„Karma is a bitch!“

Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson bauð sig fram í Norðausturkjördæmi sagðist hann velja kjördæmið sem hefði skapað hann sem stjórnmálamann. Hvatning og stuðningur þaðan hefði orðið til þess að hann varð formaður Framsóknarflokksins. Eftir sjö ár í formannsstólnum gæti það orðið kjördæmið sem fellir hann. Vika er í kjördæmisþing flokksins og eftir þrjú mótframboð í oddvitasæti kjördæmisins er ljóst að Sigmundur Davíð rær lífróður fyrir þing- og formannssætinu.


Flokksmenn á landsvísu hafa ekki vitað í hvorn fótinn þeir eiga að stíga eftir afhjúpanir Panamaskjalanna í vor. Ákafir stuðningsmenn Sigmundar hafa básúnað samsæriskenningar um illar hvatir vogunarsjóða, háskólasamfélagsins og RÚV meðan aðrir hafa þagað og spurt sig hvað sé til ráða. Enginn virtist tilbúinn að bjóða Sigmundi og hans fylgismönnum birginn fyrr en Höskuldur Þórhallsson steig fram. Í kjölfarið fylgdu þingkonurnar Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir.

Við fyrstu sýn kann einhverjum að virðast sem framboð þeirra tveggja sé til höfuðs Höskuldi, ætlunin sé að dreifa atkvæðum áskorandans. Orð kvennanna beggja um að þær séu að bregðast við „ákalli flokksmanna um að fá að kjósa um oddvitasætið“ ættu hins vegar að opna augu manna. Framboð þeirra hlýtur að beinast að bæði Sigmundi og Höskuldi. Þær voru í þriðja og fjórða sæti síðast en hæpið er að þau sæti gefi aftur þingsæti. Þær þurfa að stefna ofar til að eiga möguleika á að halda vinnunni.

Höskuldur hefði seint átt roð í Sigmund. Hann er landlaus utan Akureyrar og meira að segja þar er land hans klofið. Honum hefur löngum verið legið á hálsi fyrir slaka mætingu í þingið auk þess sem fá önnur mál virðast hafa komið frá honum utan flugvallarmálsins, sem þó hefur skipt máli. Þess vegna heyrðist ekkert þegar hann var settur til hliðar fyrir Sigmund fyrir fjórum árum.

Þess vegna er framboð kvennanna tveggja miklu meiri ógn fyrir Sigmund. Þeir flokksmenn sem kallað hafa eftir valkostum fá þá loks. Kosið er í tveimur umferðum, allir eru með í fyrri umferðinni, í þeirri seinni efstu tveir. Mesta hættan fyrir Líneik og Þórunni er að þær deili sínum atkvæðum og komist ekki áfram í seinni umferðina. En landlaus Höskuldur gæti setið eftir og ef önnur fer áfram gætu atkvæði fylgismanna þriggja frambjóðenda fellt oddvitann.

Erfitt væri að sjá fyrrum forsætisráðherra, oddvita og formann taka sæti neðar á listanum. En þingsætin eru ekki víða í boði. Suðvesturkjördæmi verður búið að staðfesta sinn lista þegar kosið verður í Norðaustri. Síðasta kjördæmisþingið verður í Suðri og þar ríkir Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra.

Eins illa og framsóknarmönnum er við að fella sitjandi formann þá er þeim heldur ekki vel við hugmyndina um formann utan þings eins og sást þegar Jón Sigurðsson hvarf á braut fáeinum dögum eftir kosningaósigurinn 2007. Draumastaða margra er að Sigmundur Davíð hverfi á braut af sem mestum sjálfsdáðum svo þeir þurfi ekki að kjósa en þar með neyðast aðrir þingmenn til að taka ábyrgðina af formanninum.

Arfleifð Höskuldar gæti verið maðurinn sem þvingaði fram mótleiki gegn Sigmundi og að Sigurður Ingi sýndi spilin með stuðningsyfirlýsingu við hann sem formann. Það er hins vegar áhugavert að skoða sögu hans og Sigmundar saman. Höskuldur var formaður í fimm mínútur meðan talningarmenn áttuðu sig á mistökum sem gerð voru við lestur talna og Sigmundur tekinn í hans stað. Höskuldi var síðan ýtt til hliðar í kjördæminu. Nú hefur hann vörn í sókn og hver veit nema hann eigi inni hin fleygu orð áður en langt um líður: „Karma is a bitch, Sigmundur!“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.