrepparíg eða  óeiningu meðal Austfiskra sveitastjórnarmanna eingöngu að kenna. Þá segi ég hættum því.  Hugsum um  Austurland sem eina heild, en ekki bara þann litla radíus sem umliggur hvert byggðalag fyrir sig. Ágirndin ein að leiðarljósi skilar okkur ekki miklum árangri til lengri tíma litið. Það er trú mín að samvinna og samstaða sé vænlegra til árangurs.  29. júní n.k. gengst hópur fólks sem lætur sér velferð og  framtíð Austurlands varða  fyrir fundi  í Sólbrekku í Mjóafirði. Þar höfum við í hyggju að stofna samtök eða félag  sem hefur það að markmiði að koma ofangreindum jarðgöngum aftur inn á áætlun.
Fundurinn hefst kl:14:30 og er opin öllum þeim sem láta sér framtíð Austurlands varða.
Höfum það hugfast að;  Þar sem jarðgöng hafa verið gerð,  þar hefur byggð styrkst. Það mun hún einnig gera hjá okkur.

Grein í Austurglugganum:  

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar