KHB að liðast í sundur
Nú virðist sem í algjört óefni sé komið hjá Kaupfélagi Héraðsbúa og fjárhagsstaðan slík að ógjörningur sé að fleyta rekstrinum áfram. Samkvæmt heimildum Austurgluggans eru Samkaup reiðubúin til að kaupa verslunarrekstur KHB á Austurlandi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Jafnframt mun N1 vilja kaupa hraðbúð og söluskála á Egilsstöðum og Höfn. Það hvort KHB komist hjá að óska eftir greiðslustöðvun stendur og fellur með því að gengið verði frá þessum samningum. Skuldir KHB munu nema allt að tveimur milljörðum króna.
Jón Júlíusson, varaformaður stjórnar KHB segir stöðuna sára og mjög óskemmtilega. ,,Við vonum að samningar gangi eftir og þá er mikið unnið. Auðvitað er vont að missa forræðið og stjórn yfir verslunarrekstrinum á Austurlandi en mikilvægt að störfin haldist.“ Að öðru leyti vildi Jón lítið tjá sig um málið.
Í gær var haldinn fundur stjórnar með starfsfólki á Egilsstöðum og var Gunnlaugur Aðalbjörnsson, kaupfélagsstjóri, ekki á honum. Mun Gunnlaugur þegar hafa sagt upp störfum hjá fyrirtækinu. Uppnám er meðal starfsfólks og vekur athygli að ekki hafði verið talað við starfsfólk annars staðar en á Egilsstöðum í gær. Ellefu starfsmönnum á skrifstofu KHB var sagt upp í gær.
Í byrjun ársins 2000 undirritaði Samkaup hf. viðskiptasamning um verslunarkeðju eða svokallaðan sérleyfissamning við KHB, sem varð til þess að verslanir KHB fengu sömu nöfn og verslanir Samkaup hf. og bera öll þeirra einkenni. Eiginlegur rekstur verslana á Austurlandi hefur þó verið í höndum KHB.
Ekki er víst að um verulegar ytri breytingar verði að ræða í rekstri verslananna þó Samkaup eignist þær. Samkaup setti þau skilyrði að starfsfólki yrði öllu sagt upp fyrir yfirtöku, en KHB hefur haldið til streitu að slíkt yrði gert eftir yfirtökuna og sett spurningamerki við lögmæti þess að gera slíkt áður en eigendaskipti fari fram. Óljóst er hvernig það endar, en KHB hefur lagt áherslu á að fólk haldi vinnu sinni og réttindum áfram, þó samningar verði losaðir og gerðir upp á nýtt. Jafnframt virðast ekki blikur á lofti að svo stöddu um rekstur verslana á minni þéttbýlisstöðunum.
Kaupfélagið var stofnað fyrir hundrað árum og starfa tæplega eitthundrað manns hjá því. KHB er umfangsmesta verslunarfyrirtæki á Austurlandi. Það starfrækir átta dagvöruverslanir og tvær hraðbúðir og söluskála á Egilsstöðum og Höfn. Félagið er með starfsemi í alls átta byggðarlögum á Austurlandi. Það er því ljóst að gjaldþrot félagsins myndi hafa mikil áhrif á Austurlandi og þá ekki síst á Fljótsdalshéraði, þar sem höfuðstöðvar fyrirtækisins eru.
Gjaldþrot Malarvinnslunnar, dótturfélags KHB, í nóvember sl. gekk mjög nærri fyrirtækinu. Kaupfélagsstjóri og stjórn réru lífróður fyrir fyrirtækið, án árangurs. Ástæða þess að KHB keypti Malarvinnsluna upphaflega, haustið 2007, voru einkum að kauptilboð hafði boðist frá aðila sem hugðist skipta henni upp og fara með starfsemina í burtu. Til að halda störfum og rekstri í héraði afréð KHB að kaupa fyrirtækið og halda áfram yfirstandandi verkefnum þess. M.a. voru væntingar til verkefna vegna álvers á Bakka og víðar, en þær vonir gengu ekki eftir. Gjaldþrot Malarvinnslunnar kostaði KHB um eða yfir 700 milljónir króna. Hluti af því var kaupverð KHB á Malarvinnslunni en líka tapaðist það hlutafé sem kaupfélagið hafði sjálft lagt í fyrirtækið. Jón Júlíusson segir Malarvinnsluna hafa verið þungan bita og upphaf að þrengingum sem menn sáu ekki fyrir. ,,Malarvinnslan var mjög stór vinnuveitandi og þegar fyrirtækið bauðst og fyrir lá að því yrði skipt upp og eitthvað af því færi út af svæðinu vildum við reyna við þetta. Við vissum að reksturinn yrði ekki léttur, en þegar við bættist hrunið fóru mál í óefni,“ segir Jón.
Gangi sala reksturs Kaupfélagsins eftir er félagið eignalaust og verður annað hvort til sem skúffufyrirtæki eða lagt niður.
Búið var að losa allt fé úr innlánsdeild fyrir nokkuð löngu og fjármunir sem bændur og aðrir eiga eru í svokölluðum stofnsjóð. Stofnsjóður KHB glatast væntanlega í þeim þrengingum sem nú eru hjá fyrirtækinu. Ekki fæst upp gefið hvað var í honum.
(Skrifstofur Samkaupa hf. eru í Keflavík og á Akureyri. Fyrirtækið rekur fjórar tegundir af verslunum. Verslanirnar bera heitin Samkaup úrval, Samkaup strax, Nettó og Kaskó. Stórmarkaðirnir eru undir merkjum Samkaup úrval, hverfaverslanir eru undir merkjum Samkaup strax og lágvöruverðsverslanir undir merkjum Nettó og Kaskó. Verslanir Samkaupa eru um 30 talsins og staðsettar víðs vegar um landið. Stjórnarformaður Samkaupa er Magnús Haraldsson og framkvæmdastjóri Sturla Gunnar Eðvarðsson.)