Konur í stjórnmálum

Konur eru menn - en oft frábrugðnar karlmönnum.  Þær eru þó sem betur fer afar mismunandi innbyrðis og erfitt að búa til einfaldan samnefnara sem á að lýsa konum og þeirra hugmyndafræði.

En þar sem konur eru um það bil helmingur mannkyns er bráðnauðsynlegt að fulltrúar þeirra séu allsstaðar.

 

ImageKarlar hafa almennt meira séð um það en konur að stjórna samfélaginu og stofnunum þess fram að þessu. Árangur karlanna er misjafn, oft fínn, en jafnoft ekkert sérstaklega fínn.

Í ljósi þess að við erum að reisa samfélag úr rústum efnahagshruns er freistandi að álykta að það væri fínt að prófa það markvisst og meðvitað að hleypa konum að stjórntækjunum sem allra víðast.

Niðurstöður vandaðrar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis beina sjónum að áhættusækni sem var ástunduð víða í samfélaginu á síðustu árum – og áhættuleikararnir voru oft karlmenn.

Konur taka áhættu en þær eru oft búnar að hugsa leikinn til enda og áhættan því skynsamleg.

Framundan eru sveitastjórnarkosningar, í þeim kjósum við okkur pólitíska fulltrúa til að stýra nærþjónustunni í samfélögum okkar, það er mikilvægt að í þeim hópi séu konur áberandi.

Það er skylda okkar kvenna að koma okkar gildum og vinnubrögðum að og gera þau áberandi við stjórn sveitafélaga, oft hefur þörfin verið brýn en nú er hún alger nauðsyn.

Konur eru sem betur fer víða ofarlega á listum framboða en við þurfum á fleiri konum að halda til að styðja þær sem eru í framvarðarsveitinni,  til að móta stefnuna  og til að kjósa konur.

Stelpur við verðum að láta til okkar taka á öllum sviðum – svo öðruvísi samfélag verði að veruleika.

Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingkona Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.