Jólatúrinn og jólapakki frá besta vininum

Nýverið kom út hjá Bókaútgáfunni Hólum ævisaga Magna Kristjánssonar, skipstjóra frá Neskaupstað. Það er Ragnar Ingi Aðalsteinsson frá Vaðbrekku sem skráði og hér á eftir verður gripið niður í einn kafla bókarinnar, „Jólatúrinn – og jólapakki frá besta vininum“:

„Ég var allt sumarið á Vetti en um haustið átti ég að fara í þriðja bekk í gagnfræðaskólanum. Ég streittist á móti en að lokum var samið. Ég færi í skólann en færi jólatúrinn á Vetti ef ég fengi pláss. Ég samdi svo um þetta við þá Denna (Stein Jónsson, skipstjóra) og Steindór.

Mig langaði ekki í skólann. Þegar þarna var komið fannst mér hann eins leiðinlegur og mér hafði áður þótt hann skemmtilegur. Hugurinn var allur á sjónum. Ég var löngu fyrr búinn að ákveða að fara á sjóinn, ætli það hafi ekki bara verið þegar ég var á Hafbjörginni. Þá fannst mér ég vera á réttri leið.

Svo kom að jólatúrnum. Við fórum út en fljótlega var komið vitlaust veður, það var ekta bræla, ekkert veiðiveður þegar við vorum komnir á miðin. Það var slóað og við misstum afturhlerann í sjóinn, svo brotnaði gluggi í brúnni og sitthvað gekk á, þetta var algert skítaveður. Ég var drullusjóveikur meðan veðrið gekk yfir. Við urðum að fara í land til að láta gera við. Að öðru leyti var jólatúrinn tíðindalítill.

Ekki þó alveg tíðindalaus. Þessi túr er minnisstæður fyrir annarra hluta sakir. Þegar til stóð að ég færi með Vetti í nokkurra vikna túr blasti við mér nýtt vandamál. Við Daddi Dóra vorum farnir að fikta við að reykja á loftinu fyrir ofan beituskúrinn hjá Stíganda. Það var notalegt að liggja í gömlum netabing, segja hvor öðrum ýmis krassandi leyndarmál og stelast til að reykja. Við reyktum ekki mikið, kannski svona pakka af Chesterfield á viku. En ég gat ekki hugsað mér að fara tóbakslaus í túrinn. Tóbakkus konungur er harður húsbóndi. Mamma var að ferðbúa mig, setti útbúnaðinn ofan í sjópokann og afganginn í tösku. Denni skipstjóri átti svo að sækja mig. Vöttur beið á Eskifirði. Ég sá engan möguleika á því að koma kartoni af sígarettum í farangurinn án þess að mamma sæi það. Ég vildi hvorki gera mömmu né mínum góða skipstjóra þá hneisu að upplýsa að ég væri farinn að reykja, fimmtán ára gamall.

En þá skaut niður í kollana á okkur Dadda algjör snilldarhugmynd. Ég man ekki hvor okkar það var sem lét sér detta þetta í hug en hugmyndin var einföld í sniðum eins og öll helstu snilldarverk mannkynsins hafa alltaf verið. Við náðum okkur í karton af Chesterfield og útveguðum okkur svo jólapappír, límband, merkispjald og fallegan borða. Svo stungum við okkur upp á loftið yfir beitningaskúrnum og útbjuggum þar gullfallegan jólapakka og á
merkispjaldinu stóð:

Gleðileg jól 1957
Til Magna
Frá Dadda

Morguninn sem ég átti að fara var ég enn ekki kominn á fætur þegar bankað var á útidyrahurðina. Þegar mamma opnaði og leit út í frostið og hríðarmugguna stóð Daddi þar í kuldanum fyrir utan. „Sæl Bogga,“ sagði hann. „Ég er hérna með smápakka handa honum Magna af því að hann er að fara út á sjó.“ Síðan hvarf Daddi út í snjóinn og myrkrið áður en mamma gat átt við hann orðastað. Hún kom svo og ýtti við mér og benti mér á að nú færi Denni að koma, sagði mér í leiðinni að ég hefði verið að fá jólapakka. Hún átti ekki orð yfir það hvað hann Daddi væri nú hugulsamur. „Hann er alveg einstakur,“ sagði hún. Svo bætti hún við: „Nú verður þú að taka eina af þínum gjöfum og gefa Dadda.“ Og svo varð að vera.

Ég var ekki í aðstöðu til að mótmæla. Það var í snatri rifinn upp pakki, sem í reyndist vera bók. Mér var eftirsjá í bókinni. Þetta var auðvitað ekki sanngjarnt. Átti Daddi að fá bók fyrir að hjálpa mér að pakka inn kartoni af Chesterfield? Ég hugsaði margt, en tungan var bundin og þagði.

Við fiskuðum vel og sigldum til Þýskalands til að selja aflann. Þegar heim kom spurði mamma: „Hvað var í pakkanum frá Dadda?“ „Það var alls konar nammi,“ sagði ég. „Ég er búinn með það allt.“

Úr siglingunni kom ég með leikföng fyrir systur mínar og mamma fékk niðursoðna ávexti og fleira. Pabbi fékk tollinn: Þrjá kassa af bjór og sex flöskur af sterku auk annars. Pabbi hafði lengi verið að pressa á mig að fara í nám. Hann hélt því fram að ég gæti auðveldlega lært, hafði þar um alls konar röksemdafærslur. Eftir þennan túr steinhætti hann þessum vangaveltum og lét gott heita að ég yrði „bara“ sjómaður.

Næstu jól sagði Stína mamma hans Dadda að nú yrði hann að gefa mér bók. „Manstu hvað hann var hugulsamur við þig í fyrra?“ Daddi kom svo til mín með pakka – og kímdi.

Mamma skipaði mér að fara inn í bókabúð og kaupa bók handa Dadda. Ég sá mér þann kost vænstan að gera eins og hún sagði. Ég hafði jú stofnað til alls þessa. Þegar ég kom í bókabúðina til Dalla var mest uppselt. Ég man ennþá, eins og það hefði gerst í gær, hvaða bók ég fann handa Dadda:

Æviminningar Sigurðar Ingjaldssonar frá Balaskarði.

Þessi jólagjafaárátta mæðra okkar Dadda fjaraði svo út enda slepptu þær smám saman af okkur höndunum, að minnsta kosti í svona smáatriðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar